Dásamleg orka Engla Reikis
- Guðný Guðmundsdóttir

- Sep 3, 2024
- 3 min read
Updated: Oct 4, 2024
Í lok ágúst lauk ég Engla Reiki 3&4 hjá Starcodes Academy, en um er að ræða framhaldsnámskeið af Engla Reiki 1&2, sem ég tók í maí 2023.

Það er talað um það að orka Engla Reikis sé létt, enda á tíðni englanna, en um leið mögnuð upplifun bæði fyrir þá sem þiggja og fyrir þá sem eru milliliðir fyrir orkuna.
Ég hef tekið margvísleg heilunarnámskeið í gegnum árin, en ég hef t.a.m. lokið fyrsta, öðru og þriðja stiginu í Reiki, auk þess sem ég lærði grunninn að Brennan heilun í sjaman náminu mínu, en ég fann það strax á Engla Reiki 1&2 hvað þetta var þægileg orka að vera í og vinna með.
Engla Reiki heilunarkerfinu var miðlað af Metatron erkiengli í gegnum Kevin Core fyrir 20 árum síðan og er nú notað um allan heim. Grunnurinn er sóttur í Usui og Shamballa en við bætast magnaðar samstillingar við englana og ríki þeirra.
Samstillingin (attunement), sem tengir þátttakendur við heilunarenglana sína sem vinna með hverjum einstaklingi þar eftir, inniheldur Reiki tákn sem eru samstillt gegnum tíðni englanna. Þessi tákn voru gefin mannkyninu af St. Germain á tímum Atlantis en ekki er þörf á að læra táknin.
Það er einmitt það sem mér líkar við þegar kemur að Engla Reiki, vegna þess að ég vil hafa hlutina eins einfalda og hægt er. Mín reynsla af heilun er að það skiptir meira máli að sleppa tökunum og leyfa því sem þarf að gerast að eiga sér stað, heldur en að flækja málin að óþörfu.
Ef eitthvað er, þá myndi ég segja að Engla Reiki sé góð leið fyrir þá sem eru að byrja í heilun (þó það sé einnig gagnlegt fyrir lengra komna). Þegar ég var að læra Brennan heilun sem hluta af sjaman náminu mínu, fannst mér ég ekki endilega tengja nógu vel við æfingarnar sem við vorum að gera, enda er Brennan heilun krefjandi og yfirgripsmikið fjögurra ára nám.
Sú heilunaraðferð var þróuð af Dr. Barbara Brennan, sem var eðlisfræðingur að mennt og mjög vísindalega þenkjandi. Hennar markmið var að heilun eða orkulækningar yrði eðlileg og heildræn hliðarmeðferð við hefðbundnar læknismeðferðir.
Þegar ég byrjaði fyrst að fara í heilun þá fór ég til Brennan heilara, án þess að vita svo sem hvað það þýddi, en í dag er ég ennþá að mæta til Brennan heilara, og þau eru bæði tvö búin að hjálpa mér mjög mikið. Þegar kemur að því að ég sé sjálf að heila, tengi ég hins vegar persónulega betur við Engla Reiki.
Brennan heilun er einnig kennd erlendis, á meðan Engla Reiki er kennt hér á Íslandi. Það er kennt á tveimur námskeiðum; Engla Reiki 1 og 2 þar sem fyrstu tvær samstillingarnar eru gerðar á sama námskeiði, en Engla Reiki 3 og 4 er meistarastigsnámskeið þar sem þátttakendur taka við samstillingum fyrir tvö stig auk þess að bæta við tveimur nýjum heilunaraðferðum.
Það er talað um að gott sé að láta líða a.m.k. sex mánuði milli námskeiða til að leyfa orkunni að vinna með hverjum þátttakanda. Ég fann það strax eftir Engla Reiki 1&2 í maí í fyrra að ég var ekki tilbúin til þess að fara strax á framhaldsnámskeiðið, en ég var tilbúin að taka 3&4 núna í lok ágúst, enda var það dásamleg helgi sem við áttum saman hópurinn minn þar.
Það sem hefur einnig breyst hjá mér á þessu tímabili er að ég er orðin mun opnari og meira tilbúin til þess að kynnast nýju fólki, sérstaklega fólki sem er á sömu bylgjulengd og ég.
Það er líka þess vegna sem ég er orðin hluti af Starcodes teyminu, en við héldum saman vinnustofu í byrjun september til þess að stilla saman strengi og ræða hvað sé hægt að bjóða upp á hjá Starcodes skólanum þegar kemur að því að vera með námskeið ofl. Meira um það síðar!



Comments