top of page

Mitt hjartans mál

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • May 9, 2023
  • 4 min read

Updated: May 22, 2023

Síðastliðinn sunnudag útskrifaðist ég úr Þín persónulega umbreyting, sem er níu mánaða ferðalag sjálfskoðunar hjá Starcodes Academy.

Ég hafði ekki hugsað mér að byrja í þessu námi síðastliðið haust, þar sem það skaraðist á við þriggja ára nám mitt í sjamanisma sem ég lauk síðasta október, en mér bauðst þetta tækifæri og í dag er ég svo þakklát fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að segja já við því, þó svo að það hafi verið erfitt hjá mér á tímabili að vera í fullri vinnu og tvöföldu námi.


Það var vel þess virði, sérstaklega vegna þess að ég upplifði svo mikla breytingu á sjálfri mér fyrir um það bil mánuði síðan. Fyrstu þrír mánuðir þessa árs voru mér erfiðir; ég var voða dauf og átti erfitt með að vera glöð eða spennt fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Ég hef glímt við orkuleysi og vaknað þreytt, sama hversu mikið ég hef sofið, meira að segja þegar ég hef getað sofið út um helgar.


Ég hef verið svona nokkurn veginn frá því að ég man eftir mér en aldrei skilið af hverju. Ég hef farið í milljón blóðprufur og reynt ýmislegt til þess að reyna að finna út úr þessari þreytu, sleni og orkuleysi. Einn daginn í byrjun apríl, þegar ég var á leiðinni út í búð að hlusta á popptónlist í bílnum, varð hins vegar breyting á mér en allt í einu var ég bara voða kát með lífið og sátt við að vera til.


Ég óttaðist að þessi tilfinning myndi hverfa en dagarnir liðu og hún fór ekki neitt. Ég vaknaði á morgnana, klár í verkefni dagsins. Ég finn að sjálfsögðu fyrir þreytu þegar ég fer ekki nógu snemma að sofa, en er alls ekki svona andlaus eins og ég var vön. Mér líður eins og ég hafi verið að draga sjálfa mig í gegnum lífið með akkeri bundið við annan fótinn, akkeri sem er nú skyndilega horfið, sem gerir allt svo mikið léttara.


Þvílíkur munur! En þessi breyting kom ekki til af engu, heldur er hún afleiðing af þeirri sjálfsvinnu sem ég hef stundað síðastliðin tólf ár. Ég hef nú verið í andlegu námi samfleytt í fimm ár, en auk þess hef ég tekið ótal námskeið síðan ég fór á mitt fyrsta tarot námskeið þegar ég var 25 ára gömul. Það var upphafið að minni næmni og skynjun, en líka upphafið af því að ég færi almennilega að vinna úr þeim kvíða og vanlíðan sem hefur hrjáð mig frá því að ég var barn og unglingur.


Ég hef verið hjá ýmiss konar þerapistum, heilurunum og ráðgjöfum í gegnum árin sem hafa aðstoðað mig við að læra á tilfinningar mínar og hjálpað mér að fá fyrir þær útrás og losa þær úr kerfinu. Ég hef þurft að sleppa takinu, aftur og aftur, af tilfinningum líkt og ótta, sorg, reiði, skömm og sársauka. Ég upplifi að þessi breyting og léttir sé tilkominn vegna þess að þessar tilfinningar draga mig ekki lengur niður og aftra mér frá því að vera sú manneskja sem ég er í mínum innsta kjarna.


Ég trúi ekki á neinar töfralausnir þegar kemur að sjálfsrækt. Þessi árangur og betri líðan er afleiðing af ótrúlega mikilli vinnu, orku, tíma og peningum sem ég hef lagt í að vinna með sjálfa mig. Það er eitthvað sem ég sé svo engan veginn eftir í dag, þegar ég finn að ég get verið til og lifað í sátt við sjálfa mig; elskað sjálfa mig eins og ég er. Þegar ég losaði mig við allt það sem ég er ekki, fann ég sjálfa mig undir því öllu saman, ljósið og kærleikann sem ég er.


Líf mitt hefur í sjálfu sér ekki breyst, auðvitað tekst ég ennþá við áskoranir í mínu lífi, en mér líður engu að síður svo mikið betur nú þegar ég get verið einlæglega ég sjálf. Það er ekkert sem segir að ég muni svífa um á bleiku skýi það sem eftir er ævinnar, en ég veit núna að ég get tekist á við hvað sem lífið muni færa mér, vegna þess að ég bý yfir styrk innra með mér til þess að takast á við hvað sem er.


Ég hef upplifað marga sigra, bæði litla sem stóra, á þessu ferðalagi sem ég er búin að vera á með mína geðheilsu frá því að ég ákvað að gera mitt allra besta til þess að vinna úr minni vanlíðan. Þessi nýjasti sigur finnst mér hins vegar marka nýtt upphaf í mínu lífi, þar sem ég þarf ekki lengur að burðast með svo margt og mikið, heldur leyft mér að njóta þess að vera til.


Þetta ferðalag mitt hefur nefnilega, þrátt fyrir að hafa verið á köflum ótrúlega erfitt, orðið til þess að ég hef kynnst frábæru fólki sem hefur sýnt mér stuðning og hlýju, auk þess sem ég hef blessunarlega kynnst sjálfri mér betur, sem þýðir að ég hef uppgötvað hvað það er sem ég hef gaman af og vil helst gera við lífið. Uppgjöri mínu við fortíðina er – að mestu leyti – lokið og bjartari framtíð blasir við.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page