Ferðalag mitt til bættrar heilsu: Kafli 2
- Guðný Guðmundsdóttir
- Sep 30, 2020
- 4 min read
Updated: Mar 2, 2021

Heilsan mín fór fljótt í sama farið eftir að ég lauk þriggja vikna hreinsun á Hreinu mataræði hjá Guðrúnu Bergmann í byrjun ársins. Að hreinsuninni lokinni fór ég smátt og smátt að borða það sama og ég hafði verið vön að borða áður, en við það urðu meltingarvandræði mín enn verri en fyrr, ef eitthvað er. Ég hafði því samband við Guðrúnu og hún sagði að einkenni mín bentu til þess að ég þyrfti að fara aftur í hreinsun og hafa hana jafnvel lengri en þær þrjár vikur sem mælt er með.
Ég dró að sjálfsögðu lappirnar með það að fara aftur af stað, en að tveimur eða þremur mánuðum liðnum sá ég mig tilneydda til þess að gera eitthvað í mínum málum. Einn daginn hafði ég drukkið Oatly Latte um miðjan dag (ég komst síðar að því að hafrarnir í Oatly vörunum eru ekki fullkomlega glútenlausir) og fengið mér svo pizzu í kvöldmat, en það varð til þess að ég fékk hræðilega magakrampa. Kramparnir voru svo slæmir að ég var loksins tilbúin til þess að gera töluverðar breytingar á mataræði mínu til þess að þurfa ekki að þola slíkar kvalir aftur.
Ég hafði pantað mér tíma hjá Matthildi náttúrulækningakonu í byrjun mars, en þar sem sá tími hafði frestast og frestast vegna samkomubanns, fór ég að lokum til hennar á sama tíma og ég var byrjuð á þriggja vikna hreinsuninni aftur. Hún staðfesti það sem ég taldi að væri orðið augljóst, að ég þyldi hvorki glúten né mjólkurvörur og gaf mér lista yfir það sem ég mátti borða og ekki borða. Mér fannst fínt að hafa hann til hliðsjónar að hreinsun lokinni, þegar ég fór að prófa mig áfram með mismunandi matvæli til að sjá hvað ég get borðað og hvað ekki.
Þó ég héldi mig að mestu leysti við hreint mataræði, fékk ég stundum ennþá verk í kviðinn og síðuna, sem mér fannst ekki eðlilegt, sérstaklega þar sem ég var búin að gera miklar breytingar á mataræði mínu. Ég fór að skoða muninn á því að vera með mjólkuróþol og ofnæmi fyrir mjólk, þar sem mér fannst ég ekkert endilega þola laktósafríar vörur, og var auk þess farin að finna fyrir öðrum einkennum, líkt og munnangri, bólum og kláða í húð eftir að hafa neytt mjólkurvara.
Ég fann jafnframt fyrir því að ég varð enn viðkvæmari fyrir því að borða eitthvað sem fór ekki vel í mig, eftir því sem ég borðaði almennt hreinna fæði. Þar sem ég var enn að finna fyrir meltingartruflunum, þó svo að ég væri hætt að borða mjólkurvörur og glúten að mestu leyti, pantaði ég mér að lokum tíma hjá lækni í ágúst. Sú heimsókn var mikil vonbrigði þar sem læknirinn virtist gera ráð fyrir að ég væri aðallega að búa til vesen og gerði lítið úr lýsingum mínum, sem varð til þess að ég hrökklaðist út aftur með skottið á milli lappanna.
Í september ákvað ég að taka mig til og fara af stað í ræktinni. Ég fékk þjálfara til að gera prógram fyrir mig, en ég komst ekki í gegnum fyrsta tímann án þess að líða eins og ég gæti fengið aðsvif ef ég héldi æfingunni áfram (vandamál sem ég hef alltaf glímt við þegar ég hreyfi mig, jafnvel þó svo að ég passi mig að borða fyrir æfingu). Ég ráðlagði mig við systur mína, hjúkrunarfræðinginn, sem staðfesti að þetta væri ekki eðlilegt og sagði mér að hafa samband við heimilislækninn minn.
Sem betur fer er heimilislæknirinn minn yndisleg kona, sem gott er að spjalla við. Hún gat útskýrt fyrir mér að lágur blóðþrýstingur væri ástæðan fyrir því að ég fengi aðsvif í ræktinni, auk þess sem hún var sammála því sem mig var farið að gruna, að ég þjáist líklega af iðraólgu (Irritable bowel syndrome eða IBS), sem felur í sér annars konar mataræði en ég hef reynt hingað til, svokallað FODMAP mataræði. Hún pantaði fyrir mig blóðprufu sem ég fer í á mánudaginn, auk þess sem ég fer í ofnæmispróf hjá ofnæmislækni í nóvember og til kvensjúkdómalæknis í febrúar (til að athuga hvort ég sé nokkuð með blöðrur á eggjastokkum).
Ég byrjaði fyrst að finna fyrir einkennum fyrir um það bil fimm árum síðan, og það er búið að taka mig allan þennan tíma og mikil vandræði að komast að því hvað sé raunverulega að hrjá mig, og hvað ég geti gert í því. Ég vildi að ég hefði reynt að komast til botns í þessu fyrr, en ég verð að játa það að ég var mjög þrjósk og langaði ekki að gera þær breytingar á mataræði mínu og rútínu sem voru og eru nauðsynlegar til þess að líða betur, en auk þess þurftu einkenni mín einnig að þróast og versna, áður en ég varð tilbúin til þess að gera eitthvað í mínum málum. Í fyrsta skipti síðan þessi vandamál byrjuðu að hrjá mig, finnst mér ég hins vegar vera komin með plan í hendurnar sem gæti haft mikil áhrif á líðan mína til góðs.
Comments