top of page

Trú mín á æðri mátt

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 30, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Þegar ég var yngri velti ég því mikið fyrir mér af hverju við manneskjurnar værum hér á jörð og hver tilgangurinn með þessu öllu saman væri eiginlega.

ree

Eftir að hafa hugsað málið komst ég að þeirri niðurstöðu að við hljótum að endurholdgast og koma hingað aftur og aftur, í þeim tilgangi að upplifa veröldina á eins margan og ólíkan hátt og hægt er. Ég skil fólk sem trúir því að við eigum þetta eina líf, enda eru margir sem nota þá trú til þess að hvetja sig áfram og lifa þessu eina lífi sínu til fullnustu.


Ég get hins vegar ekki sætt við mig þá sýn, vegna þess að það hefur í för með sér mikið óréttlæti – það þýðir að sumir deyja í fæðingu á meðan aðrir lifa til þess að verða hundrað ára, sumir upplifa ríkidæmi á meðan aðrir lifa við fátækt, og svo framvegis. Mér finnst auðveldara að sætta mig við heiminn sem við lifum í eins og hann er, með öllum þeim hrylling og erfiðleikum sem margir upplifa, þegar ég lít svo á að við komum endurtekið til jarðarinnar og fæðumst inn í ólík hlutverk, því það þýðir að við erum raunverulega öll jöfn.


Ég hef aðeins styrkst í þessari trú eftir því sem árin hafa liðið og ég hef orðið næmari á orku og veröldina í kringum mig. Ég þarf ekki að efast um að það sé líf eftir þetta líf, vegna þess að ég hef orðið vör við verur að handan, bæði leiðbeinendur sem og skyldmenni mín sem eru látin. Það hefur hjálpað mér við að takast á við missi og sorg yfir ástandi heimsins, enda er það mikil huggun að trúa því og treysta að við séum eilífar verur.


Þegar ég byrjaði fyrst í andlegum málefnum nýtti ég mér þau aðallega til þess að vinna í sjálfri mér og þeim erfiðleikum sem ég hef gengið í gegnum í þessu lífi. Það hefur tekið mig tíu ár, en ég er komin á þann stað að ég er búin að vinna úr þeim áföllum að mestu leyti, og finn að nýr kafli sé að taka við hjá mér. Sá kafli snýst um það að ákveða hvernig ég vil lifa mínu lífi nú þegar mér líður betur með sjálfa mig og get því virkilega farið að njóta þess að vera til.


Það er góður staður til þess að vera á og nægir mér í sjálfu sér sem ákveðið markmið í þessu lífi. Ég finn hins vegar á þessum tímapunkti að ég sé tilbúin til þess að fara lengra. Hér áður fyrr ætlaði ég mér ekkert endilega að fara út á andlegar brautir til þess að ná einhvers konar árangri í þeim málefnum, eins og sumir sem hafa það að markmiði að uppljómast, ef ekki í þessu lífi, þá í því næsta (eða því næsta, eða því næsta), en það er eins og það sé ekkert annað eftir fyrir mig að gera á þessum tímapunkti.


Þrátt fyrir að ég sé tilbúin til þess að leggja af stað eftir þessari braut, finn ég engu að síður fyrir ákveðnum mótþróa innra með mér, sem tengist því að mér finnst óþægilegt að vera að fjalla um það opinberlega að ég sé andleg manneskja sem trúir á alls konar hluti, til að mynda það að við séum öll eitt, guðdómlegar verur, sem búum hvert og eitt okkar yfir okkar eigin æðri mætti.


Sú trú þætti kannski ekki svo skrýtin ef ég byggi einhvers staðar annars staðar en hér á Íslandi þar sem fólk er almennt ekki trúað, eða trúir jafnvel á trúleysi, en ég hef hingað til veigrað mér við að ræða mínar persónulegu skoðanir og upplifanir vegna þess að það þykir ekki fínt hér á landi, eða jafnvel heimskulegt, að segjast trúa á eitthvað manni æðra.


Ég hef heldur ekki tjáð mínar skoðanir á þessum málefnum vegna þess að ég hef ekki nennt að taka slaginn við fólk sem upplifir veröldina á annan hátt en ég. En ef við sleppum því að eiga þessi samtöl við hvert annað, sleppum því að ræða ólík sjónarmið, er þá mögulega dýrmæt reynsla farin forgörðum?


Augu mín eru að minnsta kosti farin að opnast fyrir því að ég hafi fullan rétt á því að deila minni heimssýn, sem byggir á mínum skoðunum og upplifunum. Þess fyrir utan, þá væri heimurinn kannski betri staður ef við værum almennt duglegri við að miðla af okkar eigin reynslu og að sama skapi opnari fyrir því að hlusta jafnframt á það sem aðrir hafa að segja.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page