Að vera ekki heilög heldur sönn
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jun 27, 2022
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég áttaði mig á því um daginn að ég þurfi ekki að vera svona voðalega kurteis og almennileg.

Ég hef ekki hugsað mér að vera vísvitandi leiðinleg eða dónaleg við fólk en ég vil geta verið ég sjálf og deilt mínum skoðunum og upplifunum, jafnvel þó að það séu ekki allir sammála mér. Ég sé nefnilega hvernig ég hef verið meðvirk með því að forðast að segja fólki frá því þegar ég er ósammála því sem það hefur að segja, vegna þess að ég vil ekki angra það eða valda því vanlíðan.
Ég leit á það sem svo að ég væri góð manneskja, vegna þess að ég væri alltaf svo voðalega „næs“. Það eina sem ég var að gera var að forðast að eiga óþægilegar samræður eða taka afstöðu í málum sem ég hef sterkar skoðanir á. Ég hef ekki áhuga á því að rökræða öll álitamál sem upp koma en ég vil engu að síður vera fær um að taka þátt í umræðum og geta tjáð mig án ótta við gagnrýni á skoðanir mínar eða persónu.
“The world needs you to be pleasant. But the spiritual process is about transcendence, not good behavior.” – Sadhguru
Í mér hefur búið undirliggjandi hræðsla við álit annarra, að falla ekki í kramið. Tilhugsunin um að einhverjum líkaði ekki við mig eða að fólk héldi kannski að ég væri ekki klár eða góð manneskja, fannst mér ótrúlega óþægileg. Eina leiðin til þess að fara aldrei í taugarnar á fólki er hins vegar að segja ekkert, gera ekkert, vera ekkert.
Það er ekki mögulegt að eiga samleið með öllum sem maður hittir. Ef ég deili mínum skoðunum er alltaf möguleiki á því að einhverjir verði ósammála mér og sumir pirraðir eða reiðir. Það er engin ástæða til þess að standa ekki með sjálfri mér og því sem ég hef fram að færa. Ef ég segi ekki frá því hver ég er og hvað mér finnst, þá veit fólkið í kringum mig ekki einu sinni hver ég raunverulega er.
“Stop striving to vibrate highly and start striving to vibrate authentically.” – Dolores Cannon
Ég held að ég hafi haldið að ég væri bara svo ótrúlega geðgóð og að það væri vísbending um hversu langt ég væri komin á minni andlegu braut. Að verkefnið mitt í lífinu væri að vera róleg sama hvað kæmi upp á og takast á við erfiðleika af minni stóísku ró. En að vera andlega sinnaður felur ekki í sér að láta eins og hlutirnir séu í lagi þegar þeir eru það ekki, að láta eins og maður sé ekki ósammála eða ósáttur þegar það er þannig sem manni raunverulega líður.
Að vera andlega sinnaður snýst heldur ekki um að vera fullkomin manneskja sem upplifir aldrei erfiðar tilfinningar eða gerir aldrei mistök. Það er eðlilegt að eiga daga þar sem maður er illa fyrirkallaður, þreyttur, brjálaður á ástandinu. Reiður yfir stöðu heimsins.
“Many people think that being spiritual means being positive, but being spiritual means being conscious and aware.” – Teal Swan
Að vera andleg manneskja er ekki að vera „love and light“. Það er að vera einlæglega maður sjálfur. Að geta verið hreinskilinn með það hver maður er, hvað manni finnst áhugavert og hvað ekki, hverju maður hefur gaman af, hvað mann langar til þess að gera í lífinu. Það er að geta verið ákveðinn og sett heilbrigð mörk þegar svo ber undir. Það er ekkert rétt eða rangt, svo lengi sem skoðanir manns og gjörðir skaða ekki aðra. Það eina sem þarf til þess að vera sannur, er að þekkja sjálfan sig nógu vel til þess að vita hver maður raunverulega er.
Comments