Vertu þinn eigin besti vinur
- Guðný Guðmundsdóttir
- May 18, 2023
- 3 min read
Updated: May 23, 2023
Ég hef verið hugsi yfir því undanfarið hvað við manneskjurnar getum verið hörð við okkur sjálf.

Ég þekki fólk sem er að ganga í gegnum erfiðleika, sem gerir illt verra með því að skamma sjálft sig fyrir að eiga erfitt eða líða ekki nógu vel, í stað þess að sýna sjálfu sér mildi og kærleika á erfiðu tímabili í lífi þess. Ég velti því fyrir mér hvað veldur?
Ég hugsa stundum til þess þegar ég var í grunnskóla, hvað það var lögð mikil áhersla á að við nemendurnir stæðum okkur öll vel. Við áttum helst að fá 10 í öllum fögum og ganga vel í íþróttum og/eða tómstundum, burtséð frá því að það er náttúrulega ekki hægt að vera góður í öllu.
Ég upplifði mikla pressu í tengslum við námið, sérstaklega þegar ég var orðinn unglingur og stóð frammi fyrir því að velja mér leið í lífinu. Ég átti að fá góðar einkunnir, halda áfram í framhaldsnám og passa mig á því að velja rétta námsleið. Ég vissi svo sem ekki hvað myndi gerast ef ég veldi ekki rétt, en mér fannst ótrúlega mikilvægt að ég tæki ekki ranga ákvörðun.
Mér fannst ekki vera neitt svigrúm til þess að gera mistök, en það að gera mistök er bara hluti af því að læra og þroskast. Það á að vera leikur að læra og það að vera ungur á að fela í sér tækifæri til þess að kynnast sjálfum sér og heiminum og komast að því hvað maður vill gera við þetta líf sem maður á.
Það á að vera gaman og spennandi að prófa sig áfram og uppgötva nýja hluti. Það er heldur engin ein rétt leið í lífinu og ekkert af því sem maður tekur sér fyrir hendur er til einskis. Það er yfirleitt hægt að nýta reynslu á einhvern hátt og það er alltaf hægt að breyta til síðar meir ef fólk vill fara í aðra átt, læra eitthvað nýtt eða skipta um starfsvettvang. Það eina sem þessi pressa gerði mér var að ýta undir kvíða, vanlíðan og áhyggjur og gera mig hrædda við heiminn.
Ég veit að það útskýrir að einhverju leyti af hverju ég hef verið svona gagnrýnin á sjálfa mig, en það eru auðvitað mismunandi ástæður fyrir því að fólk gerir svona miklar kröfur og setur óraunhæfar væntingar á sjálft sig. Það er hins vegar ekki hægt að vera með allt á hreinu, alltaf. Það ganga allir í gegnum tímabil í sínu lífi þar sem það tekst á við erfiðleika eða áföll og það er eðlilegt að eiga stundum erfitt.
Það hjálpar ekki að skamma sjálfan sig fyrir það ofan á allt annað. Það er engin ástæða til þess að skamma sjálfan sig fyrir að vera að vinna úr gömlum tilfinningum og sársauka, fyrir að vera að glíma við vanlíðan. Það er mikilvægt að maður hlúi að sjálfum sér og setji sjálfan sig í fyrsta sæti. Það er ekki fyrr en við erum sjálf í lagi sem við getum gefið af okkur til annarra, án þess að fara yfir okkar eigin mörk.
Margir gera þau mistök að vera til staðar fyrir aðra fyrst, sama hvað. En ef við erum gjörsamlega úrvinda, getum við engum hjálpað. Fólki finnst eins og það sé eitthvað slæmt við að hvíla sig en við þurfum líka á því að halda að gera stundum nákvæmlega ekki neitt. Það er ekki nóg að sofa bara á nóttunni til þess að fá næga hvíld, það þarf líka að eiga andartök í gegnum daginn þar sem maður gerir ekkert.
Það þarf að vera jafnvægi á milli þess að framkvæma og þess að hvílast. Heimurinn er orðinn svo uppfullur af áreiti að við þurfum virkilega að taka ákvörðun um hvað við ætlum að taka þátt í og taka inn á okkur. Ef það er brjálað að gera í vinnunni, þá kannski situr félagslífið á hakanum í einhvern tíma. Ef fólk er með ungabörn, þá þarf það ekkert endilega að mæta í ræktina. Kannski gerum við bara það sem við komumst yfir í dag og látum það vera nóg. Kannski gengur bara betur næst.
Kommentare