Sagan endalausa
- Guðný Guðmundsdóttir

- Oct 27, 2022
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég fékk hálfgert kvíðakast nýlega þegar ég var að reyna að sofna seint um kvöld. Það var búið að vera svo margt í gangi hjá mér að ég hafði hreinlega ekki haft tíma til þess að sinna því öllu. Það var ótrúlega erfitt fyrir mig vegna þess að ég hef alltaf litið á mig sem svo pottþétta manneskju; ég er stundvís, vel undirbúin og reyni almennt að standa mig vel í því sem ég tek mér fyrir hendur.

En ég var bara komin með of mikið á mína könnu og gat ekki gert allt sem ég ætlaði mér að gera og ekki heldur gert allt sem ég var að gera eins vel og ég hefði viljað. Mér var farið að líða illa yfir því þar til það kom að því að óttinn kom upp á yfirborðið þessa kvöldstund; óttinn við að standa mig ekki, við að fólk væri óánægt með mig, við að gleyma einhverju, við að gera mistök.
Ég þurfti alveg að róa sjálfa mig niður og líka að ákveða að ég ætlaði ekki að bæla þessa tilfinningu niður, vegna þess að ég held að ég sé einmitt búin að vera að því, að segja við sjálfa mig að þetta yrði allt í lagi, þetta myndi allt saman reddast. En þarna þurfti ég að vera hreinskilin við sjálfa mig og hlusta á þann hluta af mér sem var óttasleginn.
Í stað þess að „sussa“ á sjálfa mig þurfti ég að leyfa mér að taka mark á minni líðan og segja frekar „hey, ég heyri hvað þú ert að segja, ég skil þig, ég skil hvernig þér líður“ og sýna sjálfri mér stuðning og hlýju, frekar en að láta eins og ekkert væri að þegar mér greinilega leið alls ekki þannig.
Ég var líka farin að hugsa meira út í hvað ég væri að gera og af hverju. Ég velti því fyrir mér af hverju ég væri að þessu öllu saman og fyrir hvern það væri. Var það fyrir sjálfa mig? Var ég að verja tíma í hluti sem skipta mig máli eða reyna að gera öðrum til geðs? Hvað er það sem ég vil, hvað vil ég gera við líf mitt, hvað vil ég fókusa á? Af hverju er ég að leggja svona mikið á mig fyrir aðra?
Þessar vangaveltur sýna mér að ég sé komin skrefinu nær því að setja sjálfa mig í fyrsta sæti í mínu lífi og að það sé að skýrast hvað það er sem skiptir mig máli. Ég þarf líka að vera betri í því að setja mörk og gera kröfur, svo að ég fylgi ekki bara reglum annarra. Ég hef svolítið verið í því að láta hlutina fara í taugarnar á mér, frekar en að segja þegar mér mislíkar eitthvað eða biðja um það sem ég vil eða þarfnast.
Ég áttaði mig líka á því að ég er fullkomlega fær um að yfirgefa aðstæður sem eru ekki góðar fyrir mig, sem var gott fyrsta skref í því að gera það sem er best fyrir sjálfa mig. Ég skildi hins vegar ekki af hverju ég var að ströggla svona mikið þegar aðstæður mínar hafa aldrei verið betri; ég er umkringd góðu fólki, er í góðu starfi og að sinna verkefnum og áhugamálum sem ég brenn fyrir en þrátt fyrir það eru alls konar hlutir að angra mig.
Það er mikil uppgötvun fyrir mig að það sé hægt að eiga erfitt með samskipti, jafnvel þó að um heilbrigðar aðstæður og einstaklinga sé að ræða. Ég upplifi stundum að það sé farið yfir mín mörk eða eitthvað sé í gangi sem mér mislíkar og þá vil ég helst flýja aðstæðurnar sem ég er í, enda er það mitt varnarkerfi.
Það hljómar svo vel að geta bara farið; í nýja vinnu, nýtt samband, á nýjar slóðir. Stundum er það hið rétta í stöðunni en stundum er það leið til þess að forðast átök eða takast á við gamlan sársauka sem þarf að vinna úr. Þá er betra að vera kyrr og takast á við það sem maður þarf að tækla – vinna úr gömlum mynstrum og nýta tækifærið til þess að gera hlutina á annan hátt en maður er vanur.
Ég veit vel upp á mig sökina, að ég hef verið að forðast það að eiga ákveðnar samræður vegna þess að mér finnst óþægilegt að ræða málin, setja mörk eða segja frá því sem ég vil eða þarfnast. En hlutirnir lagast ekki af sjálfu sér. Sumt fer aldrei til betri vegar, nema maður ræði það sem manni býr í brjósti.
Að fresta því stöðugt að taka slaginn eða flýja aðstæður er engin lausn við því sem maður er að glíma við, vegna þess að sömu vandamálin bíða manns á næsta vinnustað, í næsta sambandi, á næsta stað. Og ef ekkert er að gert, heldur sagan endalausa áfram.



Comments