Hvert örstutt spor
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jan 3, 2022
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Í gegnum tíðina hef ég upplifað mikla óþolinmæði á mínu sjálfsræktarferðalagi.

Ég veit það vel að það getur tekið langan tíma að ná árangri þegar maður er að vinna svona í sjálfum sér, enda trúi ég ekki á töfralausnir. Ég get engu að síður verið ansi frústreruð þegar mér finnst ekkert vera að gerast af viti, vegna þess að skrefin sem ég tek eru svo lítil að mér finnst ég hreinlega ekki komast úr sporunum.
Þannig er ég búin að vera síðustu daga, pirruð yfir því að það sé komið nýtt ár, þegar mér finnst ég ekki vera að ná neinum teljanlegum árangri og sé fram á meira af því sama á nýju ári. Ég áttaði mig samt á því rétt í þessu að ég upplifði engu að síður merkilega atburði síðastliðna mánuði; ég hætti nefnilega að vera hrædd, en því næst hætti ég að finna fyrir tómleika.
Það var eitthvað sem gerðist síðastliðið haust, eitthvert andartak þar sem ég fann skyndilega fyrir því að ég væri ekki lengur hrædd. Ég var ennþá óörugg og velti því mikið fyrir mér hvað framtíðin bæri í skauti sér, en ég fann ekki lengur fyrir þessum undirliggjandi ótta sem virtist hafa búið innra með mér alla mína tíð. Það er erfitt að útskýra, en það er eins og þessi tilfinning, þessi ótti, hefði einfaldlega yfirgefið mig og hefur að minnsta kosti ekki enn komið til baka.
Nokkrum vikum eða mánuðum eftir þetta atvik hætti ég svo að finna fyrir tómleika. Síðustu tvö árin sem ég hef verið án atvinnu hef ég gert mitt besta til þess að eyða ekki í óþarfa, en ég hef samt haft þörf fyrir að fá mér eitthvað smávegis, t.d. góðan kaffibolla á veitingahúsi, til þess að gera vel við mig. Að sjálfsögðu er ekkert að því að njóta lífsins, en það sem hefur breyst hjá mér er að ég geri mér ekki lengur dagamun til þess að fylla eitthvað tómarúm innra með mér.
Það sem gerðist á sama tíma var að ég fann fyrir því að ég bjó yfir meira trausti, trausti til æðri máttar (alheimsins, guðs, míns æðra sjálfs), sem er einmitt það sem ég er búin að vera að reyna svo mikið að finna fyrir undanfarið. Ég varð vitni að því þegar ég fékk óvæntan reikning, sem hefði vanalega gert mig órólega og kvíðna, en ekki í þetta sinn. Það eina sem ég hugsaði með mér var að ég myndi bara borga þennan reikning og að það yrði allt fullkomlega í lagi með það, sem það var.
Ég sé núna að það er alls ekki svo lítið að finna ekki lengur fyrir ótta né tómleika. Ég hugsa að ég gefi mér ekki nógu mikið klapp á bakið þegar ég upplifi breytingar eins og þessar, vegna þess að mér finnst alltaf að ég eigi að vera að gera meira (sérstaklega þegar ég sé fólk sem vaknar eldsnemma morguns til þess að æfa jóga og hugleiða fyrir vinnu). Ég hef svolítið verið í því að skamma sjálfa mig fyrir að notast ekki við fleiri af þeim tólum sem ég hef verið að læra síðastliðin tíu ár í minni andlegu iðkun.
Það sem ég er hins vegar góð í, er að vera meðvituð um sjálfa mig á degi hverjum og taka eftir hugsunum mínum, tilfinningum, viðhorfum og viðbrögðum. Þrátt fyrir að ég sé auðvitað búin að lofa mér því hátíðlega að allt muni breytast á nýju ári, að ég muni hugleiða daglega og stunda mína andlegu iðkun af krafti, er það raunverulega ekki það sem skiptir máli. Það sem skiptir máli er að treysta því að ég muni halda áfram að taka þessi litlu skref, sem eru kannski ekki svo lítil eftir allt saman.
コメント