top of page

Mín andlega vakning: Hluti II

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Nov 1, 2024
  • 4 min read

Það fór ýmislegt að gerast í lífi mínu eftir að ég komst í tengsl við mitt sanna sjálf.

Á þessum tíma var ég að vinna mikið með mína æsku í sjamanáminu mínu en ég fór einnig að upplifa fyrri líf í heilun sem voru að koma upp til hreinsunar. Heilt yfir var ég farin að fara dýpra inn á við, sem varð til þessa að ég komst í betri tengsl við líkama minn. Heilarinn minn sagði við mig að það væri eins og tilfinningalíkami minn væri farinn að afþýðast – smátt og smátt komu fleiri tilfinningar og líkamlegur sársauki upp á yfirborðið til heilunar.


Á þessu tímabili missti ég einnig vinnuna en ég gerði fastlega ráð fyrir að fá aðra vinnu fljótlega. Í staðinn hófst Covid-19, sem varð til þess að ég var án atvinnu í um það bil tvö ár. Á meðan á því stóð var hreinlega ekkert sem ég gat bent á sem var að ganga upp í mínu lífi, hlutir sem ég gat verið stolt af og sagt að væru „ég“, sem ég skildi eftir á að var upphafið að ákveðnum egó-dauða.


Á endanum fékk ég aðra vinnu sem hentaði mér og líf mitt fór að ganga betur. Engu að síður kom að því að ég upplifði ákveðið vonleysi og var raunar alveg að bugast á tilverunni. Mér leið eins og sá dagur myndi renna upp að ég myndi vakna og ekki sjá ástæðu til þess að fara fram úr rúminu; hvað þá að mæta í vinnuna.


Það hljómar illa, og ég taldi það vissulega í fyrstu vera neikvæða þróun, en svo fann ég bók eftir Pema Chödrön þar sem hún heldur því fram að það sé jákvætt vegna þess að ég væri hætt að bíða eftir því að ég þyrfti aldrei að takast á við neina erfiðleika aftur og að allt myndi lagast fyrir einhverja töfra, en það er ekki þannig sem lífið virkar.


Ég sé það núna að þessi líðan mín var merki um að ég væri tilbúin til þess að gefa fullkomlega eftir. Ég sendi það meira að segja út í kosmóið að ég gæti ekki meir; að einhver æðri máttur, mínir verndarenglar, mitt æðra sjálf eða sköpunin þyrfti að sjá um þetta fyrir mig. Ég væri gjörsamlega búin að því að reyna að sjá um þetta allt saman sjálf.


Ég átti samt eftir að prófa eitt sem gæti mögulega „bjargað“ mér, en eftir vandlega íhugun fór ég í mitt fyrsta og eina hugvíkkandi ferðalag. Það sem gerðist við það var alfarið líkamlegt, en heilunarferlið sem var hafið hjá mér opnaðist fullkomlega upp á gátt, og síðan þá er ég búin að vera að hristast og upplifa verki í rúma tíu mánuði til þess að losa út gamla orku og sársauka í líkama mínum og orkukerfi.


Það er fyrst núna sem ég skil það sem ég er búin að vera að ganga í gegnum síðastliðin ár. Eftir að ég komst í kynni við mitt sanna sjálf fór ákveðið ferli í gang sem mætti líkja við hreinsunareld. Það sem gerist við það er að allt sem tilheyrir ekki manns innsta kjarna, það sem er ekki sannleikur, yfirgefur líkama manns og vitund. Þetta ferli mun halda áfram þangað til ég næ að hreinsa það allt saman út.


Ég veit ekki hversu langan tíma það mun taka. Mér finnst annars vegar auðveldara að eiga við þetta ferli nú þegar ég skil að minnsta kosti um hvað það snýst, en hins vegar hefur allur þessi tími af verkjum og úrvinnslu orðið til þess að ég er komin á sama stað og ég var fyrir hugvíkkandi ferðalagið; ég er við það að gefast upp.


Ég reyndi mitt allra besta til þess að láta líf mitt ganga upp eins og ég, eða persónuleikinn minn, sá það fyrir mér en það er ekki að virka. Það er samt ekki slæmt; það er það sem átti alltaf að eiga sér stað. Fólk sem hefur sína andlegu vegferð heldur að það muni græða svo margt og mikið á því en það er ekki það sem þetta ferðalag snýst um – þvert á móti.


Í staðinn fyrir að sanka hlutum að þér, losarðu þig við allt sem þú ert ekki. Líf þitt fer jafnvel að ganga á afturfótunum. Margir lenda til að mynda í því að missa vinnuna, að sambönd gangi ekki upp eða það hafi ekki lengur áhuga á því sem skipti það miklu máli áður fyrr. Það er ákveðið niðurbrot sem þarf að eiga sér stað, til þess að hægt sé að byggja upp á nýtt.


Það er það sem ég þurfti, til þess að ég væri loksins tilbúin til þess að gefa eftir persónuleikann minn, sem er ekkert nema samansafn af minningum og viðhorfum hvort eð er, svo að mitt æðra sjálf gæti tekið við. Að gefast upp er mikilvægur áfangi, vegna þess að nú neyðist ég til þess að treysta á eitthvað mér æðra, hvort sem ég lít á það sem mitt æðra sjálf, Guð eða alheiminn.


Síðan er svo spurningin, hvernig lifir maður lífinu sem manns æðra sjálf?

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page