Fyrri lífa heilun
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jun 1, 2023
- 3 min read
Updated: Jun 28, 2023
Ég hef farið reglulega í heilun um langt skeið og finnst það algjörlega nauðsynlegt í minni sjálfsvinnu.

Það sem hefur breyst hjá mér þegar ég hef farið í heilun síðastliðið ár, er að ég upplifi yfirleitt reynslu úr fyrri lífum sem ég þarf að vinna með. Ég tel að ástæðan fyrir því sé að ég er búin að vinna mikla vinnu í sjálfri mér og því sem ég hef gengið í gegnum í þessu lífi, sem þýðir að þegar ég held vinnslunni áfram, þá tekur eitthvað við sem ég er enn að burðast með úr fyrri lífum.
Ég átti t.d. sterka slíka upplifun í sjaman náminu mínu í fyrra. Við lærðum ákveðna heilunaraðferð í náminu (Brennan heilun) og vorum að æfa okkur en ég var heilunarþegi. Við áttum ekki að vera að fókusa á fyrri líf í þessari heilun, en það er samt það sem kom upp hjá mér. Mér fannst ég vera landnámsmaður í Norður-Ameríku en ég lá fyrir dauðanum. Ég hafði verið með hópi manna sem urðu að skilja mig eftir þegar ég slasaðist til ólífis.
Ég blótaði þeim í sand og ösku fyrir að skilja mig þarna eftir. Ég hugsaði með mér að mér væri sko alveg sama um þá, ég gæti bara séð um mig sjálfan – þyrfti heldur betur ekki að reiða mig á neinn. Þetta var merkileg upplifun á margan hátt, því aðeins nokkrum dögum fyrr hafði ég verið að hugsa um að horfa á þættina Frontier með Jason Momoa sem fjalla um þetta tímabil, eins og eitthvað drægi mig að þessari upplifun.
Það er engin ástæða til þess að skoða fyrra líf nema eitthvað sé að hafa áhrif á líf manns í dag. Mér finnst fyrri lífa vinnsla koma upp hjá mér þegar ég þarf að vinna úr einhverju sem getur bætt líf mitt á þessum tímapunkti. Það er merkilegast að finna það að eitthvað breytist hjá manni eftir að hafa farið í gegnum slíka heilun.
Munurinn sem ég fann á mér við þessa heilun var að ég komst þarna í samband við þennan hluta af sjálfri mér sem dó í þessu lífi. Morguninn eftir þessa heilun fannst mér ég vera uppfull af karlorku – mig langaði til þess að fara að smíða eitthvað eða lyfta lóðum. Patricia kennarinn minn sagði að ég hefði endurheimt þennan landnámsmann sem ég var.
Þessi upplifun skýrir líka af hverju ég hef alltaf átt erfitt með að vera hluti af hóp. Ég hef alltaf átt erfitt með að treysta hópum og yfirleitt verið í huganum með annan fótinn út um dyrnar, tilbúin að forða mér ef þess þarf. Eftir þessa heilun fann ég mun á því, ég heilaði þarna gamalt sár og upplifði mig í fyrsta sinn sem raunverulegan hluta af þessum hóp sem ég var í námi með.
Það getur verið hjálplegt að fara í fyrra lífa heilun þegar eitthvað er að angra mann sem ekki er hægt að útskýra af lífinu sem maður lifir í dag. Við komum inn í þetta líf með ákveðna hluti úr fyrri lífum sem höfum tækifæri til að vinna með og hreinsa. Fóbíur geta t.d. komið til af áföllum sem fólk varð fyrir í fyrri lífum. Ég hef a.m.k. upplifað mjög sterkan ótta við hluti og aðstæður sem tengjast ekki neinu sem ég hef orðið fyrir í þessu lífi.
Ég óttast t.d. óeðlilega mikið að gera mistök eða valda fólki vonbrigðum. Ef ég klúðra einhverju líður mér stundum eins og ég verði skömmuð eða jafnvel barin, þó ég hafi aldrei orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í þessu lífi. Ég hef líka upplifað mikla innilokunarkennd og mig hryllir við tilhugsunina um að lenda í snjóflóði eða festast í göngum. Ég er viss um að þessi atriði eigi eftir að koma upp í heilun hjá mér á einhverjum tímapunkti.
Það er hægt að fara í heilun með það að markmiði að vinna úr einhverjum ákveðnum ótta eða tilfinningum en mín reynsla er sú að það komi sem á að koma. Fyrr á þessu ári upplifði ég fyrra líf þar sem ég var barn í kaþólskum skóla, þar sem ekkert mátti og tilveran snérist um að skammast sín fyrir að vera svona mikill syndari.
Mér tókst að losa út mikla skömm og ótta í þessari heilun, sem var mikill léttir, en ég skildi líka af hverju mér finnst stundum erfitt að njóta þess að vera til. Það var hreinlega ekki í boði á þessum tíma og þessum stað. Mitt markmið með því að fara í heilun er að losa mig við sem mest af þeim ótta og sársauka sem ég bý enn yfir, svo að þessar tilfinningar séu ekki að halda aftur af mér eða koma í veg fyrir að ég geti lifað hamingjusömu lífi hér og nú.
Comentarios