Út fyrir þægindarammann
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jun 25, 2020
- 3 min read
Updated: Mar 2, 2021

"Hey, ég gæti mögulega verið góð í þessu." Þetta hugsaði ég í lok sjötta tímans af Dale Carnegie námskeiðinu sem ég ákvað að skella mér á um daginn, um það að tala fyrir framan hóp af fólki. Hingað til hefur mér fundist fátt hræðilegra í lífinu en tilhugsunin um það að vera á einhvern hátt í sviðsljósinu, að þurfa að standa á sviði eða halda ræður. Ég hafði því lengi verið meðvituð um að svona námskeið gæti verið mér hjálplegt, en það kom mér hins vegar verulega á óvart að uppgötva að ég gæt jafnvel haft gagn og gaman af því.
Fyrir nokkru síðan hafði vinkona mín stungið upp á því við mig að ég færi í prufutíma hjá markþjálfa, en það sem kom út úr því var að ég ákvað endanlega að drífa mig á þetta námskeið hjá þeim. Ég er almennt dugleg við að taka námskeið af ýmsum toga, enda þyrstir mig alltaf í að læra nýja hluti, en í atvinnuleysinu fannst mér þetta vera fullkomið tækifæri til þess að efla sjálfstraustið og víkka út sjóndeildarhringinn.
Ég tók almenna námskeiðið hjá þeim á ákveðinni hraðferð núna í maí og júní, en það var kennt tvisvar í viku yfir fjórar vikur (þó það sé vanalega kennt einu sinni í viku í átta vikur) og útskrifaðist því formlega af námskeiðinu þann 15. júní síðastliðinn. Markmiðið með námskeiðinu er að hjálpa manni að efla sjálfstraustið, bæta hæfni í mannlegum samskiptum, efla tjáningarhæfileikana, þróa leiðtogahæfileika og bæta lífsviðhorf manns.
Námskeiðið hjálpaði mér að sjá betur á hvaða sviðum mér gekk alveg ágætlega og hvar ég gæti bætt mig enn frekar. Ég er nú þegar með ágætis sjálfstraust, eftir að hafa unnið mikla sjálfsvinnu til þess að efla það, og ég komst að því að ég var nú töluvert betri í því að halda uppi spjalli við fólk en ég hélt. Þegar liðið var á námskeiðið æfðum við okkur svo í því að hrósa fólki og taka á móti hrósi sjálf, en það gaf mér innsýn í það hvað fólk sá í mér sem ég sá ekkert endilega í sjálfri mér og kom skemmtilega á óvart.
Ég var einmitt sérstaklega glöð og undrandi þegar ég komst að því að fólki fannst ég virka yfirveguð þegar ég kom fram og að stressið, ef eitthvað var, sæist ekki utan á mér. Sömuleiðis fannst mér gleðilegt að uppgötva að það að tjá sig fyrir framan fólk sé í sjálfu sér ekkert öðruvísi en að tjá sig í rituðu orði; hvoru tveggja snýst jú um að segja sögu og koma henni frá sér á áhugaverðan og frambærilegan hátt. Í lok námskeiðsins var ég orðin áhugasöm um að æfa mig meira í því að að koma fram, og hugsaði meira að segja með mér að ég gæti jafnvel haft gaman af því að tala og segja frá, sem mig hefði aldrei grunað að gæti gerst.
Það allra ánægjulegasta var þó að vera með frábæra þjálfara og hluti af svona góðum hóp, en með hverri vikunni deildum við meiru og meiru með hvort öðru og kynntumst betur og betur. Við komumst að því að við vorum flest öll álíka stressuð yfir verkefnunum sem við vorum að vinna og að hvert og eitt okkar hafði sína sögu að segja. Það sýndi mér að við eigum oft meira sameiginlegt með fólki en mann myndi gruna í fyrstu. Í staðinn fyrir að vera upptekin af mínum eigin verkefnum og framförum, var ég alveg jafn spennt fyrir þeirra frásögnum og stolt af því að sjá þau vaxa og dafna, viku eftir viku.
Ég hafði afar gott af því að fara á námskeiðið og mæli heilshugar með því að taka skrefið og prófa eitthvað nýtt. Því segi ég; förum endilega reglulega út fyrir þægindarammann, því þannig eflum við sjálfstraustið og þroskum okkur áfram.
Comments