top of page

Lífið er leikur

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Apr 28, 2022
  • 3 min read

Updated: Aug 12, 2024

Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér undanfarna mánuði að ég hef einhvern veginn ekki haft tíma til þess að setjast niður í rólegheitum og setja nokkur orð á blað.

Fyrsta janúar byrjaði ég nefnilega í 100% starfi hjá Geðhjálp og síðan þá hef ég haft nóg að gera við að sinna áhugaverðum verkefnum, fyrst við G-vítamín herferð Geðhjálpar á þorranum og svo við Geðlestina, sem er geðfræðsla fyrir nemendur í 8.-10. bekk.


Mér finnst verkefnin sem við erum að sinna hjá Geðhjálp svo ótrúlega gagnleg og gefandi, en það má því segja að ég sé komin í draumastarfið mitt, nánast fyrir tilviljun. Mig hefur lengi langað að starfa við eitthvað sem skiptir mig máli, en ég vissi ekki hvernig ég gæti farið að því að skipta um starfsvettvang. Núna er ég hins vegar búin að vera í margar vikur að starfa við það að heimsækja grunnskóla með frábærum hóp og spjalla við unglinga um mikilvægi geðræktar, sem er málefni sem ég brenn fyrir.


Áður hafði ég aðallega starfað við markaðsstörf og átti erfitt með að sjá fyrir mér hvernig ég gæti byrjað að vinna við geðheilbrigðismál þegar ég menntaði mig ekki á því sviði. Ég var líka í þægilegri vinnu með laun sem ég var sátt við og gerði því ekkert til þess að gera þær breytingar sem ég þó í raun þráði, vegna þess að það var einfaldast og þægilegast að halda mig innan míns þægindaramma hvað atvinnu varðaði.


Alheimurinn ákvað þó að nóg væri komið af því sem ég var að gera og ég missti vinnuna. Ég reyndi fyrst að vera skynsöm og sækja um störf sem hentuðu mér miðað við reynslu mína og menntun, en allt kom fyrir ekki, og ég fékk enga atvinnu við markaðs- eða vefmál, jafnvel þó ég reyndi. Eftir á að hyggja er ég því svo fegin, þar sem það varð til þess að ég fékk á endanum vinnu þar sem ég get látið gott af mér leiða og sem fellur undir mitt áhugasvið.


Það er erfitt að trúa því stundum að hlutirnir eigi eftir að ganga upp, en innst inni er ég samt viss um að það fari alltaf allt eins og það eigi að fara. Ég er líka farin að sjá svo mikinn árangur af allri minni sjálfsvinnu, enda er það óhjákvæmilegt þegar maður leggur svona mikla vinnu á sig, að það fari á endanum að sjást til sólar.


Það breytir því ekki að ég er ennþá að takast á við alls konar hluti en þannig er jú bara lífið. Ég er t.d. alltaf að reyna að koma heilbrigðari venjum upp í rútínuna og er enn að glíma við orkuleysi og vandamál tengd mataræðinu og fleira, en finn engu að síður hvernig ég er komin á svo miklu betri stað með sjálfa mig.


Í stað þess að glíma við vanlíðan, kvíða og áhyggjur, er ég meira forvitin um það sem er að eiga sér stað í mínu lífi, þeim verkefnum sem ég er að takast á við og því sem er framundan. Ég plana minna og leyfi hlutunum frekar að gerast í góðu tómi, á þeim tíma sem þeim er ætlað að verða. Það er svo margt sem mér finnst áhugavert, sem gleður mig, margt sem ég vil prófa og upplifa.


Ég er sáttari við sjálfa mig og sýni mér meiri mildi, leyfi mér að vera ófullkomin manneskja. Mér líður eins og ég sé búin að leggja svo mikla vinnu í að styrkja mig að það sé loksins kominn tími til þess að hafa gaman af lífinu og njóta uppskerunnar af öllu því sem ég er búin að vera að vinna að í svo ótrúlega langan tíma. Lífið er leikur og það má hafa gaman af því að vera til.


Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comentários


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page