Að starfa sem miðill
- Guðný Guðmundsdóttir
- Dec 17, 2020
- 3 min read
Updated: Mar 2, 2021

Miðlar eru eins ólíkir og þeir eru margir. Það eru til einstaklingar sem hafa verið skyggnir frá því þeir voru börn, á meðan aðrir fara ekki að finna fyrir neinu yfirnáttúrulegu fyrr en á fullorðnisaldri. Hjá sumum þróast slíkir hæfileikar hægt og rólega yfir margra ára, jafnvel áratuga tímabil, á meðan það opnast skyndilega á næmni annarra. Hvort sem um ræðir, þurfa allir sem eru næmir að læra á og styrkja hæfileika sína með þjálfun til margra ára. Það er því alls ekki svo að fólk sé annað hvort skyggnt eða ekki.
Flestir þeirra sem eru næmir ræða það ekki við hvern sem er og hafa engan áhuga á því að gera það að starfi sínu. Þó svo að við Íslendingar séum kannski opnari fyrir andlegum málefnum en margar aðrar þjóðir, þar sem við erum gjörn á að tala um drauma okkar og innsæi, krefst það engu að síður hugrekkis fyrir fólk að fara út fyrir þægindarammann og játa að það sé ögn skrýtnari en fólk er flest. Það er mun meira til af einstaklingum hér á landi sem kjósa að fara ekki hátt með miðilsgáfur sínar en fólk gerir sér almennt grein fyrir.
Það finnst nefnilega engum neitt sérstaklega æðislegt að vera miðill. Einstaklingar sem starfa sem miðlar þurfa að sætta sig við að vera á margan hátt öðruvísi en flest fólk og sinna starfi sem mikill meirihluti fólks trúir ekki á að sé raunverulegt. Þeir hafa einnig í mörgum tilfellum gengið í gegnum einhvers konar erfiðleika um ævina sem gera þeim kleift að setja sig í spor annarra og hjálpa þeim sem þurfa á aðstoð þeirra að halda.
Ég er ein af þeim sem uppgötvaði næmni mína ekki fyrr en á fullorðinsaldri. Þrátt fyrir að hafa verið að læra um mína hæfileika á þessum sviðum í að verða tíu ár núna, finnst mér enn ekki þægilegt að tala um sjálfa mig sem miðil og heilara, hvað þá að starfa við slíkt. Ástæðan fyrir því er sú að ég hef ekki verið tilbúin til þess að opna almennilega fyrir þessa hæfileika, vegna þess að ég er enn að sætta mig við að ég sé svona gerð og að þetta andlega líf sé og verði lífið mitt.
Ég er ekki ein um það. Síðastliðin áratug hef ég farið á fjöldann allan af námskeiðum í andlegum málefnum og verið þátttakandi í hugleiðslu- og þróunarhópum, þar sem ég hef kynnst fjölmörgum einstaklingum sem eru næmir á einhvern hátt. Hver og ein einasta manneskja sem ég hef kynnst og unnið með, hefur haft efasemdir um sig og sína hæfileika. Það er eitt nefnilega eitt að búa yfir skyggnigáfu og annað að vera tilbúinn til þess að vinna með þá hæfileika.
Það er stór og mikil ákvörðun fyrir manneskju að ákveða að starfa opinberlega sem miðill. Slíkur einstaklingur þarf raunverulega að gefa það upp á bátinn að lifa eðlilegu lífi, eins og hver önnur manneskja, fyrir tilvist sem er ókunnug og óútreiknanleg. Viðkomandi þarf að vera tilbúinn til þess að vera hreinskilinn með sínar upplifanir, hvað sem öðru fólki finnst. Að komast á þann stað krefst yfirleitt mikillar vinnu og undirbúnings, sama frá hvers konar bakgrunni fólk kemur.
Að vera í andlegum málefnum er alls ekki sú leið í lífinu sem ég ætlaði mér að fara, enda hef ég streist á móti því lengi vel. Þrátt fyrir það get ég ekki hunsað það tak sem þessi framandi veröld hefur á mér. Það er eitthvað þægilegt við þá tilhugsun og tilfinningu að það sé eitthvað meira, eitthvað plan eða vegferð sem leiðir mig stöðugt áfram. Þegar ég sinni andlegum málefnum, með hugleiðslu eða núvitund, lestri andlegra bókmennta eða heimsókn til minna andlegu leiðbeinanda hér á jörð, finnst mér ég vera heima. Það er ekkert betra en það.
Comments