top of page

Ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Sep 28, 2023
  • 3 min read

Updated: Oct 9, 2023

Ég hef mikið verið að láta hlutina fara í taugarnar á mér frekar en að tækla þá bara strax.

Þetta er leiðinda ávani hjá mér, sem er blanda af meðvirkni og því að gera lítið úr tilfinningum mínum, en það sem fer í taugarnar á mér eru gjarnan litlir hlutir sem ég get auðveldlega sagt við sjálfa mig að skipti ekki máli, að ég sé bara viðkvæm eða þessi atvik skipti ekki máli í stóra samhenginu.


Vissulega er það ekki stórmál að það sé fólk í umferðinni sem keyrir um eins og það sé eitt í heiminum, gengur ekki frá eftir sig í kaffistofunni í vinnunni eða sendir Messenger skilaboð á öllum tímum sólarhringsins. Mér myndi finnast ég vera voðalega leiðinleg ef ég færi að gera veður út af þessu, þrátt fyrir að mér finnist svo innilega að þetta séu slæmir siðir.


Ég veit að það er samt ekki heldur gott að láta hlutina fara endalaust í taugarnar á sér þegar það er kannski hægt að höggva á hnútinn og leysa málið með einu samtali, sérstaklega vegna þess að litlu hlutirnir geta svo auðveldlega orðið að stórum hlutum ef ekkert er að gert. Mér hefur fundist gott að æfa mig á því að ræða smotterí sem kemur upp, svo það sé auðveldara að ræða raunveruleg vandamál þegar maður stendur frammi fyrir þeim.


Ég finn það líka að hlutirnir fara mismikið í taugarnar á mér eftir því hvernig ég er stemmd. Ég er orðin betri í því að meta stöðuna og vera ekki með vesen út af einhverju sem skiptir engu máli, bara vegna þess að ég er eitthvað illa fyrirkölluð. Ég hef þurft að skoða hvað sé í gangi hjá sjálfri mér, svo að ég sé ekki að taka skapið í mér út á saklausu fólki.


Á hinn bóginn þarf samt að vera hægt að ræða hlutina þegar eitthvað er að angra mann sem skiptir mann máli og ekki bara vegna þess að maður hafi átt slæman dag. Það verður að vera hægt að taka samtalið þegar eitthvað er virkilega að, vegna þess að hlutirnir fara ekki neitt, heldur safnast upp, sem verður að vandamáli til lengri tíma litið. Ef manni finnst maður ekki geta átt erfið samtöl við fólkið í lífi sínu yfirleitt, er ekki vitlaust að fara í smá naflaskoðun.


Litlu hlutirnir sem angra mann geta nefnilega verið vísbending um eitthvað annað og stærra sem býr undir niðri. Þegar ég hugsa málið sé ég t.d. að það sem fer í taugarnar á mér eru allt dæmi um tillitsleysi. Undir pirringnum býr gremja yfir því að það sé ekki tekið tillit til mín, og þess sem ég þarfnast og vil, eins og mér finnst ég taka tillit til annarra.


Það þarf samt ákveðið öryggi að vera til staðar til þess að geta átt svona samtöl. Það þarf að ríkja traust á milli einstaklinga til þess að geta átt samræður um eitthvað sem maður er óöruggur með, að vita að manni verði ekki hafnað eða fái skammir fyrir að segja frá því hvernig manni líður. Það að geta rætt málin af hreinskilni er merki um heilbrigt samband.


Þetta getur verið ansi snúið þegar kemur að nánum samböndum. Ég áttaði mig að minnsta kosti á því um daginn að ég hef aldrei sagt neinum frá því þegar ég er ósátt út af einhverju eða fúl út í viðkomandi, vegna þess að ég get ekki tekið sénsinn á því að valda fólki vanlíðan. Mér finnst ég ekki mega vera „vond“ við neinn, en ég þarf að sjálfsögðu að geta deilt mínum tilfinningum og líðan.


Ég þarf að láta í mér heyra, svo að það sé hægt að taka tillit til mín – ekki taka upp minna pláss vegna þess að ég vil ekki angra neinn. Tilfinningar annarra skipta ekki meira máli en mínar. Það er nauðsynlegt að geta sagt þegar eitthvað er ekki að virka fyrir mann eða þegar manni finnst farið yfir sín mörk. Ef ég geri ekki neitt í því, verður vandamálið enn til staðar. Ég get ekki kennt neinum um það nema sjálfri mér, ef ég segi aldrei neitt.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page