top of page

Frelsið til þess að finna

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Feb 5, 2023
  • 3 min read

Ég geymi tilfinningar í líkama mínum sem ég á í erfiðleikum með að komast í tæri við.

Það veldur mér bæði líkamlegum verkjum auk þess sem það hefur áhrif á mitt daglega líf, vegna þess að ég finn hvernig þessi sársauki sem ég er að burðast með dregur mig niður. Ég veit að það væri gott að fá útrás fyrir þessar tilfinningar en einhvern veginn er það ekki að takast hjá mér.


Af og til kemur eitthvað smávægilegt upp á sem ýtir við mér og ég næ kannski að tárast yfir en það dugar ekki til – þessar tilfinningar sitja svo fast í mér. Ég hef átt erfitt með að skilja af hverju ég kemst ekki nær þessum sársauka svo að ég geti leyft tárunum að flæða, vegna þess að það myndi vera mér svo mikill léttir.


Ég veit að þessi sársauki tengist ekki því sem er í gangi í lífi mínu í dag, enda hefur það aldrei verið betra. Ég veit þar af leiðandi að það sem veldur mér gráti hefur ekkert að gera með þau atvik sem koma upp, heldur ýta þau aðeins við tilfinningum sem ég fékk ekki útrás fyrir á sínum tíma.


Það er kannski vandamálið; ég á erfitt með að finna þessar tilfinningar því það var ekki í boði að fá útrás fyrir þær áður fyrr, vegna þess að mér fannst ekki vera rými til þess eða tilfinningalegur stuðningur. Sem barn og unglingur vildi ég ekki valda neinum vandræðum eða verða til þess að fólki liði illa.


Ég reyndi að halda tilfinningum mínum fyrir sjálfa mig og setti fókusinn frekar á líðan annarra og reyndi að veita öðrum tilfinningalegan stuðning. Mér fannst það ekki vera í boði fyrir mig að taka upp pláss og vera manneskjan sem átti erfitt, heldur lét frekar eins og allt væri í lagi hjá mér.


Sem fullorðinn einstaklingur hef ég þurft að vinna úr þessu gamla mynstri og æfa mig í að taka á móti, þola það að vera séð og hugguð. Mér hefur fundist erfitt að opna mig og tengjast öðrum, vegna þess að mér líður eins og ég sé þar með að taka tilfinningar viðkomandi inn á mig.


Ég hef sett samasemmerki á milli þess að tengjast öðrum og því að veita þeim stuðning, sem verði til þess að ekkert pláss sé eftir fyrir mig og mínar þarfir. Ég hef ekki treyst fólki fyrir tilfinningum mínum en einna helst leyft mér að taka á móti stuðningi frá ráðgjöfum, vegna þess að þeim borga ég fyrir að gera nákvæmlega það.


Ég á engu að síður auðveldara með það en áður að sýna fólki hvernig mér líður og segja frá því þegar ég á slæma daga. En mér sárnar stundum viðbrögð þeirra sem segja mér að ég sé of viðkvæm eða segi mér hvað ég eigi að gera. Ég finn að það sem ég þarfnast er að fá að líða eins og mér líður og þurfa ekki að láta eins og allt sé í lagi þegar það er það ekki.


Ég þarf frelsi til þess að finna, án þess að hafa áhyggjur af tilfinningum annarra, verða dæmd, sagt að harka af mér eða upplifa að einhver sé að reyna að laga mig. Tilfinningar mínar eiga nefnilega rétt á sér og ég á rétt á því að bregðast við því sem kemur upp á í mínu lífi. Ég þarf ekki alltaf að vera í lagi, ég má eiga slæma daga og ég þarf ekki alltaf að vera hress.


Það er ekkert að mér þó svo að ég upplifi erfiðar tilfinningar, vegna þess að það er ekkert til sem heitir góðar eða slæmar tilfinningar. Það er hluti af lífinu að ganga í gegnum erfiðleika og upplifa sárar tilfinningar þeim tengt.


Ég þarf heldur ekki að halda áfram að reyna að losa mig við þessar tilfinningar sem ég ber í líkama mínum – ég þarf að veita þeim viðtöku, annað hvort með því að hlusta á sjálfa mig og sýna sjálfri mér þann stuðning og hlýju sem ég þarf á að halda, eða með því að leyfa fólki sem hefur áhuga á því og getu að vera til staðar fyrir mig þegar ég þarfnast þess.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page