top of page

Að læra að setja heilbrigð mörk

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 18, 2020
  • 3 min read

Updated: Mar 2, 2021


Ég réð ekki við mig, ég var alveg að verða viðþolslaus við það að þurfa að hlusta kurteislega á fólkið sem var með mér í hóp deila upplifunum sínum. Ég sem hef alla tíð verið svo góður hlustandi. Eitthvað hafði þó breyst, vegna þess að þetta var ekki í fyrsta sinn undanfarna mánuði þar sem ég gat varla hugsað mér að hlusta á það sem aðrir höfðu að segja.


Þar sem ég sat þarna rann skyndilega upp fyrir mér ljós. Ég varð svo pirruð við að hlusta á aðra vegna þess að ég var alveg komin að þolmörkum með það að taka tilfinningar annarra og líðan inn á mig. Ég var vön því að finna til ábyrgðar þegar öðrum leið illa, eins og ég gæti einhvern veginn lagað það sem væri að hjá þeim hverjum og einu.


Á sömu stundu áttaði ég mig hins vegar jafnframt á því að aðstæðurnar sem ég finn mig í nú til dags eru allt aðrar en þær voru áður. Fólkið sem ég umgengst eru fullorðnir einstaklingar sem eru fullfærir um að taka ábyrgð á sínu eigin lífi, enda vorum við einmitt samankomin þennan dag til þess að stunda sjálfsrækt. Mitt eina hlutverk í hópnum var að hlusta og sýna stuðning, alveg eins og þau myndu vera til staðar fyrir mig ef ég þyrfti á því að halda.


Þessi gremja sem hafði fundið sér leið upp á yfirborðið snérist ekki um líf mitt núna, heldur þær aðstæður sem ég hafði fundið mig í þegar ég var yngri og hafði ekki lært að setja mörk. Það var ekki ég, sem fullorðin manneskja, sem þoldi ekki að hlusta á það sem aðrir höfðu að segja, heldur barnið innra með mér sem var komið með nóg af því að hafa sífelldar áhyggjur af því hvernig fólkinu í kringum mig liði.


Við þessa uppgötvun fór ég einnig að skoða og sjá hvernig ég hef haldið fólki í ákveðinni fjarlægð frá mér, svo að ég þyrfti ekki að taka líðan þeirra inn á mig. Ég hafði einfaldlega ekki rými til þess innra með mér að vera í tilfinningalegri nálægð við nema svo og svo margar manneskjur hverju sinni. Þetta hefur að öllum líkindum orðið til þess að ég hef ekki kynnst eða vingast við fólk sem ég hefði mögulega getað átt í góðum samskiptum við, vegna þess að ég gaf ekki færi á mér.


Það sem mér finnst best við að sinna minni sjálfsvinnu eru hins vegar svona atvik, þegar ég næ ákveðnu breakthrough sem hjálpar mér að skilja sjálfa mig betur og komast á betri stað. Ég hef lengi verið að vinna með meðvirknina í mér, en þetta er aðeins eitt dæmi um það hvernig hún blessunin hefur haft lúmsk áhrif á líf mitt.


Mér gætu fallist hendur við að sjá og skilja hvernig hegðun mín og viðhorf hafa komið í veg fyrir heilbrigð sambönd í mínu lífi, en það eina sem ég get gert er að halda áfram að grúska í sjálfri mér, vera meðvituð um hugsanir mínar og tilfinningar og spyrja sjálfa mig spurninga. Af hverju líður mér svona? Hvað er að angra mig? Hvaðan er þessi tilfinning að koma?


Í þessu tilviki hef ég loksins lært að ég er ekki ábyrgð fyrir öðrum, en að ég sé engu að síður fær um að hlusta á fólk og vera til staðar fyrir það án þess að taka líðan þeirra inn á mig persónulega. Ég hef lært hvernig mér líður þegar ég set ekki skýr mörk og hversu mikilvæg heilbrigð mörk eru, sérstaklega í nánum samskiptum mínum við aðra.


Ég er nefnilega ekki lengur barn eða unglingur, ég er fullorðin manneskja sem er fær um að velja fólkið sem ég hef í kringum mig og taka ábyrgð á því að eiga aðeins í heilbrigðum samskiptum við þá einstaklinga. Ég þarf ekki að eiga í samskiptum við fólk sem reynir að vaða yfir mín mörk eða misnota sér góðvild mína.


Það er svo nákvæmlega svona sem ég held áfram að vaxa og þroskast, með því að grandskoða hvað er að gerast þegar eitthvað er að angra mig og vinna úr hverju og einu atviki þegar það kemur upp.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page