Mikilvægi hvíldar í hröðu samfélagi
- Guðný Guðmundsdóttir
- Oct 5, 2023
- 3 min read
Updated: Oct 27, 2023
Ég var að byrja í nýrri vinnu í haust en ég er orðin verkefnastjóri í hálfu starfi hjá Geðhjálp og hálfu starfi hjá Bataskóla Íslands, sem sinnir fullorðinsfræðslu um efni sem tengist geðheilsu.

Ég hef mikinn áhuga á mínum störfum, en ég upplifði engu að síður mikla streitu þegar Bataskólinn hóf kennslu í september, sem lýsti sér þannig að ég var orðin buguð af þreytu og almennri vanlíðan í lok hvers vinnudags. Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað það er slæmt fyrir heilsu mína að vera í líkama sem er vanur að vera í stöðugu streituástandi.
Mér finnst ég ekki hafa áhyggjur meðvitað, heldur sé það líkami minn sem fer í kerfi yfir öllum þeim verkefnum sem ég þarf að sinna, þó það séu aðeins hlutir sem tilheyra hinu daglega lífi sem við tökumst öll á við. Ég stend ekki frammi fyrir ljóni sem ógnar lífi mínu, en ég þarf stöðugt að vera vakandi yfir verkefnum og tölvupóstum ásamt því að sinna daglegu amstri.
Við erum búin að skapa samfélag sem einkennist af svo mikilli streitu, ekki aðeins vegna þess að hraðinn er svo mikill, heldur er okkur sagt að við þurfum að vera dugleg til þess að vera einhvers virði. Það er ekki nóg að standa sig vel á einu sviði, heldur þurfum við að skara fram úr á allan hátt; vera í góðu starfi, eiga fjölskyldu, sinna vinum og áhugamálum, hreyfa okkur og svo framvegis.
Líkaminn og hugur þarfnast hins vegar hvíldar til þess að sinna viðgerðum. Það er ekki hægt að vera stanlaust að, kerfið einfaldlega hrynur vegna þess að við erum ekki að hvílast inn á milli þess sem við erum að gera og framkvæma. Þess má geta að rannsóknir sýna fram á að það sé gott að leggja sig yfir daginn ef fólk hefur tök á því, það er ekki merki um leti eða aumingjaskap.
Ég hef einmitt verið að velta því fyrir mér hvort streita getið verið ástæðan fyrir þeim meltingarvandamálum sem ég hef verið að glíma við. Að vera stöðugt í fight or flight veldur því nefnilega að líkaminn slekkur á ákveðnum aðgerðum, eins og meltingunni, til þess að geta verið betur undirbúinn fyrir árás, sem þýðir að meltingin fær sjaldan tíma til þess að vinna almennilega.
Það er þess vegna nauðsynlegt að hafa rútínu sem gerir ráð fyrir hvíld og slökun, sem mótvægi við streitu hins daglega lífs. Það er ýmislegt hægt að gera til þess að róa taugakerfið, t.d. að hugleiða, gera öndunaræfingar, fara í nudd eða heilun, og gera rólegar líkamsæfingar.
Það eru sem betur fer margir búnir að átta sig á mikilvægi slökunar, en það hafa t.d. sprottið upp hæglætishreyfingar síðastliðin ár sem mótvægi við þennan hraða sem við búum við, enda er fátt gagnlegra en að leyfa sjálfum sér að sitja kyrr í þögninni. Það er merkilegt að finna fyrir því hvernig það eitt að slaka á virðist setja eitthvað ferli í gang, bæði andlega sem líkamlega.
Margir eiga erfitt með það, vegna þess að ákveðnar tilfinningar geta bærst innra með manni þegar ekkert er til þess að trufla mann. Það er kannski líka þess vegna sem fólk forðast að hvíla sig og slaka markvisst á, en það gerir ekkert annað en að ýta þeim vandamálum sem eru til staðar á undan sér, sem getur valdið frekari erfiðleikum síðar meir.
Það er þá kannski betra að hlúa að sjálfum sér, strax í dag, áður en vandamálin verða alvarlegri. Ég er að minnsta kosti að prófa mig áfram með alls konar hluti til þess að koma sjálfri mér í betra jafnvægi. Sumt er einfalt, eins og að borða hægt og tyggja matinn almennilega. Ég hef ekki verið að drekka koffín undanfarið, en ég finn hvernig það hjálpar mér að takast betur á við daginn, þar sem orkan mín helst jafnari.
Annað þarf ég að læra, en ég hef áhuga á alls konar námskeiðum og verkfærum sem ég á eftir að kanna, eins og námskeiðið Núllstilla líkamann hjá Happy Hips, þar sem unnið er með sogæðakerfið, taugakerfið og stoðkerfið og Sigrum streituna hjá Primal, en mig langar einnig að prófa breathwork og læra að vinna betur með öndunina. Það er sem betur nóg til í verkfærakistunni þegar kemur að ró og hvíld, svo lengi sem maður ber sig eftir því.
Comments