Næm alla tíð
- Guðný Guðmundsdóttir
- Feb 18, 2021
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég hef alltaf sagt að ég hafi ekki farið að finna fyrir miðilshæfileikum mínum fyrr en á fullorðinsaldri, enda á ég mér engar minningar um að hafa verið skyggn sem barn.

Eftir því sem á leið fór ég hins vegar að velta því fyrir mér hvort það gæti verið að ég hefði verið næm alla tíð. Ég var nefnilega vön því að vera vakandi fyrir tilfinningum og líðan annarra og fór í framhaldinu að hugsa hvort sá eiginleiki kæmi til af meðvirkni, sem ég bjó vissulega yfir, eða af þessari næmni.
Líf mitt sem barn og unglingur var að mestu leyti í föstum skorðum; ég fór í skólann, íþróttir og tónlist og lærði heima. Það var engu að síður einnig drukkið heima hjá mér, sem hafði mikil áhrif á mig vegna þess að ég vissi aldrei þegar ég kom heim til mín hvort ástandið væri eðlilegt eða hvort einhvers konar leiðindi væru í gangi. Ég lærði því snemma að fylgjast vel með umhverfi mínu og aðstæðum, til þess að reyna að átta mig á því hverju ég gæti átt von á, en sú óvissa var eiginlega verri heldur en sjálf drykkjan.
Þetta ástand varð til þess að mér fannst ég stöðugt þurfa að vera á vaktinni og skanna það sem var að gerast í kringum mig. Án þess að gera mér grein fyrir því las ég í hegðun fólks og aðstæður til þess að finna möguleg merki um hættu eða ummerki um að eitthvað væri að. Þegar ég byrjaði í andlegum málefnum velti ég því þess vegna fyrir mér hvort það sem ég finndi á mér í kringum annað fólk væri til komið af þessum hæfileikum eða hvort ég væri bara vön því að taka svona vel eftir því sem gerðist í kringum mig.
Ég get tekið nokkur dæmi um hvers konar atvik ég á við. Fyrir nokkrum árum var ég að tala við samstarfskonu mína í vinnuna um eitthvað mál og fann hversu pirruð ég var. Ég skildi þó ekki af hverju ég væri pirruð, vegna þess að þetta mál skipti mig afar litlu máli. Skyndilega áttaði ég mig á því að ég var í rauninni ekki pirruð, heldur var ég aðeins að finna tilfinningar samstarfskonu minnar, sem tók þetta tiltekna mál afar nærri sér.
Ég man líka þegar ég byrjaði í nýrri vinnu og var kynnt fyrir einum samstarfsaðila mínum en ég upplifði það eins og ég hefði gengið á vegg. Ég fann einhvern veginn fyrir því að við værum ákaflega ólíkir einstaklingar sem hefðum hreint ekkert sameiginlegt. Það átti enda eftir að koma í ljós en við unnum saman í nokkur ár og þó að við héldum uppi kurteislegum samræðum við hvort annað var skýrt að við vorum einfaldlega ekki á sömu línu.
Að lokum get ég sagt frá því að ég var fór reglulega á rúntinn með vinkonu minni þegar við vorum í framhaldsskóla en ég var vön því að setjast inn í bíl og skynja umsvifalaust hvernig henni leið. Það dæmi útskýrir held ég best þá niðurstöðu sem ég hef komist að varðandi muninn á þessari næmni annars vegar og meðvirkni hins vegar. Ég tel að næmni mín sé ástæðan fyrir því að ég fann svo vel hvernig henni leið en meðvirknin varð til þess að ég gat ekki aðskilið tilfinningar mínar frá hennar.
Ég var vön því að fara fljótt í þann gír sem hún var í, hvort sem hún var glöð og kát eða leið og döpur, burtséð frá minni eigin líðan. Það þurfti mörg ár af úrvinnslu úr þessari meðvirkni til þess að verða mín eigin manneskja, með mínar eigin tilfinningar og skoðanir. Aðstæður mínar sem barn og unglingur urðu vissulega til þess að ég þróaði með mér mikla meðvitund um umhverfi mitt og líðan annarra. Í mínum huga varð það mögulega til þess að opna smá saman á þessa næmi eða auknu skilningarvit.
Markmiðið með því að vera á andlegri þroskabraut snýst jú einmitt um það að nýta hugleiðslu og núvitund til þess að taka betur eftir hugsunum manns, skoðunum og viðhorfum, sem gerir manni kleift að átta sig á því hvernig manni líður raunverulega og verður til þess að maður getur tekið meðvitaðar ákvarðanir, í stað þess að láta undirmeðvitundina um að stjórna því hvernig maður lifir lífinu eða fara í gegnum það á sjálfsstýringu. Ég get því kannski sagt að ég hafi verið að vinna slíka vinnu allt frá barnæsku eða unglingsárum og að sú vinna sé að skila sér í þeirri auknu næmi sem ég upplifi í dag.
Comments