top of page

Líðan manns er ekki tilviljunum háð

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Oct 19, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég var að átta mig á því um daginn hvað ég er orðin róleg innra með mér – það gerist sjaldnar og sjaldnar að eitthvað komi upp á sem raskar ró minni.

Þau atvik sem koma mér engu að síður úr jafnvægi einkennast gjarnan af sterkum tilfinningum, en það er einmitt þess vegna sem ég uppgötvaði hversu sjaldnar eitthvað svoleiðis kemur orðið fyrir mig. Slíkar tilfinningar eru núorðið svo mikil mótsögn við mína daglegu líðan, sem einkennist almennt af friðsæld.


Ég er farin að treysta því að hlutirnir verði í lagi, að það sé ekkert til þess að hafa áhyggjur af, en einstaka sinnum koma þó upp atvik sem kippa mér út úr friðnum. Dæmi um slíkt eru til dæmis þegar nágrannarnir bönkuðu upp á í sumar til þess að ræða þakið sem þurfti að skipta um, sem ég varð stressuð yfir fjármálunum mínum. Svo þegar ég byrjaði að vinna aftur í haust voru atvik sem komu upp sem gerðu mig smeyka, þar sem ég óttaðist að ég kynni ekki allt sem ég ætti að vera að gera eða hafði áhyggjur af því að ég myndi ekki standa mig nógu vel.


Þegar ég byrjaði upphaflega að vinna í sjálfri mér, fókusaði ég aðallega á það að líða aðeins betur. Ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir því að það væri hægt að komast á þennan stað, að vera í svona miklu jafnvægi. Ég komst hingað með því að vera meðvituð um sjálfa mig og umhverfi mitt, með því að taka eftir því hvernig hlutirnir hafa áhrif á mig og skoða hvað það sé eiginlega sem hafi svona sterk áhrif á mig.


Lífið gengur að sjálfsögðu upp og ofan, stundum gengur það vel, stundum illa. Það sem skiptir máli er ekki það sem gerist, heldur það hvernig maður bregst við því. Það mun alltaf eitthvað koma upp á; fjárhagsáhyggjur, óþægilegur tölvupóstur eða misskilningur í nánum samskiptum, svo örfá dæmi séu tekin. Ef maður leyfir slíkum atvikum hins vegar að raska ró sinni, mun líðan manns alltaf stjórnast af utanaðkomandi aðstæðum eða hegðun annarra.


Það þýðir að sjálfsögðu ekki að það komi aldrei neitt upp á, en ég kýs að treysta sjálfri mér nægilega vel til þess að vita að ég sé fær um að takast á við það sem gerist og treysta því að það verði mér á endanum til góðs. Ég upplifi meiri frið og ró vegna þess að ég óttast ekki lengur framtíðina, ég vel að sjá óvissu sem jákvætt fyrirbæri, sem býður upp á óteljandi möguleika og getur jafnvel boðað að eitthvað nýtt og spennandi sé á leiðinni inn í líf mitt.


Þegar hlutirnir ganga ekki nægjanlega vel, langar mig ekki að verja tíma mínum í það að hafa áhyggjur og líða illa, ég vil þá frekar velja að vera vongóð um að allt fari vel að lokum. Ég treysti því að erfið tímabil líði hjá, og á meðan á þeim stendur, tek ég einn dag í einu, eitt augnablik í einu. Ég vil að mér líði vel, ég vil vera þakklát á hverjum degi, sjá björtu hliðarnar á því sem er að eiga sér stað í lífi mínu og læra af þeim erfiðleikum sem ég er að ganga í gegnum.


Líðan manns þarf ekki að vera tilviljunum háð. Ég vil gjarnan setja mér það að markmiði að viðhalda þessari kyrrð sem ég er farin að upplifa. Til þess að ná þeim árangri þarf ég að vera athugul, passa að taka hlutina ekki inn á mig, bregðast ekki umsvifalaust við áreiti og leyfa því sem gerist ekki að koma mér í of mikið uppnám. Það gerist ekki á einum degi, en reynslan mín sýnir að það er vel hægt að stjórna því hvernig manni líður dagsdaglega, með því að stjórna því hvernig maður hugsar og bregst við því sem á sér stað á degi hverjum.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page