Allt hefur sinn tíma
- Guðný Guðmundsdóttir
- Dec 26, 2022
- 3 min read
Ég er búin að vera svo þreytt undanfarið, mér finnst erfitt að fara fram úr á morgnana í myrkrinu og kuldanum og þarf flesta daga að leggja mig þegar ég kem heim.

Ég veit að ég er ekki sú eina vegna þess að ég hef átt samræður við fólk síðustu daga og vikur sem talar um að það sé að upplifa einhvers konar depurð eða lægð en ég hef spurt það hvort að það sé ekki bara eðlilegt að finna fyrir því að það sé nánast stöðugt myrkur?
Í því samfélagi sem við búum við í dag finnst fólki eins og það eigi að geta gert allt sem það gerir vanalega og verið jafn hress og það er allajafna á öðrum tímum ársins. Okkur finnst að við eigum að geta haldið sömu rútínu; unnið heilan vinnudag, hugsað um börnin og nánustu fjölskyldu, farið í ræktina, hitt vini og svo framvegis og erum örg við okkur sjálf fyrir að vera eitthvað að ströggla við geðið.
En hvað var það sem forfeður okkar gerðu hér áður fyrr þegar það var flest sjómenn og bændur? Það var unnið á meðan veður leyfði, sumarið nýtt til þess að vinna sér í haginn en þegar veturinn kom var líklegast lítið gert nema gefa skepnunum og lifa af fram á vorið. Að sjálfsögðu eru aðstæður aðrar í dag en það sem hefur ekki breyst er að það kemur ennþá vetur, vor, sumar og haust.
Við vorum vön að sinna ákveðnum verkefnum á hverjum árstíma fyrir sig en við fylgjum ekki lengur takti náttúrunnar. Við skömmum okkur fyrir að vera ekki nógu dugleg á tíma sem veturinn er að segja okkur að taka því rólega svo að við verðum úthvíld og reiðubúin fyrir verkefnin sem bíða þegar sumarið kemur. Við ættum náttúrulega helst að leggjast í híði og koma ekki aftur út fyrr en snjóa leysir.
Mín sjálfsrækt felst mikið í því að veita sjálfri mér viðtekt. Að vera vakandi fyrir því hvernig mér líður og skamma ekki sjálfa mig þegar ég á erfitt, gera lítið úr því, segja sjálfri mér að harka af mér eða gera mitt besta til þess að forðast mína líðan (með sjónvarpsglápi, með því að fá mér að borða eða drekka eða kaupa mér eitthvað) heldur gefa mér það rými að sitja með tilfinningum mínum.
Það er stundum talað um það að vinna í sjálfum sér sem fullorðinn einstaklingur feli í sér að vera sitt eigið foreldri og ala mann sjálfan upp, alveg upp á nýtt. Það er til dæmis gert með því að veita sjálfum sér það sem maður þarfnast. Það getur verið mismunandi eftir aðstæðum en það er líka lykilinn, að læra á sjálfan sig og vita hvað það er sem maður þarf á að halda þá stundina. Það getur verið að vera til staðar fyrir mann sjálfan, sýna sjálfum sér skilning eða hugga sjálfan sig.
Ég veit það vel að það sem ég þarfnast einna mest þessa dagana er að hvíla mig. Ég er þreytt, ég er búin að vera þreytt í langan tíma. Ég veit að ég þyrfti að fara fyrr að sofa en ef ég geri það ekki, þá leyfi ég mér að leggja mig eftir vinnu án samviskubits. Mér finnst gott að gera ekki neitt yfir vetrartímann og ég nýt þess að liggja uppi í rúmi og horfa á sjónvarpið ef það er það sem ég hef þörf fyrir.
Þetta er tímabundið ástand – vorið mun koma á ný og grundirnar gróa. Ég finn fyrir því á hverju vori þegar fer að birta fyrr á morgnana hvernig lundin á mér léttist. Þá hef ég orku til þess að gera alls konar hluti sem mér finnast áhugaverðir. En þangað til það verður, þá ætla ég að hvílast, fara í heitt bað, kveikja á kertum, lesa bækur, elda pottrétti sem hlýja mér í kuldanum, fá mér góðan kaffibolla. Og ég ætla ekki að vera fúl út í sjálfa mig fyrir að vera ekki nógu hress alltaf og endalaust.
Comentários