top of page

Horfst í augu við óttann

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 21, 2012
  • 3 min read

Updated: Jun 9, 2020


Ég er aðeins of meðvituð um þá staðreynd að árinu er senn að ljúka, og með því, sú hugmynd að setja mér eitt markmið fyrir hvern mánuð þessa árs. Ég komst aldrei lengra en fyrstu tvo, þrjá mánuðina, ekki vegna þess að þetta hafi ekki verið góð hugmynd heldur vegna þess að áherslur mínar hafa breyst.


Ég byrjaði á að setja mér markmið á við það að hætta að drekka gos (sem ég hef mestmegnis gert), mæta í ræktina (fleh), og að klífa Esjuna í fyrsta sinn (sem ég og gerði). En ég vissi ekki hvers konar markmið ég ætti að setja mér önnur – það eina sem ég virtist vera fær um að nota þessa hugmynd í voru markmið sem snérust að hreyfingu og mataræði.


Og það er nefnilega vandamálið. Mér fór að finnast þessi markmið vera... hálf ómerkileg, samanborið við það sem var í gangi hjá mér. Þegar leið að apríl hafði ég þegar verið í viðtalsmeðferð í meira en hálft ár, sem skipti mig miklu meira máli en líkamsrækt, en mér fannst það engu að síður vera of persónulegt til að ræða hér, þar sem hver sem er gæti lesið það sem ég skrifa. En hvernig ferðu að því að skrifa blogg um sjálfshjálp ef þú getur ekki lýst því sem þú ert að ganga í gegnum?


Þú getur það ekki. Og fjandinn hafi það, ég er þreytt á því að þykjast vera einhver önnur en ég er hvort eð er. Svo hér er það sem ég hef að segja um líkamsrækt og mataræði: ég held að við séum að byrja á öfugum enda. Við höldum að ef við mætum í ræktina og borðum rétt þá munum við loksins vera í „rétta“ forminu, ef við hættum bara að borða nammi og allt það sem við teljum vera slæmt fyrir okkur þá munum við verða fullkomin.


Við munum líta út fyrir að vera fullkomin, okkur mun finnast við vera fullkomin, fólk mun dást að okkur og munum loksins verða hamingjusöm. Ekki stressuð, ekki áhyggjufull, ekki óörugg, heldur ánægð, afslöppuð, sjálfsörugg, og munum trúa því að við séum jafngóð og annað fólk. Gleymum því að þegar vigtin sýnir töluna sem við höfum verið að leitast eftir er verkinu ekki lokið, þar eð við þurfum að halda áfram að mæta X mörgum sinnum í ræktina og neita okkur um allt sem okkur langar í að borða, enda verðum við enn í því að bera okkur saman við annað fólk. Þannig að, kannski ekki svo hamingjusöm eftir allt saman.


Hvað ef við prófuðum aðra taktík? Hvernig væri að byrja á því að líta inn á við? Hvað ef við tækjum tíma til að virkilega horfa á okkur sjálf, horfast í augu við óttann, vera hreinskilin við okkur sjálf? Vegna þess að við ljúgum að okkur reglulega, þú veist að það er satt. Að horfa á okkur, virkilega horfa á okkur, er ekki auðvelt. Það krefst einveru, fjarri fjölskyldu okkar og vinum, án nokkurs til að dreifa athyglinni, svo að við höfum ekki um neitt annað að velja en að líta inn á við.


Kannski getum við ekki gert það ein. Kannski þurfum við hjálp frá fagaðila, og það er í lagi, til þess eru þeir þarna, það er engin skömm fólgin í því. En við það að horfast í augu við óttann uppgötvum við að hann er ekki svo hræðilegur – að það er raunar ekkert til að hræðast. Allt mun verða í lagi. Það er ekkert að. Það sem skiptir meira máli, það sem skiptir mestu máli, er að það er ekkert að þér.


Voilá. Ef það er ekkert að þér, ef þú ert fullkomlega góður nákvæmlega eins og þú ert, þá geturðu hætt þátttöku þinni í keppninni. Keppninni sem segir að þú þurfir að vera grannur, að þú verðir að borða hollt, og gefa þetta upp, og hitt upp, raunar alla þína ókosti. Þú getur mætt í ræktina, ef þú vilt. Þú getur fengið þér salat í staðinn fyrir hamborgara, ef þú kýst. Þú getur drukkið minna, eða hætt alveg, ef þú hefur ekki gaman af því. En þú ÞARFT þess ekki.


Þú þarft þess ekki. Þú þarft ekki að fá samviskubit ef þig langar í þennan hamborgara, eða ísinn, eða glas af hvítvíni. Það er algjörlega undir þér komið. Og þar eð þú ert fullkomlega sjálfsöruggur og ánægður með það hver þú ert, þá gætirðu komist að því að þú hefur ekki lengur þörf fyrir þess konar mat hvort eð er.


Fyrir mig, í stað þess sem ég byrjaði árið á, er þetta viðhorf það sem hefur orðið að minni nýrri og betri leið til að lifa lífinu.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page