Kundalini, lífsorka eða hreinsun?
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jun 30, 2024
- 3 min read
Updated: Jul 10, 2024
Nú eru rétt tæpir sex mánuðir liðnir síðan ég fór í mitt fyrsta hugvíkkandi ferðalag og það er ýmislegt búið að gerast síðan þá.

Fyrst og fremst er ég ennþá að hristast og upplifa alls konar verki í líkamanum, en það þýðir ekki að það hafi ekki orðið neinar framfarir. Heilt yfir er eins og ákveðin vinnsla eigi sér stað í um það bil 2-3 vikur, en svo færist sú vinnsla til, en þá finn ég annað hvort fyrir verkjum af öðrum toga eða á öðrum stöðum í líkamanum.
Þetta var ekki það sem ég átti von á að myndi gerast þegar ég fór í ferðalagið, en síðan þá er ég búin að lesa mér endalaust til, eins og mín er von og vísa. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst svo að mér líði ekki eins og ég sé að tapa glórunni, heldur geti huggað mig við að fullt af fólki hefur upplifað það sama eða eitthvað álíka, þó svo að ég þekki engan sem er að ganga í gegnum það nákvæmlega sama og ég.
Mér hefur fundist einfaldast að finna efni með því að lesa mér til um Kundalini, sem er hugtak sem flestir nota yfir þessa reynslu. Ég hef hins vegar fundið efni eftir andlega kennara sem vilja frekar tala um lífsorku eða hreinsunarferli, en það skiptir mig svo sem ekki máli hvað þetta er kallað, svo lengi sem ég finn upplýsingar um að þetta sé fyrirbæri sem sé vissulega til.
Besta útskýringin á því sem er að eiga sér stað finnst mér vera að ég hafi opnað á efni úr undirmeðvitund minni, gamlar tilfinningar og sársauka, sem sé að koma upp á yfirborðið til úrvinnslu, hægt og örugglega, en engu að síður í meira mæli en ég hef upplifað á mínu sjálfsræktarferðalagi hingað til.
Það hjálpar mér að hugsa þannig, sérstaklega þegar mér er illt eða ég upplifi sterkar tilfinningar, líkt og ótta, kvíða og skömm, en þá minni ég mig á það að það eina sem þetta ferli krefst af mér er þolinmæði og að vera fær um að sitja með því sem er að koma upp hverju sinni, en reyna ekki að halda aftur af því.
Mér finnst ég vera búin að skrifa svo mikið um tilfinningalega úrvinnslu að ég hljómi eins og biluð plata, en það er vegna þess að ég er búin að vera í heilunarvinnu í svo mörg, mörg ár. Ég hef gengið í gegnum það, jafnvel oft á tíðum, að vera við það að gefast upp á þessu öllu saman, sérstaklega þegar ég finn alltaf meira og meira til þess að vinna úr.
Það er kannski þess vegna sem ég ákvað á endanum að prófa hugvíkkandi ferðalag, vegna þess að ég var orðin þreytt á því að vera endalaust að losa út eitthvað gamalt drasl. Ég hafði hvorki orku né löngun lengur til þess að forðast þá vinnu sem þurfti að eiga sér stað, og var hætt að hræðast það sem ég myndi mögulega finna ef ég opnaði hurðina upp á gátt.
Ég fékk því vissulega það sem ég óskaði mér, þó svo að ég hafi ekki gert mér grein fyrir því fyrr en núna, og hafi alls ekki búist við öllum þessum hristing og verkjum. Það er samt nákvæmlega það sem ég þurfti, vegna þess að ég er loksins farin að sjá árangurinn af allri þessari vinnu.
Það felur fyrst og fremst í sér að mér finnst orðið þægilegt að dvelja með sjálfri mér. Þessar gömlu tilfinningar og sársauki eru nefnilega aðeins fyrir því góða sem býr hið innra, en eftir því sem maður mokar meiru út, kemst maður nær og nær manns innsta kjarna og sanna sjálfi.
Ég finn hvernig mig langar að geta notið þess að vera til, frekar en að verja öllum mínum tíma í að laga eitthvað sem ég tel vera að. Það þýðir ekki að minni heilun sé lokið, heldur að ég kjósi frekar að leyfa hlutunum að koma upp þegar og ef það gerist, en lifa lífi mínu þess á milli.
Ég er líka orðin meðvituð um að það sé hægt að festast á hvaða stigi sem er á þessu andlega ferðalagi, þar á meðal því að vera staddur í heilunarfasa. Það er því góðs viti að upplifa að ég sé tilbúin til þess að taka næstu skref á mínu ferðalagi, hver svo sem þau munu reynast vera.
Comentarios