top of page

Hugvíkkandi ferðalag: Undirbúningur

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Jan 25, 2024
  • 3 min read

Ég fór í mitt fyrsta hugvíkkandi ferðalag í upphafi þessa árs.



Hugmyndin að því kviknaði hjá mér þegar ég fór á Psychedelics as Medicine ráðstefnuna í Hörpu í janúar í fyrra, en þar áttaði ég mig á því hversu lítið ég vissi um slíkt. Ef eitthvað, þá var með ég með frekar mikla fordóma fyrir hugvíkkandi meðferð sem meðferðarúrræði.


Á ráðstefnunni voru hins vegar fyrirlesarar sem sögðu frá vísindalegum rannsóknum á þessu sviði, útskýrðu efnin virka og hvernig þau geta aðstoðað við úrvinnslu áfalla, þunglyndis og kvíða. Það varð til þess að ég fór í fyrsta sinn að hugsa um að prófa þetta á eigin skinni.


Þar sem það tekur mig gjarnan tíma að velta málunum fyrir mér, fór ég ekki í mitt fyrsta ferðalag fyrr en ári síðar. Þegar ég fór var ég búin að lesa mér meira til um hugvíkkandi meðferð, horfa á heimildarmyndir og heyra frá fóllki í kringum mig sem var búið að fara og gat deilt sinni reynslu með mér.


Ég valdi að fara til ráðgjafa með sálfræðimenntun sem sat yfir mér á meðan á ferðalaginu stóð. Hluti af því ferli innihélt að fara í viðtalstíma um það bil tveimur mánuðum fyrir ferðalagið sjálft, auk þess sem ég fór í annan viðtalstíma daginn eftir ferðalagið til þess að fara yfir mína upplifun og líðan.


Ég veit að það eru skiptar skoðanir um hugvíkkandi meðferð og að það eru ákveðnar hættur til staðar. Þess vegna er svo mikilvægt að vera vel undirbúinn og fara til aðila sem er fær um að leiðbeina fólki í gegnum ferlið og það sem tekur við að meðferð lokinni.


Rannsóknir sýna einmitt fram á mikilvægi þess að taka inn hugvíkkandi efni sem hluta af viðtalsmeðferð, vegna þess að ferðalagið getur opnað á efni úr undirmeðvitundinni, minningar og tilfinningar, sem þarf að vinna með að því loknu. Sumir segja að vinnan sjálf hefjist í raun eftir að ferðalaginu lýkur,


Hugvíkkandi meðferð er nefnilega engin töfralausn eitt og sér, frekar en nokkuð annað, heldur leið til þess að vinna úr áföllum og þess vegna er svo mikilvægt að halda vinnunni áfram með ráðgjafa sem getur aðstoðað við úrvinnsluna.


Mér fannst hjálplegt að hitta ráðgjafann minn eftir á, sérstaklega vegna þess að svona meðferð er svo einstaklingsbundin að það er ekki fyllilega hægt að undirbúa sig fyrirfram fyrir það sem mun eiga sér stað.


Ég var þakklát fyrir að geta haft samband við ráðgjafann sem ég fór til, en ég var í sambandi við hana í gegnum tölvupóst og síma í um það bil viku eftir að ég fór, á meðan ég var að átta mig á minni upplifun.


Ég gerði mér t.d. ekki almennilega grein fyrir því að ferðalagið yrði aðeins upphafið að ferli sem færi af stað hjá mér sem myndi taka mig margar vikur að vinna úr, en sem betur fór gat ég borið saman bækur mínar við fólk sem ég þekkti sem hafði farið í slíkt ferðalag, enda fann ég fyrir mikilli þörf fyrir að ræða það sem ég var að ganga í gegnum.


Að fara í hugvíkkandi ferðalag er kannski ekki fyrir forvitna eða fólk sem er á góðum stað í sínu lífi, en fyrir fólk sem hefur verið að glíma við vanlíðan, líkamlega eða andlega, í mörg ár eða jafnvel áratugi og prófað nánast allt sem er í boði án teljanlegs árangurs, finnst mér vera full ástæða til þess að láta á þessa meðferð reyna.


Ég sé að minnsta kosti ekki eftir því að hafa prófað þennan valkost, og finnst gott að vita af þessari leið til þess að geta haldið áfram að vinna með þá vanlíðan, kvíða og streitu sem ég er enn að glíma við, á annan hátt en ég hef gert hingað til.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page