Tilfinningaleg viðbrögð við kveikjum
- Guðný Guðmundsdóttir
- Mar 11, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég er sífellt að verða betri í að takast á við það þegar ég triggerast á einhvern hátt. Trigger kallast á íslensku kveikja en hugtakið á við um það þegar gamlar minningar, upplifanir eða viðburðir kalla fram hjá manni tilfinningaleg viðbrögð sem eru ekki í samræmi við það hvernig manni leið áður en atvikið átti sér stað.

Það sem veldur svona kveikjum eru óþægileg umræðuefni, áminningar um atvik úr fortíðinni, eitthvað sem annað fólk segir eða gerir eða jafnvel manns eigin hegðun. Það fyrsta sem gerist þegar fólk finnur fyrir kveikju er að það upplifir sterkar tilfinningar og jafnvel líkamleg viðbrögð, líkt og aukinn hjartslátt, svima, óþægindi í maga eða sveittar hendur.
Fyrsta tilhneiging fólks við slíkum kveikjum er að bregðast við með því að verja sjálft sig eða ráðast á aðra, sem er sjaldnast eða aldrei góð leið til þess að takast á við slíkar aðstæður. Það besta sem hægt er að gera er að taka frekar skref til baka, bókstaflega eða í huganum. Tilfinningarnar líða nefnilega yfirleitt hjá að vörmu spori og þá er yfirleitt hægt að nota rökhugsunina til þess að bregðast við atvikinu sem átti sér stað.
Það krefst þjálfunar en það er hægt að komast á þann stað að vera fær um að taka skref til baka og finna út úr því hvaðan þessar tilfinningar eru upphaflega að koma. Það hjálpar einnig að vera forvitinn um hvað sé raunverulega að eiga sér stað. Að baki þessum kveikjum liggja nefnilega einhvers konar undirliggjandi ótti eða áhyggjur.
Það getur verið að fólk óttist undir niðri höfnun eða svik, gagnrýni eða niðurlægingu, eða finnist það vera útilokað eða hunsað. Það getur óttast að enginn vilji þau eða þarfnist þeirra, eða þvert á móti, að fólk þarfnist þeirra of mikið. Það getur upplifað sig hjálparlaust eða fundist það ekki hafa stjórn á aðstæðunum, upplifað óöryggi eða óttast að þau séu að missa sjálfstæði sitt.
Sama hvað um er að ræða, liggur alltaf eitthvað að baki svona atvikum. Í mínu tilviki hefur það reynst mér vel að þjálfa mig í að bregðast ekki strax við, sem og að gefa mér tíma til þess að finna út úr því hvað er að angra mig þegar ég finn fyrir svona kveikju. Ég get nefnt dæmi um það að ég átti það til að fá tölvupósta í vinnunni þar sem mér fannst fólk vera að tala niður til mín, sem gerði mig afar pirraða og sára.
Í stað þess að bregðast við þessari framkomu, valdi ég að standa upp frá tölvunni, fara fram og fá mér kaffi eða vatnsglas. Þegar ég kom svo til baka í sætið mitt voru tilfinningarnar sem ég upplifði að mestu leyti liðnar hjá og þegar ég las tölvupóstinn yfir aftur, gat ég séð að viðkomandi var ekkert endilega að meina það sem ég hafði lesið út úr orðum hans.
Ég upplifi reglulega slíkar kveikjur, litlar sem stórar, þar sem ég held að ég sé að bregðast við einhverju ákveðnu atviki eða því sem aðrir hafa gert eða sagt, til þess eins að uppgöta eftir á (þegar ég hef haft tækifæri til þess að hugsa málið) að ég var ekki að bregðast við því sem var að gerast á því andartaki, heldur eldri upplifunum mínum og minningum.
Það er því ansi fúlt að bregðast umsvifalaust við slíku atviki með því að taka það út á öðrum eða tækla málin illa, vegna þess að maður hefur ekki stjórn á viðbrögðum manns við slíkum kveikjum. Það krefst æfingar en það sem er hægt að gera í slíkum aðstæðum, í stað þess að leyfa tilfinningunum að taka yfir, er að taka ábyrgð á manns eigin hegðun með því að draga andann djúpt, taka skref til baka og skoða hvað sé raunverulega í gangi áður en brugðist er við.
Comments