top of page

Að gera eða vera

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Mar 17, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég áttaði mig nýlega á því að ég væri orðin ansi taugatrekkt, eftir nokkrar vikur þar sem ég hafði þurft að skipuleggja mig vel og sjá til þess að ég leysti ákveðin verkefni á hverjum degi.

Það endaði svo með því að ég varð orðin lasin, en þar sem ég gat ekki sleppt því að sinna því sem ég hafði tekið mér fyrir hendur, hélt ég áfram að gera og græja þar til að ég var komin með dúndrandi hausverk og gat ekki einu sinni slakað á, þó ég fegin vildi.


Þegar ég horfi til baka sé ég hvernig ég hef verið að bæta á verkefnalistann minn, vegna þess að ég hef fengið tækifæri til þess að gera hluti sem eru jákvæðir og uppbyggjandi. Ég er að sjálfsögðu í fullu háskólanámi, auk þess sem ég er í þriggja ára námi í sjamanisma og þátttakandi í vikulegum hugleiðsluhóp, en ég hef líka verið að taka styttri námskeið hér og þar, t.d. ekki aðeins eitt heldur tvenn markþjálfunarnámskeið sem mér bauðst að vera með í frítt.


Þess fyrir utan finnst mér eins og ég eigi að vera fær um að afreka svo ótrúlega margt, vegna þess að ég á hvorki börn né gæludýr, og hafi þess vegna nægan tíma til þess að gera allt sem ég hef áhuga á að gera. Ótrúlegt en satt þá hefur hins vegar komið í ljós að þessir hlutir taka bæði tíma og orku, og þó svo að ég hafi kannski meiri tíma en margir aðrir til þess að verja í áhugamál mín, hef ég víst ekkert fleiri klukkustundir í sólarhringnum.


Þetta ástand mitt var komið á þann stað að ég var farin að finna fyrir áðurnefndum hausverk, sem ég fæ aldrei nema í þeim tilvikum þar sem ég hef flaskað á því að fá mér frískt súrefni, drekka nóg af vatni, eða þá að ég er orðin svo ótrúlega stressuð að líkaminn er farinn að senda frá sér slíkt neyðarkall. Hausverkurinn var þó ég ekki nóg, því ég var auk þess farin að finna fyrir vöðvabólgu í öxlunum á mér.


Það góða við þetta var að ég áttaði mig á því hversu langt það er síðan ég hef verið svona stressuð, manneskja sem var stöðugt kvíðin og áhyggjufull hér áður fyrr. Líf mitt hefur greinilega breyst töluvert frá því sem áður var, því þetta er alls ekki ástand sem er mér kunnuglegt lengur. Það að ég var komin á þennan stað núna, þýddi því að ég hafði tekið upp slæma ávana frá fyrri tímum, því ég var alls ekki lengur í eins góðu jafnvægi og ég er orðin vön.


Ég þurfti því að taka stöðuna og skoða hvað ég væri að gera rangt. Fyrir það fyrsta áttaði ég mig á því að ég hafði einfaldlega færst of mikið í fang. Þó svo að ég hefði áhuga á öllu því sem ég var að læra, og að ég væri að fá mikið af góðum hugmyndum og ráðum út úr því, var ég einfaldlega að gera of margt í einu, sem var farið að taka sinn toll. Ég lærði af þessu að ég þarf að passa mig á því að taka ekki of mörg verkefni að mér.


Ég sá líka hvernig ég hef þörf fyrir að standa mig sem allra best í því sem ég tek mér fyrir hendur, sem var ekkert endilega að hjálpa mér. Þarna var fullkomnunaráráttan alveg að kikka inn, en ég veit að ég þarf að venja mig á að hlutina án þess að setja það álag á mig að þeir þurfi að vera eins vel gerðir og hægt er. Það er alveg nóg að ég geri mitt besta, það besta sem ég er fær um á þeim tímapunkti.


Ég áttaði mig einnig á því að ég var að bera mig of mikið saman við annað fólk. Það eru til einstaklingar sem búa yfir mismikilli orku og geta gert ótrúlega margt í einu, en ég er ekki ein af þeim manneskjum, ég verð að passa mig á því að hvíla mig inni á milli verkefna og hlaða batteríin. Ég þarf því að leyfa mér að slaka á og njóta þess að vera til. Mér leið enda töluvert betur hér áður, þegar ég var ekki að reyna að sigra heiminn með verkefnalistann að vopni. Það þarf nefnilega ekki alltaf að gera, það má bara vera.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page