top of page

Að tilheyra samfélagi

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Apr 6, 2020
  • 3 min read

Updated: Mar 2, 2021


Hangandi ljósaperur sem lýsa í myrkrinu

Ætli strætisvagnastjórar hittist mikið fyrir utan vinnu, velti ég fyrir mér þar sem ég sit enn sem fyrr í strætó. Þeir heilsast alltaf svo kumpánlega þegar þeir mætast – eru þeir bara svona kurteisir eða eiga þeir sér mikið félagslíf? Mér hlýnar um hjartaræturnar í hvert sinn sem ég verð vitni að þessu athæfi. Ég kýs að ímynda mér að bílstjórarnir tilheyri góðu og uppbyggjandi samfélagi sem gerir þeim kleift að veifa glaðlega til góðra félaga sinna, mörgum sinnum á dag.


Við virðumst mörg hver ekki tilheyra svona samfélögum lengur, enda er gjarnan fjallað um hversu mikið vandamál einmanakennd er orðin í hinum vestræna heimi. Mikið af fólki glímir við depurð vegna þess að það er eitt á báti; á kannski fáa eða enga að, eða tilheyra fjölskyldu sem er ekkert endilega samhent. Margir upplifa sig þar af leiðandi án stuðningsnets. Þetta er flókið og erfitt fyrir hjarðdýr eins og okkur sem lifði hreinlega ekki af hér áður fyrr nema það væri hluti af tribe eða ættflokk þar sem hver og einn gegndi ákveðnu hlutverki til þess að tryggja afkomu ættflokksins.


Ég upplifði það í fyrsta sinn á síðasta ári hversu gott og gjöfult það er að tilheyra slíku samfélagi. Frá því að ég var barn og unglingur hef ég glímt við erfiðleika og vanlíðan sem mér fannst ég ekki endilega geta deilt með fólki. Á ákveðnum tímapunkti í lífi mínu leiddi það mig inn á andlegar brautir. Það var ekki langt fyrir mig að seilast í því átt enda ólst ég upp hjá foreldrum sem áttu það til að heimsækja miðla einstaka sinnum og pældu gjarnan í draumum sínum og hvers konar skilaboð þeir geymdu.


Í minni sjálfsvinnu hef ég verið tilbúin til þess að prófa raunverulega allt sem er í boði sem gæti gagnast mér, hvort sem það kallast hefðbundnar eða óhefðbundnar lækningar. Almennt séð er ég mjög varkár manneskja og ég skoða og rýni mál vel og vandlega áður en ég tek ákvarðanir. Ég treysti sjálfri mér þar af leiðandi vel til þess að komast að því hvað hentar mér á þessari heilunarbraut minni. Ég hef til að mynda nýtt mér heilun af ýmsum toga, farið reglulega í höfuðbeina- og spjallhryggsmeðferð, prófað bowen-meðferð, nálastungur, dáleiðslu og margt, margt fleira. Eftir næstum tíu ár á þessari vegferð skráði ég mig að lokum í nám í sjamanisma.


Í stuttu máli er sjamanismi forn andleg iðkun sem gengur út á að sjaman kemst í hugarástand sem gerir honum mögulegt að upplifa og eiga í samskiptum við andaheim, til þess að öðlast visku og þroska. Ég vissi raunverulega ekki út í hvað ég var að fara þegar ég skráði mig í þetta nám, en ég er alltaf að leita leiða til þess að dýpka mína andlegu vinnu og heilun. Það sem ég fann í þessu námi var hópur fólks sem telur 25 einstaklinga (sem flestir eru Íslendingar en nokkrir koma auk þess erlendis frá), kennarann minn og fjóra aðstoðarkennara, sem eru samankomin til þess að læra, heilast og styðja við hvert annað á þessari þriggja ára vegferð okkar saman.


Síðastliðið rúmt ár sem ég hef varið í námi með þessum hópi fólks höfum við kynnst hvort öðru betur og betur. Sjálfsvinnan sem við stundum í náminu krefst þess að við séum fullkomlega opin með það hver við erum og reiðubúin til þess að vera viðkvæm og einlæg, ætlum við okkur að ná einhverjum árangri af viti. Við höfum grátið saman, huggað hvort annað og faðmast, og samgleðst með hvert öðru þegar vel gengur. Þessar aðstæður hafa neytt mig til þess að opna enn frekar á það hver ég er og hver ég vil vera, en árangurinn sem ég er að ná með sjálfa mig hefur ekki síst með það að gera að ég tilheyri nú hópi fólks sem ég get leitað til þegar eitthvað angrar mig eða deilt því með þeim þegar ég hef eitthvað til þess að gleðjast yfir.


Ég hef lært hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem manneskjur að finna fyrir því að við eigum okkur stað eða tilheyrum samfélagi þar sem að við upplifum að við pössum inn og eigum okkur samastað. Lífið gengur einfaldlega upp og ofan en það hafa ekki allir efni á því að leita sér aðstoðar sálfræðinga eða annarra ráðgjafa þegar eitthvað bjátar á og því er mikilvægt að geta leitað sér stuðnings hjá hópi eða samfélagi. Slíkt samfélag þarf ekki að snúast um andleg málefni, það getur alveg eins verið crossfit-hópurinn manns, saumahópurinn, stjórnmálaafl eða stuðningshópar hvers konar. Ekkert okkar er eyland og það að eiga sér samastað getur hjálpað hverju og einu okkar að líða betur þegar erfiðleikar eða einmanakennd bankar upp á.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comentarios


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page