Samfélag fyrir okkur öll
- Guðný Guðmundsdóttir
- Dec 6, 2022
- 3 min read
Updated: Dec 8, 2022
Ég hef aldrei haft neinn áhuga á því að tjá mig um stjórnmál en ég get ekki að því gert að vera hugsi yfir þeim orðum fjármálaráðherra landsins okkar að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að tryggja jöfnuð í samfélaginu. Ef það er ekki hlutverk hennar, hvert er það þá?

Það er eins og við séum svo samdauna ástandinu sem við búum við að við samþykkjum það frekar en að hugsa um leiðir til þess að breyta því. Mér finnst að í staðinn fyrir að hugsa um okkur sem land, og hugsa um ríkisstjórnina sem alvald, að við ættum frekar að hugsa um okkur sem samfélag, sem ættbálk, og þau sem stjórna sem öldunga sem hafa verið kosnir af meðlimum ættbálksins til þess að leiða.
Þá spyr ég, af hverju erum við búin að kjósa öldunga sem finnst það ekki vera hlutverk sitt að hlúa að öllum þeim sem tilheyra ættbálknum okkar? Af hverju höfum við kosið öldunga sem finnst það ekki vera sitt hlutverk að sjá til þess að okkur geti öllum liðið eins best og mögulegt er og hlúa sérstaklega að þeim sem eiga erfitt?
Þau sem eiga hvað mest erfitt, ættu að fá mestu hjálpina, ekki einhverja brauðmola sem verða eftir á borðinu þegar hinir eru búnir að fá sér. Ef við hugsum um alla þá sem eiga um sárt að binda sem fullgilda meðlimi af ættbálknum, þá ættum við hin sem eigum afganga og getum hjálpað að gera það.
Ef við hugsum um fólk sem mannverur, ekki sem vandamál, þá myndum við aðstoða þá sem hafa orðið fyrir slysum, sem glíma við sjúkdóma, geðrænar áskoranir, fíknivanda, fátækt og þá sem eru á hrakhólum, við myndum hjálpa þeim vegna þess að þau eru hluti af okkur, hluti af heildinni. Við myndum sýna kærleika, hlýju og samúð. Þau sem hafa haft tækifæri til þess að afla meira myndu gefa til ættbálksins, svo að allir gætu vel við unað.
Leyfum ekki þeim að stjórna samfélaginu okkar sem er sama um aðra, vegna þess að þau líta á það sem svo að fólkið sem er að glíma við erfiðleika séu þar sem þau eru vegna þess að þau hafi ekki lagt sig nóg fram. Finnum fólk sem búa yfir raunverulegum leiðtogahæfileikum, sem vilja að öllum líði vel og að við höfum öll tækifæri til þess að vaxa og dafna.
Í mínum huga er það ekki útópía að halda því fram að við getum lifað í sátt og samlyndi. Það er til nóg fyrir alla, það er ekki vandamálið, heldur að gæðunum sé misskipt. Að það sé til fólk sem telur að það eigi það skilið að eiga meira en aðrir, fólk sem finnst í lagi að aðrir eigi erfitt, eins og það sé einfaldlega þeirra vandamál.
Mér hafa aldrei fundist stjórnmál áhugaverð en þetta er engu að síður sú leið sem við notum til þess að ákveða hvernig við lifum í samfélagi við aðra. Þar af leiðandi er þetta eitthvað sem við þurfum öll að skipta okkur af. Ég vil leiðtoga sem leitast við að skapa jöfnuð og velmegun í samfélaginu, sem setja lýðheilsumál á oddinn.
Ég er ekki að reyna að fá fólk til þess að kjósa einhvern ákveðinn stjórnmálaflokk heldur langar mig miklu frekar til þess að við förum að endurhugsa kerfið í heild sinni og hvað við viljum fá út úr þeim stjórnarháttum sem við veljum okkur.
Endurskoða hvaða kröfur við gerum til þeirra sem leiða okkur. Spyrja hvort að við ætlum að leyfa fólki að nota kerfið til þess að tryggja sína eigin hagsmuni í staðinn fyrir að vinna að sameiginlegum hagsmunum ættbálksins. Huga að því hvers konar samfélagi við viljum lifa og búa í. Við getum svo sannarlega gert mikið, mikið betur en við gerum í dag.
Comments