top of page

Uppspretta hamingjunnar

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jul 5, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég hef ekki verið neitt voðalega hress undanfarið og því hef ég mikið verið að velta því fyrir mér hvernig mér geti liðið betur.

Þegar maður leitar að ástæðum til þess að vera hamingjusamur liggur beint fyrir að sjá allt það góða sem maður hefur í lífi sínu; fjölskyldu og vini, húsnæði, starfsframa, andlega og líkamlega heilsu, sem og allt það sem maður gerir til þess að láta sér líða vel og njóta lífsins, þess að geta gert vel við sig í mat og drykk eða tekið sér eitthvað skemmtilegt fyrir hendur.


Þetta hljómar vel en vandamálið er að lífið er stöðugt breytingum háð. Fólk getur misst vinnuna, heilsuna, jafnvel fjölskyldu og vini. Það getur glímt við fjárhagserfiðleika, verið ófært um að eyða pening í neitt nema helstu nauðsynjar og verið í þeirri aðstöðu að líf þess einkennist almennt af óvissu. Það gefur því auga leið að hamingjan getur ekki verið fólgin í neinu sem hægt er að taka af manni fyrirvaralaust.


Ef ekki er hægt að treysta því að ytri aðstæður manns séu í lagi, hlýtur hamingjan því að verða að koma innan frá. Það er nákvæmlega þetta sem ég hef verið að reka mig á síðastliðna mánuði, þar sem aðstæður mínar hafa ekki verið eins og best er á kosið. Ég geri mér vel grein fyrir því að ég geti ekki beðið eftir að hlutirnir breytist svo að mér geti liðið vel, mér verður að geta liðið vel, burtséð frá því hvort að líf mitt gangi vel eða illa.


Það hvernig mér líður stjórnast af viðhorfum mínum og hugsunum. Þegar ég hef áhyggjur eða velti mér upp úr því hvernig hlutirnir eigi eftir að fara, leyfi ég neikvæðum hugsunum og ótta að taka yfir. Þegar ég vel að treysta því að allt eigi eftir að ganga vel, fókusa á að vera þar sem ég er stödd hverju sinni og vera þakklát fyrir það sem ég hef nú þegar, líður mér vel. Það er á mína ábyrgð að þjálfa mig í að velja hugsanir mínar og velja þær jákvæðu yfir þær neikvæðu.


Þó svo að ég viti hvað ég þurfi að gera, þýðir það ekki að það gangi alltaf vel hjá mér. Ég er orðin langþreytt á aðstæðum mínum; ég á stundum erfitt með að vera á því sérhæfða mataræði sem ég er á, finnst leiðinlegt hvað það er mikið bras í gangi hérna heima hjá okkur þar sem það er verið að skipta um þak, ég er ennþá ekki viss um hvað muni taka við hjá mér næstu vikur og mánuði og mér finnst leiðinlegt að geta lítið gert til að gleðja mig því ég er alltaf að reyna að spara eins mikið og ég get.


Ég myndi svo gjarnan vilja að aðstæður mínar færu að breytast til hins betra. Ég veit hins vegar að besta leiðin til þess er að halda áfram að hugleiða daglega og vinna í sjálfri mér, því markmiðið mitt er að komast á þann stað að geta stjórnað því hvernig mér líður, sama hvað gengur á hverju sinni. Það kaldhæðnislega er, að eftir því sem ég verð betri í því að breyta hugsunum mínum og viðhorfum, því líklegri er að ytri aðstæður mínar breytist og endurspegli það sem er að gerast innra með mér.


Það er ekki endilega auðvelt að skipta neikvæðum hugsunum út fyrir jákvæðar en það er engu að síður eina leiðin til þess að geta liðið vel, þar sem að það er nokkuð augljóst að enginn annar, engar utanaðkomandi aðstæður, geta gert mig hamingjusama. Ég verð að geta vaknað á morgnana, glöð og sátt, jafnvel þó ég geti ekki vitað fyrirfram hvað hver dagur muni færa mér. Það getur nefnilega enginn látið mér líða vel nema ég sjálf – ég verð sjálf að vera uppspretta hamingjunnar innra með mér.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page