Að líta í baksýnisspegilinn
- Guðný Guðmundsdóttir
- Aug 29, 2024
- 4 min read
Updated: Oct 25, 2024
Ég fékk þá hugdettu í sumarfríinu að þýða pistlana mína yfir á ensku.

Það er ekki nýtilkomið; mig langaði að gera það nánast frá upphafi þessa bloggs, en vefsíðan mín bauð ekki upp á það á sínum tíma. Ég hef vitað af því í einhvern tíma að það væri nú orðið mögulegt en ekki komið mér í þetta verkefni, en þegar ég fæ svona hugdettur óvænt þá tek ég mark á þeim.
Við þýðingarnar hef ég verið að lesa pistlana mína yfir en ég hef tekið eftir því að ég upplifi stundum eitthvað aha moment og mér finnst allt vera eins og blómstrið eina, en ekki svo löngu síðar skrifa ég um að ég sé enn að takast á við ákveðna hluti þrátt fyrir að hafa talið mig vera komin á betri stað.
Það er engu að síður góð og gild ástæða fyrir því, það er nefnilega svolítið þannig sem þetta heilunarferli virkar. Það er ákveðin ryþmi í þessari vinnu; ég hef að minnsta kosti lært að þó svo að ég hafi talið mig vera búna að vinna úr ákveðinni reynslu eða tilfinningu þá geti hún alltaf bankað upp á seinna, en þá er ég yfirleitt komin niður á dýpra lag.
Stundum kemur hins vegar eitthvað alveg nýtt upp úr dúrnum. Það gerðist hjá mér þegar ég byrjaði að takast á við ótta, sem ég fór fyrst að verða vör við fyrir tveimur, þremur árum, en ég fór að finna sterkt fyrir núna á þessu ári.
Ég fann fyrst fyrir þessum mikla ótta þegar við kærastinn minn vorum að keyra í gegnum einbreið göng og ég var alveg að fara á límingunum yfir því. Fyrr á þessu ári byrjaði ég síðan að verða mjög stressuð yfir alls konar verkefnum sem ég var að takast á við, sérstaklega í vinnunni, og óttaðist að ég væriað klúðra málunum eða ekki að standa mig.
Í dag þegar ég finn fyrir áhyggjum og kvíða við tilhugsunina um verkefnin mín þá hugsa ég gjarnan um eina af mínum uppáhalds zen sögum um munk sem fór snemma morguns út á báti að hugleiða. Hann var þar dágóða stund á miðju vatninu þegar annar bátur rakst í bátinn hans. Hann, sem sat þarna með lokuð augun, varð pirraður yfir trufluninni en hélt áfram að hugleiða.
Svo gerðist þetta aftur, og hann varð meira pirraður, en hélt áfram að hugleiða. Svo gerðist það í þriðja sinn að báturinn rakst í hans bát, en þá var hann orðinn ansi reiður og opnaði augun til þess að skamma manneskjuna sem væri að angra hann – en þá var ekkert þar nema tómur bátur!
Munkurinn uppljómaðist samstundis við að átta sig á því að reiðin – og allt sem hann upplifði – væri innra með honum. Áhyggjur mínar snúast einmitt ekki um verkefnin mín eða það sem ég er að takast á við, heldur er um að ræða kvíða og ótta sem býr innra með mér. Ef ég væri ekki kvíðin og óttaslegin, þá gæti ekkert utanaðkomandi haft áhrif á mig.
Þegar ég byrjaði fyrst að vinna í sjálfri mér fyrir mörgum árum síðan, þá kom fyrst upp mikil sorg. Það gekk svoleiðis lengi vel, en þegar ég var komin lengra áleiðis í minni vinnu fór ég allt í einu að upplifa mikla reiði. Nú virðist ég vera komin niður á ótta, sem er gjarnan að finna í manns innsta kjarna og þannig séð góðs viti að vera komin svona langt á leið á þessari vegferð.
Mér finnst ótti ótrúlega erfið tilfinning að eiga við. Hún blossar upp af miklum krafti og það er margt að skoða þar varðandi afkomu, fjárhagsáhyggjur og að upplifa sjálfan sig öruggan í heiminum. En ótti er bara tilfinning og eins hver önnur vill hún fá að koma upp á yfirborðið frá undirmeðvitundinni til þess að vera séð og heyrð – og að því loknu gufar hún upp.
Þetta er ekki auðveld vinna alltaf hreint, en hún er þess virði þegar maður sér árangurinn af henni. Hann birtist í því að viðbrögðin verða önnur en þau voru. Ég get t.d. strax núna séð muninn á mér en ég er ekki lengur jafn hrædd og ég var til að byrja með. Ég keyrði t.d. í gegnum einbreið göng um daginn og var pollróleg yfir því. Ég er líka minna smeyk við að klúðra málum eða gera mistök.
Það er þannig sem þessar tilfinningar virka þegar það opnast á eitthvað nýtt hjá manni, þá gerist það gjarnan af miklum offorsi, að minnsta kosti fyrst um sinn. Svo eftir því sem líður á, og tilfinningin kemur upp, aftur og aftur, þá fer hún smá saman að minnka, bæði vegna þess að maður fer að venjast henni, vingast við hana, en einnig vegna þess að það verður alltaf minna og minna eftir í sárinu sem þarfnast tjáningar.
Og svona heldur vegurinn áfram, en þess vegna er svo gott að staldra við og líta stundum í baksýnisspegilinn, því þannig sést hversu langt maður er kominn á leið.
Comments