top of page

Mín andlega vegferð

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 12, 2020
  • 3 min read

Updated: Mar 2, 2021


Þegar ég byrjaði fyrst að leita mér aðstoðar vegna þess að mér leið ekki nógu vel, ræddi ég bæði við heimilislækni um kvíða og streitu og hitti svo sálfræðing tvisvar, en þar sem þau vildu aðallega ræða mögulega lyfjagjöf varð ég fráhverf því að leita mér frekari hjálpar í heilbrigðiskerfinu.


Þetta varð til þess að ég leiddist frekar fljótt út á andlegar brautir og prófaði mig áfram með óhefðbundnar lækningar. Ég var nefnilega ekki að leitast eftir því að taka lyf við vanlíðan minni, heldur vildi ég skilja af hverju mér leið svona og hvernig væri hægt að vinna með rót vandans.


Þegar ég var tilbúin hóf ég því viðtalsmeðferð hjá sálmeðferðaraðila og byrjaði í heilun hjá Brennan heilara á sama tíma. Næstu árin átti ég eftir að prófa mig áfram með ýmiss konar meðferðir, en ég var til í að reyna hvað sem er til þess að vinna úr mínum málum og kynnast sjálfri mér betur, með gagnrýnum huga að sjálfsögðu.


Á ákveðnum tímapunkti byrjaði ég svo að fara á námskeið í andlegum málefnum, en þar komst ég að því að ég byggi yfir hæfileikum á sviði miðlunar og heilunar. Að uppgötva að veruleikinn er ekki alveg sá sem manni hefur verið kennt og upplifað vekur upp margar spurningar sem maður vill fá svör við, helst sem fyrst.


Ég tók því alls konar námskeið í heilun, túlkun drauma, lestri tarotspila, miðlun og svo framvegis, þar sem ég prófaði mig áfram með þessa hæfileika hjá mismunandi kennurunum. Þrátt fyrir það hef ég aldrei starfað sjálf við miðlun og heilun, þar sem ég hef alltaf fókusað á að nýta allt sem ég hef lært til þess að vinna með sjálfa mig og koma mínu eigin lífi og líðan í betri farveg.


Fyrst um sinn fannst mér að sjálfsögðu spennandi að fá sannanir fyrir því að það sé eitthvað meira til en við mannfólkið heyrum og sjáum með berum augum og hafði mikinn áhuga á því að þróa mína yfirnáttúrulegu hæfileika áfram.


Að mínu mati hefur maður hins vegar ekkert við slíka hæfileika að gera ef maður kann ekki með þá að fara eða er ekki á góðum stað í lífinu með sjálfan sig. Allra síst á maður að nýta þá til þess að hjálpa öðrum ef maður er sjálfur í tómu tjóni.


Ég fór því smá saman að hafa minni áhuga á því að þróa mína dulrænu hæfileika og því meiri áhuga á að lesa andlegar bókmenntir, stunda hugleiðslu og vera í núinu, og almennt reyna að skilja hver ég er og hvað ég sé að gera hérna á þessari jörð.


Það sem skiptir mig mestu máli er einmitt að sinna minni sjálfsrækt, enda sé ég það núna hvernig það sem ég hef gert og lært í andlegum málefnum hefur frá upphafi snúist um það að vinna í sjálfri mér og takast á við gömul áföll í mínu lífi. Sjálfsrækt og andleg málefni hafa þannig haldist í hendur á mínu ferðalagi frá byrjun.


Að vera á andlegri vegferð snýst nefnilega ekki um að búa yfir skyggnigáfum, heldur að taka ábyrgð á lífi sínu og rækta sjálfan sig svo lengi sem maður lifir. Það er eitthvað sem hvert og eitt okkar getur tekið sér fyrir hendur, burtséð frá því hvort við búum yfir dulrænum hæfileikum eður ei.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page