Tilgangur lífsins er að vera maður sjálfur
- Guðný Guðmundsdóttir
- Aug 1, 2022
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Fyrir nokkrum árum síðan bjó ég til board á Pinterest fyrir föt og fór að pæla í hvað mér finndist flott og hvernig stíl ég myndi vilja klæðast. Ég held að það hafi aðallega verið vegna þess að ég er minimalisti í eðli mínu og mig langaði að búa til „capsule wardrobe“ og geta átt fáar flíkur sem pössuðu vel saman. Engu að síður var þetta líka leið til þess að kynnast sjálfri mér betur, að vita hvað mér finndist og hvernig týpa ég væri.

Mér finnst mikilvægt að ég hafi gefið mér tíma til þess að kynnast sjálfri mér á þennan hátt, vegna þess að ég er komin á þá niðurstöðu að tilgangur lífsins sé einfaldlega sá að vera maður sjálfur. Við erum öll einstök; við fæðumst hvert og eitt okkar inn í þetta líf til þess að vera þeir einstaklingar sem okkur er ætlað að vera.
Það hljómar ósköp einfalt en það sem flækist fyrir manni er kannski einna helst það að við vitum ekkert endilega hver við erum, auk þess sem við reynum gjarnan að þóknast öðrum eða fylgja óskrifuðum reglum fjölskyldunnar eða samfélagsins, í stað þess að lifa lífinu eins og við myndum helst vilja.
Til þess að vita hvað maður vill í þessu lífi, verður maður að vita hver maður er. Það er ótrúlega erfitt að lifa lífinu fyrir sjálfan sig ef maður veit ekki hvað maður vill og langar í lífinu. Til þess að þekkja sjálfan sig þarf maður að vera meðvitaður, taka eftir hugsunum manns, tilfinningum og viðhorfum. Gefa sér tíma til að kynnast sjálfum sér, burtséð frá því hver maður heldur að maður eigi að vera.
„When you do things from your soul, you feel a river moving in you, a joy.“ – RUMI
Það er ekki sjálfselska að setja mann sjálfan í fyrsta sæti og lifa manns eigin lífi eins og maður vill. Það er einmitt það sem maður á að gera. Það þýðir ekki að maður þurfi ekki stundum að hugsa um velferð annarra; það getur verið manns eigið val að hugsa um aðra, til dæmis með því að gerast foreldri, sinna öldruðum foreldrum eða veikum ættingjum.
Að sama skapi getur ýmislegt komið upp á lífinu sem maður þarf að takast á við en í grunninn er maður ábyrgur fyrir sjálfum sér og hefur ákveðið val um hvernig maður kýs að lifa lífinu. Hvert og eitt okkar þarf að taka ákvarðanir um hvað við viljum að lífið okkar sé og taka ábyrgð á því að gera það að veruleika.
Innihaldsríkt líf lítur mismunandi út fyrir hvert og eitt okkar. Við eigum ekki öll að lifa sama lífinu. Tilgangur einnar manneskju gæti verið að vera búddha munkur, annarrar að vera forstjóri og ráða hundruðir manna í vinnu. Enn einn einstaklingur gæti fundið sig í því að vera fjölskyldufaðir og sá fjórði elskað að ganga á fjöll.
„But I now understand that the key is to always honor who you truly are and allow yourself to be in your own truth.“ ― Anita Moorjani
Hvað mitt líf varðar, finnst mér það ekki þurfa að vera neitt merkilegt. Mig langar bara að njóta þess að vera til. Ég hef áhuga á sjálfsrækt og andlegum málefnum, mig langar til þess að skoða heiminn. Mér finnst gaman að syngja og hef hugsað mér að byrja aftur í kór eða jafnvel í söngnámi einhvern daginn. Mig langar til þess að læra að dansa salsa.
Það er afslappandi að þurfa ekki að vera neitt annað en ég sjálf. Hér áður fyrr var ég alltaf svo alvarleg, vegna þess að ég var svo mikið að reyna að finna sjálfa mig og minn tilgang í lífinu. Mér finnst ég ekki lengur vera að sóa dögunum sama hvað ég geri, þó ég noti þá í tiltekt eða geri jafnvel ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég þarf ekki að bjarga heiminum til þess að mega taka upp pláss eða njóta þess að vera til sem ég sjálf. Þvílíkur lúxus!
Comments