top of page

Barátta milli tveggja póla

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jun 30, 2020
  • 3 min read

Updated: Mar 2, 2021


Kona með tölvu og kaffibolla fyrir framan sig skrifar í dagbók

Ég er voðalega mikið að vandræðast með sjálfa mig þessa dagana. Suma morgna vakna ég eldhress, dríf mig á fætur og geri og græja á heimilinu; skelli í þvottavél, bý til safa í morgunmat fyrir næsta dag, hugleiði og les bækur sem eru á leslistanum í sjaman-náminu mínu eða kíki jafnvel á kaffihús. Aðra daga blunda ég fram eftir morgni, atvinnulaus eymingi með hor, á erfitt með að tækla hin minnstu verkefni á verkefnalistanum og vorkenni sjálfri mér sáran fyrir að líf mitt einkennist af svona mikilli óvissu.


Ég finn mikinn mun á sjálfri mér eftir því hvers konar dag ég á hverju sinni. Á góðum degi er ég uppfull af orku og hugmyndum, skrifa að mínu eigin mati fantagóða pistla, tek eftir litlu hlutunum sem ég get verið þakklát fyrir; pottaplöntu heima hjá mér sem vaxar og dafnar, góðum kaffibolla, sólinni sem skín. Mér finnst lífið flæða áfram áreynslulaust einhvern veginn, upplifi að ég eigi mér tilgang og finnst ég geta verið sátt við sjálfa mig eins og ég er.


Á slæmum degi er ég hins vegar orkulaus og döpur. Ég upplifi nagandi efasemdir um sjálfa mig og það hvernig ég ver tíma mínum, en hef lítinn áhuga á því að finna fyrir tilfinningunum eða vanlíðaninni sem býr að baki þeim hugsunum og viðhorfi. Þess í stað þrái ég eitthvað óhollt sem getur haft áhrif á líðan mína til hins betra í andartak, eða langar helst til þess að kúra mig niður yfir Netflix og gera sem minnst; flýja heiminn og sjálfa mig um stund.


Mitt daglega líf einkennist af baráttu milli þessara tveggja póla, en það er augljóslega til mikils að vinna að geta haft áhrif á það hvers konar dag ég á eftir að eiga, frekar en að leyfa tilviljun eða utanaðkomandi öflum að stjórna því. Verkefni mitt þessa dagana er því fólgið í því að taka eftir því sem ég hugsa, finn fyrir og geri, sem verður til þess að ég eigi annað hvort góðan eða slæman dag. Ég hef lært það, sérstaklega undanfarna mánuði, að ég þarf sjálf að hafa meðvituð áhrif á það sem ég geri svo að mér geti liðið vel á hverjum degi.


Í andlegum fræðum kallast þessi verknaður að hækka tíðnina sína eða auka meðvitund. Frá því í byrjun febrúar hef ég stundað nám í vikulegum hugleiðsluhóp þar sem hugleiðslukennararnir mínir hafa lagt aðaláhersluna á einmitt þetta; mikilvægi þess að velja sér hugsanir og viðhorf, til þess að manni geti liðið betur og betur með hverjum deginum sem líður. Að hækka tíðnina felur í sér að velja hugsanir, gjörðir og viðhorf sem lyfta manni upp og láta manni líða vel.


Eftirfarandi eru nokkur dæmi um leiðir til þess að hækka tíðnina:


· Að anda meðvitað

· Að iðka þakklæti

· Að stunda hugleiðsla

· Að borða hollan mat

· Að hreyfa sig

· Að hlusta á tónlist

· Að umgangast gott fólk

· Að vera í núinu

· Að verja tíma í náttúrunni


Að því sögðu er vert að taka fram, að það að velja meðvitað að hækka tíðnina snýst ekki um að afneita tilfinningum sínum eða að næla sér í orku til þess að framkvæma allt sem hugurinn telur manni trú um að sé þarft til þess að maður sé nógu góður einhvern veginn. Að taka ábyrgð á líðan sinni á sér margar birtingarmyndir; suma daga felur það í sér að hlýða beiðni líkamans um nauðsynlega hvíld, aðra daga í því að leyfa sárum tilfinningum að koma upp á yfirborðið til úrvinnslu. Það er hins vegar ávallt gagnlegt að athuga hvort hugsanir manns, viðhorf og gjörðir séu að ýta undir vellíðan manns eða vanlíðan, burtséð frá því hvar maður er staddur á sínu heilunarferðalagi.


Persónulega tel ég mig vera komin á þann stað að ég sé heilt yfir í ágætis jafnvægi, enda er ég búin að verja næstum tíu árum í að vinna úr mínum erfiðustu og sárustu tilfinningum og minningum. Mér finnst það gerast æ sjaldnar að ég komist í einhvers konar tilfinningalegt uppnám vegna einhvers sem sagt er við mig eða vegna þess að gamall sársauki sé að komast upp á yfirborðið. Ef mér líður ekki nægilega vel, er orsökina yfirleitt að finna í þeim ákvörðunum sem ég hef tekið yfir daginn.


Vanlíðan mín getur orsakast af því að ég hafi ekki séð til þess að ég fengi nægan svefn eða hreyfingu, að ég hafi borðað eitthvað sem fer illa í mig eða leyft dómaranum innra með mér að taka yfir og gagnrýna mig miskunnarlaust við hvert tækifæri. Ég geri mér alltaf meir og meir grein fyrir því að það er undir sjálfri mér komið hvað ég leyfi, hvaða viðhorf ég hef til sjálfrar mín og heimsins, hvaða ákvarðanir ég tek. Það getur enginn gert það fyrir mig. Það er á mína ábyrgð að velja markvisst hugsanir, viðhorf og gjörðir sem geta orðið til þess að ég muni eiga góðan og ánægjulegan dag og þar af leiðandi gott og ánægjulegt líf.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page