top of page

Trú og friður

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Sep 10, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég hef alltaf verið í miklum tengslum við innsæi mitt, jafnvel áður en ég byrjaði í andlegum málefnum.

Ég vissi ekki nákvæmlega hvert ég ætlaði mér, ég lærði bara það sem ég hafði áhuga á og þegar ég fékk tækifæri til þess að láta drauma mína rætast, fór ég af stað þrátt fyrir áhyggjur og kvíða, meira að segja án þess að kynna mér hlutina neitt sérstaklega vel. Það var þannig sem ég valdi mér skóla og nám til þess að stunda, borgir og lönd til þess að flytja til.


Ég hafði ekkert langtímaplan þannig séð, ég tók bara alltaf næsta skref og næsta skref, og þannig hélt lífið áfram. Á einhverjum tímapunkti missti ég hálfvegis tengslin við þetta innsæi. Ég hélt áfram að stíga út fyrir þægindarammann en ég greip ekki lengur öll tækifæri sem mér buðust til þess að gera það sem mig langaði til. Ég fór að efast um það sem ég var að gera, að ég væri á réttri leið, að þetta myndi blessast allt saman.


Þegar ég missti síðan vinnuna, tók við tímabil mikillar óvissu. Ég reyndi að halda áfram að gera hlutina eins og ég var vön, sækja um svipuð störf og ég hafði menntun og reynslu af, en ekkert gekk upp hjá mér. Stundum fékk ég ekki viðtal, stundum fékk ég viðtal og jafnvel seinna viðtal, en var samt ekki valin. Það fór að ganga á spariféið mitt og ég hafði áhyggjur af því hvernig þetta færi allt saman, ekki síst þegar tíminn leið og ég hélt áfram að koma að lokuðum dyrum.


Það var virkilega erfitt að vera í þessum aðstæðum, en þegar ég lít til baka sé ég engu að síður hvernig þetta tímabil hefur hjálpað mér. Ef ég hefði strax fengið aðra vinnu við eitthvað svipað því sem ég var að gera, hefði ég ekki neyðst til þess að taka stöðuna og velta því fyrir mér hvað það væri sem mig langaði allra helst til þess að gera. Ég hefði alltaf valið öryggið sem fylgdi því að vera í þægilegri vinnu með ágætis laun, án þess að hugsa það eitthvað frekar.


Þess í stað fékk ég tækifæri til þess að trúa og treysta því sem ég hef lært af minni andlegu iðkun, að gefa eftir og að sleppa tökunum á þeim hugmyndum sem ég hef um það hvernig hlutirnir eigi að vera, til þess að geta átt það líf sem mér er raunverulega ætlað. Áskorun mín fólst í að treysta því að þó svo að það liti ekki út fyrir það á yfirborðinu, þá væri allt eins og það ætti að vera. Það sem ég geng í gegnum hverju sinni, er nákvæmlega það sem þarf að eiga sér stað í lífi mínu á þeim tímapunkti, jafnvel þó ég viti ekki af hverju.


Þetta traust gengur út á það að það sé einhvers konar æðri máttur, sama hvað maður vill kalla hann, Guð, alheiminn, manns æðra sjálf, sem leiðir mann áfram. Það sem ég veit, það sem hugur minn eða egóið mitt veit, er svo takmarkað, en ef ég hætti að reyna að stjórnast í öllu sjálf og treysti þess í stað á þennan mátt, þá veit ég að lífið muni leiða mig áfram. Því meira sem ég get slakað á, því meira sem ég get verið í flæði og leyft hlutunum að gerast, því betur gengur mér.


Að leyfa hlutunum að gerast þýðir ekki að ég geri ekki neitt, heldur að ég fylgi innsæi mínu, eins og ég var vön að gera hér áður fyrr. Ég veit hvað er rétt fyrir mig að gera, vegna þess að það vekur hjá mér spennu og jafnvel ótta, því það getur verið kvíðvænlegt að stíga út fyrir þægindarammann og ná árangri. Trú mín á eitthvað æðra veldur því að ég er opin fyrir því að draumar mínir rætist á annan hátt en ég sé fyrir mér, að það sem gerist verði jafnvel ennþá betra en ég get gert mér í hugarlund. Ég upplifi frið, vegna þess að ég veit að ég þarf ekki að vita allt, ég þarf bara að taka næsta skref, í trausti þess að það muni verða mér fyrir bestu.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page