top of page

Ferðalagið að hinu sanna sjálfi

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • May 31, 2024
  • 3 min read

Updated: Jun 27, 2024

Þegar ég byrjaði að vinna í sjálfri mér var ég fyrst og fremst að leitast eftir því að líða betur.



Mér fannst erfitt að vera til og glímdi við mikla vanlíðan og kvíða. Mig langaði ekki til þess að lifa þannig alla mína ævi. Ég reyndi að leita mér aðstoðar hjá sálfræðing og heimilislækni en fann ekki það sem ég var að leita að, sem varð til þess að ég byrjaði í andlegum málefnum.


Ég tók námskeið í tarot lestri og heilun, en við það og að sitja með fólki í hugleiðslu, fór ég að skynja orku og gerði mér grein fyrir því að ég byggi yfir ákveðinni næmni. Ég kynntist miðlum og heilurunum sem sögðu að ég ætti eftir starfa við slíkt og meira að segja gera frábæra hluti, en jafnvel þó fólk væri að hvetja mig til þess að byrja að vinna var ég aldrei tilbúin til þess.


Mér tókst alltaf að finna eitthvað meira til þess að vinna úr, en eftir því sem á leið áttaði ég mig á því að þetta snérist ekki um að verða næmari, heldur að halda áfram að þroskast og vaxa. Ég fór að spyrja sjálfa mig spurninga og lesa mér til, ekki um það hvernig ég gæti orðið heilari og miðill, heldur hver væri tilgangurinn með því að vera hér á jörðinni og hver ég væri.


Ég byrjaði að skoða sjálfa mig betur, hugsanir mínar, skoðanir og viðhorf, og fór að efast um hvort að ég hefði yfirleitt rétt fyrir mér um það sem ég taldi vera satt og rétt. Ég fræddist um egóið og hvernig persónuleikinn er búinn til úr viðhorfum manns og reynslu, að skoðanir mínar væru jafnvel bara byggðar á því sem mér hafði verið sagt og kennt, frekar en heilagur sannleikur.


Ég var komin á þann stað að ég skildi huglægt að ég væri ekki líkami minn, tilfinningar, hugur eða sú sjálfsímynd/persónuleiki sem ég hafði búið til, en einn daginn upplifði ég það á eigin skinni. Ég sat á rúminu mínu en allt í einu var ég ekki lengur þar, heldur var allt svart, en það var eins og ég væri stödd í geimnum, það er að segja ef þar væru engar stjörnur eða plánetur, ekki nokkurn einn einasti hlutur, fyrir utan mig sjálfa.


Það sem ég upplifði var að ég væri ekki þessir hlutir sem við höldum að við séum; nafnið mitt, líkami, skoðanir, tilfinningar, hugsanir, þjóðerni, kyn og svo framvegis. Engu að síður var "ég" þarna samt í þessum tómi. Mér fannst þessi upplifun aðeins vara í nokkur andartök, en ég man að ég hugsaði á meðan á henni stóð; ó, ef ég er ekki þessi sjálfsímynd, hver eða hvað er ég þá?


Ég ræddi þessa upplifun við hugleiðslukennara mína sem ráðlögðu mér, ef þetta skildi gerast aftur, að segja þá við sjálfa mig að ég væri ljós eða kærleikur. Það má kalla það mismunandi nöfnum, vitund, mitt æðra sjálf, en þessi viðburður sýndi mér hver ég er í raun og veru, að ég sé ekki persónuleiki minn, heldur eitthvað allt annað og meira.


Þetta hafði ekki mikil áhrif á mig strax, en ég skildi það ekki fyrr en frekar nýlega að þarna hófst ákveðið ferli sem ég lít núna á sem egó dauða, þó honum sé alls ekki lokið ennþá. Um þetta leyti missti ég nefnilega vinnuna, rétt áður en covid hófst hér á landi, sem varð til þess að ég var atvinnulaus í tvö ár og hafði ekkert við að vera, nema þá að vera með sjálfri mér.


Frá því að þessir atburðir áttu sér stað, hefur mér stundum liðið eins og það væri hreinlega ekkert að ganga upp hjá mér. Persónuleiki hefur með hluti eins og eigur manns að gera, atvinnu, stöðu í samfélaginu, þekkingu og menntun, útlit, kynþátt, hæfileika, sambönd, fjölskyldu, viðhorf, pólitík og trú. Það að mér leið eins og ég væri ekki að skara fram úr á neinn hátt í lífinu, varð til þess að ég fór að gera mér grein fyrir að ekkert af þessum hlutum og hlutverkum væri “ég”.


Það er stundum sagt að þegar líf manns gengur ekki upp, sé það leiðin til þess að líf manns gangi upp. Þetta ferðalag sem ég er búin að vera á síðustu ár, sem ég gæti auðveldlega litið neikvæðum augum, var það sem gerði mér kleift að fara dýpra með mína sjálfsrækt, að skilja hver ég er í mínum innsta kjarna, með það að markmiði að finna að lokum frið og hamingju hið innra sem ekkert getur tekið frá mér.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comentarios


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page