top of page

Furðulegri en fólk er flest

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Oct 5, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég er hikandi við að setja orð niður á blað þessa dagana, næstum eins og ég sé hrædd við hvað muni koma út.

Í andlegum fræðum er talað um að miklar breytingar séu að eiga sér stað þessa dagana í veröldinni, orkulega séð, að við séum í sameiningu að skapa nýjan og betri heim. En til þess að skapa þennan heim þarf allt sem er óuppgert að koma upp á yfirborðið, öll drullan og erfiðu tilfinningarnar, samanber þessi endalausu hneykslismál sem poppa upp hvað eftir annað.


Það gildir bæði í hinu víðara samhengi, í samfélagi okkar, en einnig persónulega, sem er kannski ástæðan fyrir þessum heimsfaraldri sem við erum búin að vera að ganga í gegnum, að hann hafi neytt okkur til þess að líta inn á við og fara að vinna úr hlutum sem voru löngu grafnir og jafnvel gleymdir. Ég veit að hjá mér hafa alls konar tilfinningar og minningar verið að koma upp á yfirborðið og oft hefur verið erfitt að skilja tilganginn með þessu öllu saman.


Það er samt eins og ég sé kominn á einhvern ákveðinn stað, einhvers konar núllpunkt. Ég horfi í kringum mig og velti því fyrir mér hvað muni taka við næst. Ég þarf ekki að vita hvað það er, ég þarf ekki að vita nákvæmlega hvað er að fara að gerast eða gera einhver plön, því að um leið og hlutirnir eiga að breytast veit ég að eitthvað mun koma óvænt upp og verða til þess að ég haldi áfram þá leið sem mér er ætlað að feta.


Það er eins og ég sé orðin sú manneskja sem ég er búin að vera að reyna að verða, með allri þessari andlegu vinnu síðastliðin ár. Það er samt eitthvað undarlegt við það. Það er alltaf verið að segja við mann að hugleiða, að skoða sjálfan sig og umhverfi sitt, vera þakklátur fyrir það sem maður hefur, sleppa tökunum og vera í flæðinu. Ég bjóst bara aldrei við að mér myndi takast það.


Að lifa lífinu á þennan hátt er eins og að stíga inn í annan heim. Ég geri mér ekki fulla grein fyrir því hvernig hlutirnir virka hérna. Það er þess vegna sem mér líður eins og ég sé fullkomlega kyrr, eins og ég sé ekki að fara neitt vegna þess að ég veit ekki ennþá í hvaða átt ég er að fara, eins og ég sé að ígrunda málin. Sjá hvað verður. Það er erfitt að útskýra.


Mér finnst líka hálf óþægilegt að margt af því sem er orðið hluti af mínu daglega lífi svipar til trúarbragða; að biðja bænir, trúa á einhvers konar æðri mátt, færa þakkir. Það er samt eitthvað ljúft við það að að vakna á morgnana og vera þakkát fyrir að vera á lífi, fara svo með möntru í huganum áður en ég fer fram úr rúminu (May the light in me be the light I see before me. May I learn to see it in all. May the sound I utter, reveal the light in me. May I listen to it while others speak), og finnast ég geta sent beiðni um aðstoð út í kosmósið þegar ég upplifi óöryggi.


Ég geri sólarhyllingu áður en ég fer út úr húsi í byrjun dags (þar sem ég baða mig í sólargeislunum, andlega, tilfinningalega, huglægt og líkamlega). Æfi mig í að sjá það góða í fólki, sjá það góða í sjálfri mér. Hugsa ekki langt fram í tímann, tek einn dag í einu, eitt andartak í einu. Róa mig þegar ég kemst í tilfinningalegt uppnám eða neikvæðar raddir, efasemdir um sjálfa mig, taka yfir. Gef sjálfri mér meira rými, leyfi mér að vera byrjandi, vita ekki allt, læra nýja hluti.


Satt best að segja finnst mér ég vera orðin ansi furðulegt eintak. Það er einfaldara að segja ekki neitt, láta eins og ég sé „eðlileg“, vera ekkert að útskýra fyrir fólki það sem ég er að hugsa og upplifa – eins og í fyrrakvöld þegar ég ætlaði ekki að geta sofnað og vakti fram eftir nóttu, en byrjaði á ákveðnum tímapunkti að finna fyrir orku sem mér fannst koma ofan frá og leggjast ofan á, ekki bara mig, heldur veröldina, eins og þykkt teppi, indigo að lit, indigo sem er litur sjöttu orkustöðvarinnar, litur þriðja augans.


Eins og ég segi, furðulegt eintak.


Ég sleppi því að skrifa því ég veit ekki hvað ég get sagt, sem lætur mig ekki hljóma eins og ég sé svo ótrúlega skrýtin. En þetta er lífið. Kannski megum við vera alls konar. Kannski þurfum við að æfa okkur í að vera alls konar, að dæma ekki hvort annað fyrir að vera ekki eins og við. Kannski það. Ég held þá bara áfram, að taka þetta svona, eitt andartak í einu. Sjáum svo til hvað verður.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page