Þín persónulega umbreyting hjá Starcodes Academy
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jul 13, 2023
- 3 min read
Síðast vetur bauðst mér tækifæri til þess að vinna með þeim Ölmu og Hrabbý í Starcodes Academy og fara í gegnum námskeiðið þeirra, Þín persónulega umbreyting.

Námskeiðið er byggt á orkustöðvavinnu og er sambland af persónulegri leiðsögn, hugleiðslum, fræðslu, hópavinnu, samveru, dagbókarskrifum og fjölbreyttum heimaverkefnum. Á námskeiðinu eru þátttakendur leiddir í ferðalag sjálfskoðunar þar sem m.a. er spurt:
Hver er ég?
Hverjir eru draumar mínir í lífinu og á hvaða hátt er ég að vinna að því að láta þá rætast?
Hvað er helst að hindra mig í að lifa því lífi sem mig langar að lifa? Er ég að standa í vegi fyrir sjálfri mér á einhvern hátt?
Hvernig get ég lágmarkað þessar hindranir eða hreinlega rutt þeim úr vegi?
Hvernig get ég æft mig í að setja bæði sjálfri mér og öðrum heilbrigð mörk?
Hvað get ég gert til að vera besta útgáfan af sjálfri mér og lifa í sátt og samlyndi við allt sem er?
Öllu efni námskeiðsins, hugleiðslum, fræðslu o.s.frv. var miðlað af Hrabbý og Ölmu undir leiðsögn Metatron erkiengils sem hefur yfirumsjón með prógramminu. Námskeiðið er því einstakt í sinni röð og aðeins í boði á Íslandi enn sem komið er.
Þín persónulega umbreyting er fyrir alla þá sem tilbúnir eru að skoða sig á heiðarlegan og opinskáan hátt, vinna í hindrunum sínum, efla tengingar sínar við alheiminn og stefna í átt að draumum sínum. Æskilegt er að þátttakendur hafi reynslu af hugleiðslu og séu á einhvern hátt komnir af stað í sinni sjálfsvinnu.
Námskeiðið stendur yfir í 9 mánuði og á þeim tíma eru níu staðlotur (14 dagar alls), níu Zoom fundir, sex einstaklingstímar og fjöldi heimaverkefna. Námskeiðið er 140 kennslustundir auk þess sem gert er ráð fyrir um 400 stundum í heimavinnu. Námskeiðinu fylgja hátt í 60 hljóðupptökur af fræðsluefni, æfingum og hugleiðslum, innrammaður persónulegur ljóskóði, kristall, dagbók, lokað samfélag á Facebook til stuðnings og persónulegur stuðningur í gegnum allt námið.
Nú eru þær Alma og Hrabbý að fara af stað með prógrammið í fjórða sinn, svo það er ennþá tækifæri til þess að skrá sig og vera með þeim í vetur. Ég veit að ég bý að því að hafa tekið þátt, en ég fer út úr náminu með fjöldann allan af hugleiðslum og fræðsluefni sem ég mun halda áfram að nýta mér. Ég hef t.d. hugsað mér að fara í gegnum allt efnið aftur frá byrjun í vetur og fylgja hugleiðslunum eftir í þeirri röð sem við fórum í gegnum þær á síðasta ári.
Auk þess að kynnast Ölmu og Hrabbý, fékk ég líka tækifæri til þess að vera með sex öðrum konum í hóp síðastliðinn vetur sem ég kynntist mjög vel, enda er þetta vinna sem þarf að fara fram í miklu trausti og kærleika, en markmiðið er að sjálfsögðu að halda hópinn og hittast af og til, nú þegar okkar námi er lokið. Mér þykir einmitt svo vænt um það í öllu andlegu námi að kynnast fleira fólki sem er í svipuðum pælingum um lífið og tilveruna.
Að sjálfsögðu kynntist ég einnig sjálfri mér enn betur, en ég bý yfir meira sjálfsöryggi til þess að halda áfram á minni braut. Ég hef haldið áfram að prófa nýja hluti og framkvæma það sem mig hefur langað til, en ég tók t.d. Engla Reiki 1&2 hjá Ölmu í vor, er byrjuð að stunda daglegar líkamsræktaræfingar, hef gert breytingar á minni vinnu með því að fara aftur í hálft starf hjá Geðhjálp og byrja í hálfu starfi hjá Bataskóla Íslands þann 1. september næstkomandi, auk þess sem ég er á leiðinni á námskeið í jafningjastuðningi hjá Traustum kjarna.
Comments