top of page

Ótti við umtal eða gagnrýni

  • Writer: Guðný Guðmundsdóttir
    Guðný Guðmundsdóttir
  • Mar 1, 2021
  • 3 min read

Updated: Dec 8, 2022

Ég hef verið hugsi yfir því undanfarið hversu samþykkt það virðist orðið að það sé í lagi fyrir fólk að dæma aðra eða hneykslast á því, jafnvel þó að um ókunnuga einstaklinga sé að ræða.

Það er til dæmis frekar algengt að það komi upp álitamál, í fjölmiðlum og/eða á samfélagsmiðlum, þar sem fólki finnst það þurfa að mynda sér skoðun eða velja sér hlið, í mörgum tilfellum án þess að hafa kynnt sér málin neitt af viti.


Það eru ekki síst þessi samskipti sem hafa valdið því að ég hef aldrei komið skrifum mínum almennilega á framfæri, ekki fyrr en nú, þrátt fyrir að hafa verið að skrifa pistla í mörg ár. Þó svo að ég hafi alltaf haft þessa þörf fyrir að koma hugsunum mínum og tilfinningum á blað, hef ég lengi vel óttast hvers konar viðbrögð ég gæti fengið við því sem ég hef að segja.


Þessi ótti er í sjálfu sér ekki óþarfur, enda hef ég persónulega reynslu af því að skrifa umdeildan pistil sem varð til þess að ég varð tekin fyrir og kölluð nöfnum af Jóni og Gunnu úti í bæ. Viðhorf mitt til þess að tjá mig hefur engu að síður breyst síðustu vikur og mánuði en mér finnst ég loks geta sagt það sem ég hef að segja, án þess að hafa of miklar áhyggjur af því hvað fólki kunni að finnast eða óttast einhvers konar umtal eða gagnrýni á það sem ég hef fram að færa.


Ég hef nefnilega verið að átta mig á því að ég þurfi ekki að taka það inn á mig þó svo að fólk sé ósammála mér eða jafnvel gagnrýnið á mig eða mínar skoðanir. Ef ég ætla mér að deila skoðunum mínum opinberlega verð ég að vera undir það búin að ég geti fengið alls konar viðbrögð frá fólki, sem er að sjálfsögðu frjálst að tjá sig um það sem ég hef að segja. Í rauninni er það ekkert nema besta mál að fólk hafi mismunandi skoðanir á hlutunum, svo lengi sem það kemur gagnrýni sinni á framfæri á málefnalegan hátt.


Í þeim tilvikum þar sem gagnrýni fólks er hvorki málefnaleg né uppbyggileg, finnst mér gott að hafa það í huga að ákveðnir einstaklingar nýta athugasemdakerfi eða samfélagsmiðla til þess að fá útrás fyrir reiði eða vanlíðan, á meðan aðrir upplifa einhvers konar nautn við það að dæma og slúðra. Það er ekkert sem ég get gert í því, enda stjórna ég því ekki hvað fólk gerir eða segir, en ég hef val um það hvernig ég bregst við og hvort ég kjósi að taka slíkt umtal inn á mig eða ekki.


Ég hef einnig verið að sætta mig við það að ég eigi í hættu að vera misskilin í hvert sinn sem ég tjái mig. Ég hef rekið mig á það áður að þó svo að ég geri mitt allra besta til þess að vera skýr í mínum skrifum virðast lesendur mínir stundum hafa fengið eitthvað allt annað út úr því sem ég hef sett á blað en ég hafði ætlað mér. Ég verð að venjast því að fólk mun túlka skrifin mín út frá sínum eigin sjónarmiðum og viðhorfum, sama hvernig ég orða hlutina.


Í hinum fullkomna heimi væru þetta ekki hlutir sem ég þyrfti að velta fyrir mér, vegna þess að það sæi enginn ástæðu til þess að gagnrýna aðra eða taka tilfinningar sínar út á þeim. Eins og staðan er í dag, hef ég þó gert mér grein fyrir því að ég get ekki látið utanaðkomandi aðila hafa áhrif á það hvernig mér líður eða hvað ég geri við líf mitt. Það er ekkert því til fyrirstöðu að ég deili því sem ég hef að segja með öðrum, svo lengi sem ég er sjálf sátt við það og finn fyrir löngun til þess að koma því á framfæri.



Ekki missa af pistli! Fylgstu með á Facebook og Instagram.

Comments


  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon
  • Pinterest
  • Black LinkedIn Icon

©2019 Guðný Guðmundsdóttir

bottom of page