top of page

Heimsókn að handan

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Dec 2, 2019
  • 2 min read

Updated: Mar 2, 2021


Gústaf Adolf Guðmundsson á sjó

Mig dreymdi afa um það bil tveimur mánuðum eftir að hann dó. Ég var komin aftur til Englands þar sem ég var í háskólanámi og lá þessa nótt á beddanum í litla herberginu mínu á heimavistinni þarna úti.


Við afi vorum aldrei náin. Ég ólst upp úti á landi en afi og amma áttu heima í Reykjavík alla mína tíð. Afi sagði þess fyrir utan aldrei mikið. Hann var gamall skipstjóri og þegar ég var komin yfir tvítugt var hann orðinn hálf heyrnarlaus og lá flestum stundum í sófanum inni í litla herberginu í Fiskakvísl og las bækur. Ég kunni ekki að mynda samband við hann. Það var heldur kannski ekki á mína ábyrgð. Ég var og er að sjálfsögðu jafn róleg og fáorð og hann, þannig að við áttum eiginlega aldrei séns.

Þessa nótt birtist hann hins vegar sprellifandi í herberginu mínu. Í draumnum var ég sem fyrr segir á heimavistinni minni en mér til fóta var allt í einu komið annan rúm, og þar lá sem sagt afi. Ég öskraði upp fyrir mig enda vissi ég fullvel að afi væri látinn og að þetta væri því draugur fyrir sjónum mínum. Afi segir þá pollrólegur „Láttu ekki svona, ég er bara hér.“ Lengri var draumurinn ekki. Afi var sem sagt bara mættur í heimsókn til mín, svona rétt til að taka stöðuna á mér. Eftir upphaflega sjokkið fannst mér það afar fallegt af honum. Þetta var í fyrsta skiptið, en ekki það síðasta, sem hann lét vita af sér.


Nokkrum árum síðar var ég á námskeiði að æfa mig í skyggnilýsingu og þar var kominn eldri maður sem mér fannst hafa látist á friðsælan hátt. Hann sýndi mér ljósmynd af afa sem var afar lýsandi fyrir hann; tekin um borð í kænu þar sem hann situr glaður á svip í appelsínugulum sjógalla. Ég hélt að þetta væri merki um að þessum manni svipaði á einhvern hátt til afa míns. Það tók mig þó nokkurn tíma að átta mig á því að þarna var afi sjálfur kominn að heimsækja mig. Mig átti svo eftir að dreyma hann í nokkur skipti í viðbót.

Fyrir ekki svo löngu síðan spurði ég miðil út í þennan afa minn og af hverju hann væri í svona miklum samskiptum við mig, með tilliti til þess að við raunverulega þekktumst ekki neitt af viti á meðan hann lifði. Hún sagði að ég hefði fengið genin hans og að við kynnum bæði einveru.


Mér þykir vænt um þessi tengsl okkar – að vita til þess að þó einhver sé farinn, séu það ekki endalokin, heldur þvert á móti. Stundum finn ég sterkt fyrir ást og umhyggju sem beinist að mér að handan. Ákveðinni skilyrðislausri ást sem við mannfólkið eigum ekki svo auðvelt með að sýna hvort öðru í lifanda lífi.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page