Hvernig ég leiddist út á andlegar brautir
- Guðný Guðmundsdóttir
- Aug 8, 2020
- 2 min read
Updated: Mar 2, 2021

Fyrsta heimsókn mín til miðils var mér allra helst minnisstæð fyrir þær sakir að miðilinn tilkynnti mér þarna, 19 ára gamalli, að ég ætti eftir að verða langlíf. Ég sat þarna stjörf og velti því fyrir mér hvort manneskjan sem sat á móti mér vissi virkilega hvenær ég ætti eftir að deyja.
Að heimsækja miðil var mér ekkert sérstaklega framandi hugdetta, enda ólst ég upp við það að foreldrar mínir höfðu einstaka sinnum farið til miðla og áttu það til að ræða drauma sína og mögulega merkingu þeirra.
Ég fór til miðla einu sinni eða tvisvar næstu árin eftir þetta fyrir forvitnissakir, en það var ekki fyrr en ég fór til konu í lestur þegar ég var 25 ára sem hið andlega líf fór að opnast upp fyrir mér. Sú stakk upp á því við mig að ég myndi prófa að fara á námskeið í lestri tarotspila.
Þar sem ég hafði jú alltaf verið forvitin um andleg málefni tók ég hana á orðinu og skráði mig á næsta námskeið sem ég fann. Það var svo sem ágætt, en ég fann mig ekki nægilega vel hjá þeim kennara og prófaði því að fara á annan stað þar sem tarotlestur var einnig kenndur.
Þar með hófst ferðalag sem enn sér ekki fyrir endann á. Hjá Sigrúnu í Heilunarskólanum kynntist ég hugleiðslu í fyrsta sinn, en ásamt því að ljúka námskeiðum í tarotlestri, draumráðningum, heilun og miðlun þennan veturinn, fór ég einnig að taka þátt í vikulegum hugleiðsluhóp.
Ég á mér engar minningar um að hafa verið skyggn sem barn og var ekkert endilega viss um að ég hefði hæfileika á sviði heilunar og miðlunar. Þarna varð ég hins vegar vör að ég byggi yfir ákveðinni næmni sem ég vildi skilja betur og þróa áfram.
Það sem sannfærði mig fyrst og fremst um að ég ætti erindi á þessu sviði var það sem átti sér stað þegar ég byrjaði að sitja með fólki í hugleiðslu. Í hvert skipti sem ég settist niður með fólki, fann ég nánast samstundis fyrir orku sem streymdi niður handleggina á mér og út í gegnum hendurnar.
Þetta var svo sterk orka að mér varð hreinlega illt í handleggjunum, en kennarinn útskýrði fyrir mér að þarna væri verið að undirbúa mig líkamlega fyrir að verða heilari. Þetta var aðeins eitt af því sem ég fór að finna fyrir og upplifa, sem ég hafði ekki vitað til þess að væri mögulegt áður, en það sem ég hef upplifað í þessum efnum síðan þá er nú reyndar efni í annan pistil.
Það sem ég get sagt er að ég lærði margt og mikið um sjálfa mig og mína hæfileika á þessu sviði á meðan þessu námi mínu stóð, sem varð til þess að ég hef nú, níu árum síðar, tekið fjölmörg heilunar- og miðilsnámskeið til þess að skilja þessa krafta betur.
Þrátt fyrir það geri ég mér grein fyrir því að það er ansi margt sem ég skil ekki og á enn ólært. Það breytir því ekki að það sem ég hef fundið og skynjað er nóg til þess að sannfæra mig um að það er meira í þessum heimi en það sem við mannfólkið sjáum með berum augum.
Comentarios