Ofnbökuð langa í kryddlegi
- Guðný Guðmundsdóttir
- Jun 29, 2023
- 2 min read
Updated: Jul 27, 2023
Ég er búin að prófa ýmislegt þegar kemur að mataræði síðastliðin ár, í þeim tilgangi að bæta meltinguna mína og almenna líðan.

Eitt af námskeiðunum sem ég fór á var fjögurra mánaða nám hjá Hildi M. Jónsdóttur í Heilsubankanum en hún bjó til prógramm þar sem hún nýtir alla þá þekkingu sem hún hefur viðað að sér í gegnum tíðina til að hjálpa fólki að bæta heilsu sína og ná sambærilegum árangri og hún náði.
Ég fylgi þessu mataræði ekki í dag, enda er það afar strangt og ég er ekki að glíma við það margvísleg heilsufarsvandamál að mér finnist ég þurfa þess, en ég lærði samt ótrúlega margt og kom út úr þessu námi með mikinn fróðleik og alls konar uppskriftir sem ég notast ennþá við í dag.
Það var líka hjálplegt að hluti af námskeiðinu fólst í því að tilheyra lokuðum Facebook hóp þar sem fólk var duglegt að deila því hvernig gengi og skiptast á uppskriftunum. Það var einmitt ein kona með mér í hópnum sem deildi uppskrift af þessum fiskrétt en síðan þá hef ég margsinnis gert einhvers konar útgáfu af þessum rétti.
Ég á yfirleitt næga afganga af þessum rétt, enda erum við bara tvö í heimili, sem nýtist í aðra kvöldmáltíð eða til þess að taka með í vinnuna sem hádegismat. Ég á því miður ekki mikið pláss í frysti, annars væri tilvalið að frysta helminginn og eiga þetta seinna þegar ég nenni ekki að elda eða fara í búð.
Innihaldsefni:
langa eða annar hvítur fiskur
avókadóolía
perlulaukur
pestó
grænar ólífur
kapers
spínat
tómatar
sveppir
kókósrjómi
Konan sem kom með þessa uppskrift talaði um að leggja fiskinn í kryddlög fyrr um daginn, sem samanstendur af olíunni, perlulauknum, pestóinu, ólífunum, kapers, spínati og kirsuberjartómötum, en ég er nú vön að henda þessu öllu saman í eitt fat og inn í ofn með þetta og hef svo hrísgrjón með.
Mataræðið á námskeiðinu var náttúrulega mjög strangt, svo við vorum jafnvel að notast við ákveðnar vörur (eins og kókósrjómann frá Santa Maria) en í dag nota ég bara það sem ég á til, svo lengi sem það innihaldi ekki mjólkurvörur. Mér finnst gott að nota hafrarjóma (þó svo það sé ekki alveg glútenlaust) og setja rifinn ost frá Violife yfir.
Comments