Aukin heilsa og vellíðan
- Guðný Guðmundsdóttir

- Oct 26, 2020
- 3 min read
Updated: Mar 2, 2021

Mömmu minni finnst gaman að rifja það upp þegar ég tilkynnti henni hátíðlega, þá fimm ára gömul, að ég „óskaði þess að íþróttir væru ekki til“. Það hefur afar lítið breyst síðan þá, en ég hef alltaf litið á sjálfa mig sem stoltan anti-sportista. Eftir því sem árin hafa liðið, hef ég hins vegar farið að gera greinarmun á íþróttum og hreyfingu, en ég vil almennt vera heilbrigð á líkama og sál.
Ég hef því stundað heilsurækt af og til í líkamsræktarstöðvum í gegnum tíðina, en náði kannski mínum besta árangri í hreyfingu þegar ég starfaði sem au-pair í finnskum smábæ og byrjaði að fylgja hlaupaprógrammi af hlaup.is. Á tíu vikum fór ég frá því að geta varla skokkað í 2 mínútur í senn, yfir í að geta léttilega skokkað um hverfið í rúma klukkustund.
Það sem hjálpaði mér í þessum aðstæðum var að ég hafði nægan tíma, bjó rétt hjá litlum skóg þar sem ég gat hlaupið í friði og gat svo auðveldlega séð árangurinn af því sem ég var að gera, þar sem ég bætti tímann minn á hverjum einasta mánudegi í nýrri viku.
Þegar ég kom heim frá Finnlandi hljóp ég meira að segja 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu það árið (en þess má geta að þegar ég hringdi í systur mína til þess að segja henni frá afrekinu, sagði hún við mig orðrétt; “það hefði engum dottið í hug að þú myndir gera þetta.”) og svo skellti ég mér á Esjuna í fyrsta sinn.
Ég hef hins vegar aldrei komið mér í mitt besta líkamlega form, en það hefur heldur ekki hjálpað að þegar ég hef tekið vel á því í líkamsræktartíma hef ég stundum þurft að hætta því sem ég er að gera svo að það líði ekki yfir mig. Það var einmitt það sem gerðist núna í september þegar ég ætlaði þvílíkt að koma mér af stað í ræktinni og skráði mig í 3 mánaða Bestu aðild í Hreyfingu.
Það gekk nefnilega ekki betur en svo að ég komst varla í gegnum fyrstu æfinguna án þess að liggja við aðsvifi. Ég fór því til heimilislæknisins míns, sem gat útskýrt það fyrir mér að ástæðan fyrir þessu væri að ég er með lágan blóðþrýsting. Það er raunverulega ekkert sem ég get gert í því nema drekka vatn yfir daginn, borða reglulega og fara rólega í gegnum æfingar þegar ég hreyfi mig.
Þar sem ég þarf að fara rólega þegar kemur að hreyfingu, ákvað ég að fókusa á að æfa jóga heima hjá mér þegar ræktinni var lokað aftur vegna Covid. Ég á jógadýnu, svo ég náði mér í Down Dog jógaappið og einsetti mér að æfa í 30 mínútur á hverjum degi (markmið sem ég hef ekki enn náð, en batnandi fólki er jú best að lifa).
Ef eitthvað er, finnst mér betra að æfa jóga heima en í líkamsræktarstöð. Sama hvað jógakennarar segja, þá getur maður ekki annað en borið sig saman við fólk sem er með manni í tímum. Heima hjá mér hef ég engan að keppa við nema minn eigin sjálfsaga og mér finnst líka notalegt að læra á æfingarnar í rólegheitum.
Það getur tekið tíma að finna hreyfingu sem hentar manni og finna út úr því hvað sé best að gera fyrir manns eigin heilsu. Það er mikilvægt að gefast ekki upp. Ég veit að ég hef ekki þörf fyrir að vinna til einhverra verðlauna, en eina markmiðið mitt núna er að gera þessar æfingar á hverjum degi og fara svo endrum og eins í gönguferð í Elliðaárdalinn, en ég bý svo vel að búa þar rétt hjá.
Ég mun líklega ekki sjá mikinn árangur af því sem ég er að gera til þess að byrja með, en með því að setja þessa hreyfingu inn í mína daglegu rútínu, geri ég ráð fyrir að ég muni smá saman styrkjast og bæta þar með heilsu mína og líðan.



Comments