Nám er tækifæri
- Guðný Guðmundsdóttir
- Dec 3, 2020
- 3 min read
Updated: Mar 2, 2021

Þegar ég var enn í vinnu vissi ég af ákveðnum námskeiðum sem ég vildi gjarnan taka, en ég setti það ekkert endilega í forgang þegar ég vann fullan vinnudag. Þegar ég varð svo atvinnulaus, hafði ég að sjálfsögðu allan tíma í heiminum til þess að gera það sem mig langaði til, en ekkert endilega peningana til þess. Á þessu ári hef ég engu að síður farið á flest af þeim námskeiðum sem ég hef hingað til haft áhuga á, þökk sem ýmsum þeim úrræðum sem til eru fyrir þá einstaklinga sem vilja mennta sig eða auka við þekkingu sína.
Í vor nýtti ég starfsmenntasjóð VR til þess að fara loksins á almenna 8 vikna námskeiðið hjá Dale Carnegie, sem ég hafði mikið gagn og gaman af. Í sumar las ég svo til um átak stjórnvalda sem varð til þess að ég gat farið á námskeið hjá Endurmenntun HÍ sem ég hafði haft áhuga á lengi, fyrir aðeins 3.000 krónur, og tók ég þar Verkefnastjórn: Fyrstu skrefin.
Ég vissi einnig af því að hægt væri að fara frítt á eitt námskeið í gegnum Vinnumálastofnun, svo ég kíkti á listann af þeim námskeiðum sem þau voru að bjóða upp á, sem varð til þess að ég tók fimm vikna námskeið í Digital Marketing hjá NTV tölvu- og viðskiptaskólanum. Vinnumálastofnun hefur jafnframt af og til samband til þess að bjóða fólki þátttöku í ákveðnum námskeiðum, sem þýddi að ég gat farið frítt á námskeið sem ég hafði haft annað augað á, en það var námskeiðið 5-daga áskorun: Vörumerkið ég! hjá Rúnu Magnúsdóttur markþjálfa.
Það er tvennt sem mér finnst ég helst hafa lært af þáttöku minni í öllum þessum námskeiðum. Í fyrsta lagi, finnst mér það að hafa farið á þessi námskeið hafa hjálpað mér við að finna út úr því hverju ég hef mestan áhuga á. Þegar ég var enn að vinna, var ég alltaf að velta því fyrir mér hvort ég ætti að fara að læra eitthvað meira, hvort sem það væri verkefnastjórnun, stafræn markaðssetning, markþjálfun eða eitthvað annað. Ég þarf ekki lengur að velta því fyrir mér, því þessi styttri námskeið sem ég hef tekið hafa gefið mér betri hugmynd um þessi málefni og sýnt mér hvað vakti áhuga minn og hvað ekki, sem er í sjálfu sér ágætis útilokunaraðferð og leið til þess að skerpa fókusinn.
Í öðru lagi, finnst mér þau námskeið sem ég tek, sérstaklega þau sem snúa að persónulegri hæfni, ekkert endilega vera að kenna mér eitthvað nýtt. Það sem þau gera hins vegar, er að veita mér þarfa áminningu um það sem skiptir mig mestu máli í lífinu og veitir mér mesta gleði. Ég kem alltaf út af slíkum námskeiðum með skýrari fókus á sjálfa mig, auk þess sem ég er meira peppuð fyrir því að framkvæma það sem skiptir mig mestu máli, því ég sé að fólkið sem er með mér á slíkum námskeiðum er gjarnan í svipuðum hugleiðingum og ég sjálf, en við erum jú flest að reyna að finna út úr því hver við erum og hvernig við getum látið drauma okkar rætast.
Síðasta námskeiðið sem ég fór á, um mitt vörumerki, fannst mér sérstaklega hjálplegt þegar kom að því að minna á það sem ég vil helst vera og gera. Æfingarnar sem markþjálfinn lét okkur gera voru raunverulega frekar einfaldar, en þær hjálpuðu mér við að komast aftur á beinu brautina og minnti mig á þá manneskju sem ég vil vera; einlæg, hreinskilin og hugrökk. Það er minn X-factor, það sem gerir mig einstaka, að ég þori að vera nákvæmlega ég sjálf og segja hreinskilningslega frá mínum upplifunum, hugsunum og tilfinningum, en með því vonast ég til þess að lesendum mínum finnist þeir geta gert slíkt hið sama.
Það næsta sem tekur við hjá mér er háskólanám í janúar, en þar sem ég verð þá búin að vera atvinnulaus í hálft ár, fell ég undir átak Vinnumálastofnunar Nám er tækifæri, sem gerir mér kleift að vera eina önn í námi á atvinnuleysisbótum. Mér datt ekki annað í hug en að nýta mér það þegar það bauðst, svo ég sótti um í vefmiðlun hjá Háskóla Íslands og fékk þar inngöngu. Ég gríp öll tækifæri sem mér gefast til þess að halda áfram að læra og þroskast svo lengi sem ég lifi. Það er aldrei að vita til hvers það mun að lokum leiða.
Comentários