Lærdómurinn af vonleysi
- Guðný Guðmundsdóttir

- Apr 22, 2024
- 3 min read
Updated: Apr 29, 2024
Eitt sem ég hef verið að upplifa mikið undanfarið er vonleysi.

Eins og ég trúi ekki á töfralausnir, eins og ég hef svo mikið ætlað mér að vinna í sjálfri mér út lífið þar til ég er hreinlega komin á grafarbakkann, verð ég að játa að ég hef lúmskt verið að bíða eftir því að það leysist úr hlutunum, að ég sé búin að vinna svo mikla vinnu að það hljóti að fara að koma að því að mér fari að líða vel, svona heilt yfir.
Málið er hins vegar að ég er búin að vera að bíða og bíða, en það gerist ekki neitt. Ég fer að nálgast fertugt, sem er tími þar sem fólk heldur kannski að það sé nokkurn veginn komið með líf sitt á hreint, sem á engan veginn við um mig. Ég er ekkert endilega sátt við það hvar ég er stödd á þessum tímapunkti í lífi mínu, sem hefur valdið þessu vonleysi sem hefur verið að plaga mig.
Mér fannst það líka slæmt, eftir alla vinnuna sem ég hef lagt á mig við að rækta sjálfa mig, að vera svona vonlaus og döpur. Ég rakst hins vegar á bókina When Things Fall Apart eftir Pema Chödrön, sem gaf mér nýja sýn á þetta „vandamál“, en þar fjallar hún um það að samkvæmt búddhisma sé ekki hægt að treysta á það að það verði alltaf í lagi, alltaf, vegna þess að lífið gangi einfaldlega upp og ofan.
Hún vill í þessari bók meina að það að komast á það stig að upplifa vonleysi sé alls ekki slæmt, heldur upphafið að hinni raunverulegu sjálfvinnu. Að það sé gott að hætta loksins að bíða eftir að allt verði fullkomið, vegna þess að það muni aldrei gerast. Lífið er hér og nú. Stundum gengur vel, stundum gengur illa.
Það séu raunar góðar fréttir, vegna þess að það er ofsalega frelsandi að hugsa til þess að það sé enginn tímapunktur þar sem allt verður í lagi. Það er þá hægt að hætta að bíða og byrja að lifa lífinu eins og það er. Að gera sér grein fyrir því að lífið sé ánægja, en einnig sársauki. Það sé þar af leiðandi engin ástæða til þess að vera fúll þó lífið sé stundum erfitt eða hlutirnir gangi illa endrum og eins.
Í mínum huga hefur það tvenn áhrif á líf manns að halda að hlutirnir verði einhvern tímann fullkomlega í lagi; annað hvort gerir maður allt til þess að svo geti orðið, með því að reyna að gera allt „rétt“ og tryggja þar með ákveðið öryggi, eða óskar þess stöðugt að lífið sé öðruvísi og forðast þar með að takast á við það eins og það er.
Nú þegar ég veit að það er enginn leið að ná þessu takmarki líður mér hins vegar mun betur, vitandi til þess að ég sé frjáls til þess að upplifa lífið eins og það er í heild sinni. Ég hef einmitt verið að finna til löngunar til þess að vera heil sem manneskja, manneskja sem er fær um og hefur rétt til þess að upplifa allan skalann af mannlegum tilfinningum.
Mér hefur nefnilega liðið undanfarið eins og ég sé ekki í lagi eins og ég er, vegna þess að ég á stundum erfiða daga, eða vegna þess að ég hef þurft að takast á við sárar tilfinningar sem koma upp í dagsins önn. En það er svo mikil byrði að setja það á sjálfan sig að eiga að vera í góðu skapi, sama hvað. Það er ekki þannig sem lífið virkar. Stundum er veðrið leiðinlegt. Stundum er maður ósofinn.
Að láta eins og maður sé alltaf glaður og ánægður en hunsa manns raunverulegu líðan, það safnast upp og veldur gremju sem kemur á einhverjum tímapunkti upp á yfirborðið. Að fá að vera eins og maður er, með kostum manns og göllum, góðum dögum og slæmum, er í sjálfu sér mun heilbrigðara ástand. Það má heldur ekki gleyma því að ef lífið er alls konar, og inniheldur alls konar upplifanir og tilfinningar, þá felast einnig í því mikil tækifæri til vaxtar og aukins þroska.



Comments