top of page

Miðilshæfileikar koma í ljós

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 12, 2019
  • 3 min read

Updated: Mar 2, 2021


Í fyrsta sinn sem ég varð vör við að ég byggi yfir miðilsgáfum var það í draumi. Í þessum draumi átti ég erindi með sendingu á skrifstofu þar sem starfsemi miðla fór fram. Þar sem ég var þarna komin var mér boðin spá og ég settist inn í herbergi með miðli en þar sem hurðin var opin sá ég fram á móttökurýmið þaðan sem ég sat. Í miðri spánni breyttist skyndilega umhverfið fyrir augum mér.


Í stað þess að einn miðill sæti á móti mér birtist skyndilega vera við hliðina á miðlinum. Ég leit fram á gang þar sem nokkrir miðlar voru á vappi en hverjum og einum þeirra fylgdi þá sömuleiðis vera með hendi á öxl þeirra. Á meðan á þessu stóð fann ég fyrir furðulegri tilfinningu í höndunum en það var eins og kveikt væri í handleggjunum á mér en þessi ógurlegi hiti kom hins vegar innan frá og eldtungurnar sem ég fann fyrir voru hvergi sjáanlegar.


Næst vakna ég upp í rúminu heima hjá mér nema ég var ekki raunverulega vöknuð; mig dreymdi enn. Draumurinn varð orðinn að martröð því mér fannst ég togast á milli tveggja mismunandi vídda – það er að minnsta kosti það eina sem getur lýst þessari upplifun. Ég skildi ekki hvað var að gerast og hrópaði í örvæntingu á mömmu mína að koma að bjarga mér. Þegar ég loksins vaknaði í rúminu mínu fann ég ennþá fyrir þessum eldtungum í handleggjunum á mér sem virtust loga innan frá. Það var í fyrsta sinn sem ég fann fyrir heilunarorku streyma í gegnum mig.


Það eru um það bil níu ár síðan þetta var en síðan þá hef ég farið á ýmis konar námskeið í heilun og miðlun, tekið þátt í hugleiðsluhópum og kynnst fólki sem býr yfir svipuðum hæfileikum. Ég hef komist að því að miðilshæfileikar eru eitthvað sem þarf að vinna með og þróa því þó sumir séu skyggnir frá barnsaldri þá fara aðrir, líkt og ég, ekki að finna fyrir þessu fyrr en á fullorðinsaldri. Sama hvor hópnum fólk tilheyrir þarf það að læra á það hvernig hæfileikar þeirra virka og hvernig það fer að því að túlka skilaboðin sem það fær.


Miðilshæfileikar eru einnig mismunandi. Sumir sjá hina látnu næstum eins og þeir séu lifandi. Sjálf sé ég ekki látna einstaklinga berum augum. Ég er hins vegar næm fyrir tilfinningum og líðan annars fólk og get til að mynda fundið fyrir líkamlegum verkjum þeirra. Þegar ég miðla sé ég myndir sem ég lýsi þangað til ég kemst að því hver skilaboðin eru til þess sem á að fá þau. Heilarinn er þó enn sem komið er sterkastur í mér. Ef ég einbeiti mér þá finn ég orkuna sem ég upplifði í draumnum streyma fram úr höndunum á mér.


Ég hef ekki skrifað um miðilshæfileika mína opinberlega áður, þó svo að vinir mínir og fjölskylda viti af þeim. Ástæðan er einföld; ég er hrædd. Það er nóg að fylgjast með umræðum á samfélagsmiðlum til þess að sjá hversu dómhörð við getum verið í garð þeirra sem eru á einhvern hátt öðruvísi en við. Ég gæti þagað yfir þessum upplifunum mínum en það myndi ekki breyta því hver ég er. Ég vil bara fá að vera ég sjálf – jafnvel þó að ég sé svona óttalega skrýtin.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page