Heimsókn til sálfræðings
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jul 5, 2023
- 3 min read
Updated: Jul 7, 2023
Það er mikið rætt um mikilvægi þess að fólk komist til sálfræðings en minna um hvað fer þar fram og hver markmiðin eru með slíkri heimsókn.

Ég er hrædd um að ákveðinn hluti þeirra sem vilja komast til sálfræðings haldi að þeirra bíði einhver töfralausn þegar það loksins kemst að, þegar það er þvert á móti hlutverk sálfræðings eða ráðgjafa að aðstoða fólk við að vinna sjálft úr sínum málum. Að mæta til sálfræðings er aðeins upphafið af mikilli vinnu, þar sem slíkur aðili hjálpar fólki að takast á við tilfinningar sínar og vinna úr sínum áföllum.
Það er að minnsta kosti mín reynsla en ráðgjafinn sem ég fór til upphaflega kenndi mér að takast á við tilfinningar mínar; læra að hleypa þeim upp á yfirborðið, bera kennsl á þær og fá fyrir þær heilbrigða útrás, auk þess sem ég lærði að gera greinamun á mínum eigin tilfinningum og líðan og tilfinningum annarra.
Þegar ég byrjaði í viðtalsmeðferð þá vissi ég ekki hvað ég væri að fara út í, ég vissi bara að mér leið ekki vel og ég var þreytt á því að glíma við stöðugan kvíða, vanlíðan og áhyggjur. Ég var mjög ánægð þegar ég fann ráðgjafann minn, vegna þess að ég hafði áður reynt að leita mér hjálpar, en þetta var í fyrsta sinn sem mér fannst ég hafa fundið aðila sem skildi mig og gæti aðstoðað mig við það sem ég var að upplifa og hafði gengið í gegnum.
Hins vegar fór ég fljótlega að kvíða fyrir því að mæta, einmitt vegna þess að ég var búin að læra það að mæta til hans í viðtalstíma þýddi að ég þyrfti að fara að fara að gramsa í einhverju gömlu og vinna með sársaukafullar tilfinningar, sem gekk á móti mínu varnarkerfi sem vildi vernda mig frá því að upplifa hluti sem voru óþægilegir fyrir mig. Mig grunar að margir sem byrji hjá ráðgjafa hætti að mæta vegna þess að þeim líður verr, fyrst um sinn, vegna þess að í viðtalsmeðferð koma hlutir upp á yfirborðið sem eru erfiðir og sársaukafullir.
Það er það sem gerist þegar maður situr einn með sjálfum sér, sem er ástæðan fyrir því að margir halda sér uppteknum til þess að þurfast ekki að takast á við það sem kemur upp þegar ekkert annað truflar. Fólk vill helst ekki þurfa að horfast í augu við sína raunverulegu líðan, en heldur sér þess í stað uppteknu eða deyfir sig með mat, drykk, innkaupum, tölvuleikjum, fíkn, ræktinni, vinnu eða með því að leggja meiri áherslu á aðra en sjálfa sig.
Það krefst hugrekkis að sitja með tilfinningum sínum, enda felur það í sér að leyfa því sem vill koma upp að koma upp, án þess að reyna að hlaupa í burtu frá því eða deyfa sig á einhvern hátt. Það er lærdómsferli að læra að takast á við þessar sáru tilfinningar og verða færari í því að finna þær og kunna að halda utan um sjálfan sig á meðan þessar tilfinningar flæða í gegn.
Í mínum huga getur sálfræðingur eða ráðgjafi aðstoðað mann við að læra á þetta ferli sem á sér stað með úrvinnslu tilfinninga. Þess vegna er svo mikilvægt að það ríki traust á milli ráðgjafans og þess sem leitar sér aðstoðar, sem er ástæðan fyrir því að það getur tekið tíma að finna réttu manneskjuna eða réttu aðferðirnar sem henta manni fyrir þessa vinnu.
Að leita sér hjálpar hjá ráðgjafa felst aðallega í því að læra á það hvernig maður virkar og fá tæki og tól til þess að geta haldið sjálfsvinnunni áfram. Þó það sé gott að geta farið til ráðgjafa annað hvort reglulega eða þá af og til, þá er náttúrulega ekki hægt að hlaupa til ráðgjafa í hvert skipti sem eitthvað kemur upp á lífi manns. Það þýðir að maður þarf að læra að takast sjálfur á við áskoranir hins daglega lífs, enda þarf maður alltaf á endanum að taka ábyrgð á manns eigin tilvist.
Comments