top of page

Um mikilvægi þess að fylgjast með hugsunum sínum

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Feb 24, 2020
  • 2 min read

Updated: Mar 2, 2021


Bryggja sem liggur að hafi og heiðum himni

Ég hef allan tímann í heiminum þessa dagana. Þar sem ég er atvinnulaus, en ennþá á launum, þarf ég hvergi að vera. Ég er í fríi fram á vor eða þangað til ég finn mér eitthvað að gera. Það er auðvelt að vera grimm við mig og gagnrýnin á það hvernig ég ver tímanum. Hugurinn vill alltaf að ég sé eitthvað að gera. Kvartar yfir því að ég strunsi ekki upp á Esjuna annan hvern dag. Ég ætti að sjálfsögðu að mæta í ræktina að minnsta kosti einu sinni eða tvisvar í viku. Í staðinn geri ég ekki neitt.


Víst geri ég hluti! Ég er í þriggja ára námi og ég er með bækur á Kindle af leslista fyrir námið sem ég ætla mér að lesa. Ég er komin í vikulegan hugleiðsluhóp og get meira að segja mætt þar aukalega á fimmtudagskvöldum. Ég er að slaka á og læra að njóta lífsins – hef nú þegar farið í spa og nudd á Hótel Grand og ætla að prófa Hydroflot í vikunni. Ég er auk þess byrjuð að mæta til sálfræðings og ég hugleiði daglega. Svo tek ég náttúrulega til heima hjá mér af og til. Hvað geturðu beðið um meira?


Tja, ég er ekki að sækja um öll möguleg og ómöguleg störf sem ég gæti hugsanlega fengið. Ég hef ekki hafið minn eiginn rekstur á einhvers konar vefritstjórnar- eða samfélagsmiðlaþjónustu. Ég er ekki farin út í heim, að stunda hugleiðslu í ashram á Indlandi eða jóga á Balí. Ég fer ekki einu sinni að heimsækja bróður minn til Svíþjóðar, hvað þá foreldra mína á Hólmavík. Ég er ekki að nýta þennan tíma – sem kemur ekki aftur! – í nokkurn skapaðan hlut. Geri ekki það sem er rétt. Veit ekki einu sinni hvað þetta rétta sem ég á að vera að gera er.


Hvert í heitasta helvíti. Hugurinn/egóið/neikvæða röddin í huganum er sterkt afl sem lætur mann ekki í friði, allra síst þegar maður ver flestum stundum einn á heimili sínu. Svona rökræði ég við sjálfa mig á hverjum einasta degi í „fríinu“. Svona rökræði ég við sjálfa mig alla daga, punktur, yfir mismunandi hlutum eftir því sem við á hverju sinni. Aldrei nógu dugleg, aldrei nógu klár, aldrei nóg.


Víst er ég nóg. Ég er ekki sú eina sem berst stöðugt við þennan huga. Flest erum við að reyna að sannfæra okkur um að við séum að gera hlutina rétt og að við séum í lagi. Ég er ein af milljónum einstaklinga út um allan heim sem stendur í þessari baráttu. Ég anda inn og minni mig á að vera vitnið. Ekki hugurinn sem gagnrýnir, heldur vitnið sem sér baráttuna sem á sér stað. Ég verð að taka eftir hugsunum mínum og velja hvaða rödd ég ætla að styrkja. Þá sem rífur mig niður eða þá sem byggir mig upp. Ég anda út … og ég er hér og nú. Ég er nóg.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page