top of page

Að sættast við sjálfa mig

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jun 11, 2023
  • 3 min read

Updated: Jun 28, 2023

Ég hef varið of miklu af lífi mínu í að bera mig saman við aðra og óska þess að ég væri önnur manneskja en ég er.

Ég held að það sé vegna athugasemda sem ég fékk þegar ég var yngri, um það hvað ég væri róleg og feimin, eins og það sé eitthvað að því að vera þannig týpa. Ég túlkaði það sem svo að það sem ég hefði fram að færa væri ekki nógu gott, en það varð til þess að ég fór að gera lítið úr sjálfri mér, frekar en að kynnast sjálfri mér og kunna að meta þá eiginleika og hæfileika sem ég bý yfir.


Ég er bara að átta mig á því núna að ég hef alltaf litið á kosti mína sem galla; það að ég sé róleg, samviskusöm, skipulögð og stundvís. Ég er góð í að sjá mál frá mismunandi sjónarhornum, er mikill pælari og framkvæmi ekki fyrr en ég er búin að hugsa málin vel og vandlega.


Mér hefur fundist eins og þeir eiginleikar sem ég bý yfir séu ekki endilega eitthvað sem fólk kann að meta en þeir eru samt nauðsynlegir. Ólík verkefni og störf þarfnast ólíkra einstaklinga. Það er ekki gott að vera með fyrirtæki þar sem allir starfsmennirnir eru eins. Það þarf fólk sem er ákveðið og hugmyndaríkt en það þarf líka fólk sem fær slíka einstaklinga niður á jörðina svo hægt sé að gera raunhæf plön.


Það er vandamál að það sé látið eins og ákveðnir eiginleikar séu betri en aðrir og að sumir séu svo heppnir að vera þannig einstaklingar. Þvert á móti þarf að finna réttu manneskjuna í rétta starfið. Sölufólk, forritarar, endurskoðendur o.s.frv. þurfa að búa yfir ólíkum eiginleikum. Skólakerfið ætti raunar að aðstoða börn og unglinga við að finna út úr því hvaða styrkleikum og veikleikum þau búa yfir og hvers konar starfsvettvangur eða umhverfi muni henta þeim best.


Þessar vangaveltur hjá mér eru enn eitt skref á leið minni að því að taka sjálfa mig í sátt. Ég trúi á að vinna í sjálfri mér en sumu í fari mínu fæ ég ekki breytt. Ég get ekki skipt um persónuleika. Ég er búin að óska þess svo lengi að geta breytt ákveðnum hlutum í mínu fari, en ég get það ekki og það hefur tekið alltof mikla orku frá mér að reyna að berjast á móti mínu eigin eðli.


Það er kominn tími til þess að kunna meta sjálfa mig eins og ég er og vera þakklát fyrir þá hluti í mínu fari sem eru góðir og gildir kostir sem koma sér vel í ákveðnum verkefnum. Það hjálpar mér ekki og er tímasóun hjá mér að reyna að vera einhver sem ég er ekki. Ég sé það núna að ég hef alltof lengi verið fókuseruð á það sem ég er ekki, frekar en það sem ég er.


Þetta hefur verið að breytast hjá mér, enda hefur mér líka liðið öðruvísi undanfarið. Ég finn að ég er ákveðnari, sjálfsöruggari. Mér líður eins og ég hvíli betur í sjálfri mér. Ég finn líka muninn á sjálfri mér eftir líðan, hversu mikið ég slaka á þegar ég er sátt við sjálfa mig versus hversu mikið það dregur mig niður og þreytir þegar ég dett í efasemdir og óska þess að ég væri öðruvísi á einhvern hátt.


Ég get haldið áfram að vinna í sjálfri mér en ég get gert það með öðrum áherslum. Í stað þess að gagnrýna sjálfa mig, get ég spurt sjálfa mig annarra spurninga en ég er vön; hvernig ég geti betur nýtt mína eiginleika og hæfileika? Hvernig ég geti stutt við þá manneskju sem ég er og leyft sjálfri mér að blómstra? Það lætur mér líða betur, að vera glöð og ánægð með sjálfa mig, og gerir mig spenntari fyrir framtíðinni og öllu því sem ég á eftir að taka mér fyrir hendur.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.


Kommentare


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page