Áhrif daglegra athafna
- Guðný Guðmundsdóttir
- Aug 16, 2023
- 3 min read
Sjaman kennarinn minn lagði mikla áherslu á það við okkur þegar við lukum náminu að við héldum vinnunni áfram með því að koma okkur upp daglegum athöfnum.

Ég hef verið voðalegur slugsi við það, vegna þess að ég geri aldrei neitt daglega í nógu langan tíma til þess að sjá einhvern árangur, svo ég hef bara sleppt því. Ég hef jafnvel verið í svakalegum mótþróa gegn því. Mér hefur fundist fólk sem er með rútínu þar sem það vaknar á morgnana og hugleiðir, stundar jóga og gerir sér grænan safa gjörsamlega óþolandi.
Af hverju fer það svona í taugarnar á mér og hvað er það sem veldur þessum mótþróa í mér gagnvart því að gera eitthvað álíka fyrir sjálfa mig, sem mun að öllum líkindum hafa jákvæð áhrif á líf mitt og líðan til lengri tíma litið? Ég er vanari því að einblína á þau skipti þar sem ég hef átt einhverja svakalega upplifun, þar sem ég sé hreinlega lífið og veröldina í nýju ljósi, sem kemur fyrir mig á marga mánaða eða ára fresti.
Í staðinn fyrir að ergja mig yfir því þegar vikur og mánuðir líða án þess að maður upplifi eitthvað stórt breakthrough, gæti ég þess í stað sett fókusinn á mitt daglega líf og það sem ég get gert til þess að búa til lífið sem mig langar allra mest að lifa. Í staðinn fyrir að bíða eftir að eitthvað gerist, gæti ég frekar horft á það sem ég er að gera á hverjum degi, í því trausti að það leiði til einhvers að lokum.
Það kaldhæðnislega er að þær stóru upplifanir og uppgötvanir sem ég hef átt, hafa verið afleiðing af því sem ég geri daglega, eða a.m.k. reglulega, þá fyrst og fremst daglegri hugleiðslu. Slíkar upplifanir eiga sér yfirleitt ekki stað á meðan á hugleiðslunni stendur, heldur á tímum þar sem ég er ekki að gera neitt merkilegt, þegar hugurinn er tómur og hugdetturnar eiga greiða leið upp á yfirborðið. Það segir mér að daglegar athafnir séu undirstöður þess árangurs sem ég hef séð hingað til.
Ég veit ekki af hverju, en ég er loksins kominn á þann stað að sjá hlutina á þennan hátt. Ég er á degi 21 hjá The Workout Witch og ég elska að gera æfinguna mína á hverjum degi, en þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem ég hef náð að viðhalda einhverri daglegri athöfn. Ég hef ofurtrú á þessu prógrammi sem hún hefur sett saman, enda kannast ég við allt það sem hún lýsir, og prógrammið fær frábær meðmæli.
Ég dett samt í efasemdir og óttast að þessar æfingar muni ekki hafa þau sömu áhrif á mig og þær hafa haft á aðra sem hafa farið í gegnum það, en það er vegna þess að mig langar svo mikið að sjá mun á mér til hins betra. Ég vonast til þess að þessar æfingar munu gjörsamlega gera trikkið, en ef ekki, þá óttast ég að ekkert muni gera það, ekki heldur aðrir hlutir sem ég er með í kollinum og á eftir að prófa.
En það er ekkert eitt töfratrikk sem virkar hvort sem er, svo það eina sem ég get gert er að halda áfram að reyna að bæta líf mitt og líðan. Í staðinn fyrir að treysta á að eitthvað eitt muni bjarga mér, og verða svo fyrir vonbrigðum, get ég frekar hugsað um það hvernig ég vil að mitt daglega líf líti út og hvernig lífi ég vilji lifa. Það er það sem ég þarf að fókusa á, ekki hvað verður í framtíðinni.
Framtíðin verður eins og ég skapa hana með mínum daglegu athöfnum, það er eina leiðin til þess að ná árangri. Það felur í sér allt þetta leiðinlega; að fara fyrr að sofa, hreyfa sig, drekka meira vatn, borða hollara. Hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér, svo ég þarf að koma mér upp meiri sjálfsaga.
Það þýðir ekki að ég muni ekki halda áfram að prófa nýja hluti, en ég mun gera það vegna þess að mér finnst það gaman, vegna þess að ég er forvitin og áhugasöm um alls konar aðferðir til þess að rækta geðheilsuna, ekki vegna þess að það eigi að bjarga mér frá sjálfri mér eða heiminum öllum.
Comments