top of page

Mín andlega vakning: Hluti I

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Oct 28, 2024
  • 3 min read

Updated: Nov 22, 2024

Þegar ég byrjaði á minni andlegu vegferð var mitt eina markmið að líða betur.

ree

Ég hef glímt við kvíða og vanlíðan alla mína ævi, en þegar ég leitaði mér aðstoðar í geðheilbrigðiskerfinu var ég ekki sátt við það sem mér var boðið upp á, sem varð til þess að ég leiddist út á aðrar brautir. Ég byrjaði að fara á alls konar námskeið í heilun og miðlun þegar ég var 25 ára gömul og uppgötvaði þá að ég bjó yfir ákveðinni næmni, en sumir kennararnir mínir sögðu við mig að ég ætti eftir að starfa við slíkt síðar meir.


Mér fannst ég hins vegar þurfa að vinna meira í sjálfri mér svo ég hélt áfram að nýta þessi námskeið, sem og heimsóknir til ráðgjafa og heilara, til þess að vinna úr mínum eigin sársauka. Mér fannst ég aldrei tilbúin til þess að byrja að vinna með aðra en fór þess í stað sífellt dýpra með mína eigin sjálfsvinnu.


Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að ég væri ekki að verða heilari og miðill, heldur að eitthvað annað væri að eiga sér stað. Ég ætlaði mér aldrei að vera á einhverju andlegu þroskaferðalagi, eins og sumir setja sér það sem markmið að uppljómast í þessu lífi, en þrátt fyrir það virtist ég vera á einhverri braut sem ég vissi ekki alveg hvert myndi leiða mig.


Fyrir um það bil fjórum eða fimm árum síðan upplifið ég svo „tómið“. Ég vissi að ég væri ekki hugur minn, líkami, tilfinningar, hugsanir eða minn persónuleiki eða sjálfsmynd, en þarna upplifði ég það beint. Ég var mitt sanna sjálf, sú sem ég raunverulega er í mínum innsta kjarna, ekki manneskja, heldur sál, vitund, sköpunin, mitt æðra sjálf, ljós, kærleikur, friður eða hvað sem þú vilt kalla það.


Þessi upplifun varði aðeins í nokkur andartök. Þegar ég kom til baka þá fannst mér hún áhugaverð en svo sem ekkert merkilegri en aðrar upplifanir sem ég hafði fundið fyrir. Það kom mér því á óvart þegar ég var að lesa bók eftir minn uppáhalds andlega kennara, Adyashanti, sem lýsti þar sinni andlegu vakningu á sama hátt og ég hafði upplifað þessa reynslu, en fyrir honum var þetta andartak þar sem hann vaknaði til meðvitundar um það hver hann væri.


Fyrir mér var þetta enn ein af mínum andlegum upplifunum sem ég vissi ekki alveg hvað þýddi, þannig að ég hélt mínu daglega lífi einfaldlega áfram. Það er ekki fyrr en núna sem ég sé hlutina í samhengi og átta mig á því sem ég er búin að vera að ganga í gegnum síðan. Það fór nefnilega ýmislegt að gerast eftir þessa upplifun, sem ég taldi upphaflega vera eðlilegt framhald af öllu því sem ég var búin að vera að gera á þessari vegferð, en skil núna að var afleiðing þessarar andlegu vakningar.


Ég fer betur yfir það sem gerðist í seinni hluta þessarar umfjöllunar um mína andlega vakningu, en það varð til þess að ég fór að lesa mér betur til hvað væri að eiga sér stað og fann á því lýsingar hjá andlegum kennurum. Þó það sé ekki mikið talað um það, þá virðist nefnilega fara af stað ákveðið ferli þegar maður kemst í tæri við manns innra sjálf, en Adyashanti skrifaði t.d. bók um það sem fólk gengur í gegnum eftir andlega vakningu sem ber heitið The End of your World.


Adyashanti lýsir því þannig að eftir slíka vakningu sé gamla ferðalaginu lokið, í átt að því að sjá og skilja í fyrsta sinn, þar sem þú hafðir enga meðvitund um hver og hvað þú raunverulega ert. Þá tekur við nýtt ferðalag þar sem þú byrjar að tjá þitt sanna sjálf á hverju stigi tilveru þinnar en það er ferðalag sem getur tekið þig mörg ár að ljúka.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page