top of page

Þörfin fyrir ást og samþykki

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jul 31, 2022
  • 3 min read

Updated: Aug 8, 2024

Ég hef verið leitandi alla mína ævi. Frá því að ég var barn og unglingur reyndi ég að finna út úr því hver ég ætti að vera og hvað ég ætti að gera.

Ég reyndi að átta mig á því til hvers væri ætlast af mér. Á Íslandi eru kannski ekki svo sterkar samfélaglegar reglur eða viðmið, við erum ekkert sérstaklega trúuð og þokkalega opin fyrir því að leyfa fólki að vera eins og það er, sem þýðir að það er ekki endilega ein augljós „rétt” leið til þess að lifa lífinu.


Hverjar eru þá reglurnar? Ég reyndi mitt besta til þess að finna út úr því hvað væri réttast að gera og fann svarið í skólanum. Ég áttaði mig á því að það var ætlast til þess að ég mætti í skólann og stundaði námið, að mér gengi vel. Ég var hlýðin og lauk grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla. Ég var ótrúlega menntasnobbuð vegna þess að ég var búin að ákveða að menntun væri það eina rétta.


Það var ekki fyrr en ég lét drauminn minn um að læra erlendis rætast að ég áttaði mig á því að nám væri ekki allt. Ég var komin með þrjár háskólagráður og þurfti að spyrja sjálfa mig að því hvað ég ætti að gera þegar ég væri búin að vera hlýðin og góð og mennta mig. Eltast við að frábæran starfsframa? Nei, ég gerði mér grein fyrir því að fókusa á yfirborðið, að leitast við að vera með ákveðin starfstitil, góð laun, flott heimili og svo framvegis var ekki svarið sem ég var að leita að.


Ég gerði mér ekkert endilega grein fyrir því en ég var stöðugt að horfa í kringum mig, bera mig saman við aðra og lesa mér til, til þess að reyna að finna réttu leiðina til þess að lifa lífinu. Ég hélt að ég þyrfti bara að finna út úr því hvað væri „rétt” og fylgja þeim reglum. Þá yrði allt í lagi. Þá yrði ég í lagi. Þá yrði ég samþykkt og elskuð. Þá yrði ég örugg.


Ég sé núna hvernig ég hef verið að reyna að finna svarið frá því ég var barn og unglingur, reyna að átta mig á því hvað ég ætti að gera og hver ég ætti að vera, til þess að vera elskuð og samþykkt. Ég leitaði stöðugt að svarinu hið ytra; í mínu nánasta umhverfi, í samfélaginu. Líf mitt er búið að snúast um leitina að því sem er rétt, því sem ég ætti að gera, til þess að vera álitin nóg í augum annarra.


Á meðan á þessari leit stóð fann ég stöðugt fyrir óöryggi innra með mér því ég var ekki búin að finna svarið. Ég var ekki búin að finna reglurnar sem ég átti að fylgja. Ég vissi ekki hver gæti sagt mér hvað væri rétt að gera, hvernig væri réttast að vera. Vandamálið var nefnilega það að ég vissi ekki hvað væri rétt og hvað væri rangt, vegna þess að ég vissi ekki einu sinni hver ætti svo sem að ákveða það.


Þegar ég fann svarið gufaði óöryggið innra með mér upp. Svarið er ekki þarna úti. Það er engin manneskja, ekkert samfélag, trúarbrögð, æðri viska sem getur sagt mér hver leiðin er. Eina manneskjan sem getur gert það er ég sjálf. Svarið er að vera ég sjálf og gera það sem mig langar til að gera, lifa lífinu mínu fyrir sjálfa mig.


Ég veit hvað er rétt fyrir mig með því að finna út úr því hvað mér finnst gaman að gera. Hverju ég verð spennt fyrir. Hvað gerir mig glaða. Það er innsæið mitt að segja mér hver leiðin mín í lífinu er. Það eina sem ég þarf að gera er að fylgja því. Ég er svarið. Ég er sólin í mínu eigin lífi. Líf mitt snýst um mig.


Við höfum öll okkar eigin lífskraft og leiðir til þess að lifa lífinu. Það þarf enginn annar að segja manni hver rétta leiðin fyrir mann er, ekki þegar maður er fullorðinn einstaklingur. Eftir þessa uppgötvun er ég orðin ný manneskja, vegna þess að ég veit að það eina sem ég þurfti nokkurn tímann að gera var að elska og samþykkja sjálfa mig. Nú þegar ég elska og samþykki sjálfa mig, get ég hafist handa við að lifa mínu lífi eins og mér hugnast best.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page